Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:30:00 (5353)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hér gefst ekki tími til að ræða þetta mál í neinum smáatriðum en ég leyfi mér að fullyrða að þær staðreyndir og upplýsingar sem fyrir liggja um málið gefa ekki tilefni til þeirra ýkju- og öfgakenndu sleggjudóma sem hér hafa verið kveðnir upp.
    Að því er varðar vatnsmengunina á Suðurnesjum, þá er hún svo sannarlega ekkert leyndarmál. Þetta er mál sem átti sér mjög langan aðdraganda. Við kvöddum til alla okkar hæfustu sérfræðinga til að stýra þeim rannsóknum. Þær stóðu yfir mjög langan tíma og það var óyggjandi niðurstaða að um mengun var að ræða en hins vegar var, þar sem þetta hafði átt sér stað í langan tíma, ekki hægt að mati hinna færustu sérfræðinga að slá neinu föstu um að orsakavaldurinn væri aðeins einn.
    Ég endurtek að ég tel að samningarnir sem gerðir voru af hálfu íslenska ríkisins í þessu tilviki séu dæmi um góðan vilja beggja aðila og ekki síst varnarliðsins sjálfs til að bæta fyrir mengun sem óumdeilanlega var, a.m.k. að hluta, á þess ábyrgð og í staðinn fyrir að lasta það ættum við að fagna því. Og ég vil reyndar geta þess að þegar hin nýja vatnsveita var loksins opnuð voru mörg hundruð Suðurnesjamanna þar viðstaddir sem þekktu þetta mál í þaula. Það hefur verið rætt víða í sveitarstjórnum á Suðurnesjum og í blaðakosti Suðurnesjamanna og ekki heyrst ein einasta óánægjurödd.
    Að því er varðar Heiðarfjall, þá er það nú einfaldlega svo að þar hafa rannsóknir farið fram. Þar er auðvitað forræðið fyrir því faglega af hálfu umhvrn. Engin rök er hægt að færa fyrir því að af hálfu utanrrn. sé reynt að hylma yfir mál af þessu tagi, því fer fjarri. Ég vísa því alveg á bug.