Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:33:00 (5354)


     Karl Steinar Guðnason :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt að hlusta á þessa umræðu og þá sleggjudóma og dylgjur sem hér hafa komið fram. Sem Suðurnesjamaður vil ég flytja sérstakt þakklæti til utanrrh. og utanrrn. fyrir það hvernig að málum var staðið varðandi vatnsból Suðurnesjamanna. Þar var mjög myndarlega að verki staðið og brugðist skjótt við. Þar var engu leynt. Suðurnesjamenn hafa sjálfir fagnað því hvernig að málum var staðið, sveitarstjórnarmenn hafa fagnað því mjög og þau úrræði eða þær úrbætur sem áttu sér stað eru á þann veg að vatnsbólum Suðurnesjamanna er ekki lengur hætt vegna þess að vatnið er tekið allt annars staðar en á þessum hugsanlegu mengunarsvæðum. Það er líka fróðlegt að heyra í umræðunni hér, sem svokallaðir herstöðvaandstæðingar standa fyrir, á hversu lágu plani andstaða er gegn því að Íslendingar taki þátt í vörnum vestrænna þjóða, taki þátt í og styðji að Ísland verði varið land.