Endurgreiðslur á tannréttingakostnaði

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:16:00 (5373)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 662 til hæstv. heilbr- og trmrh. um endurgreiðslur á tannréttingakostnaði. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvenær má vænta þess að það fólk, sem á kröfur á Tryggingastofnun ríkisins vegna tannréttingakostnaðar og á að fá þær greiddar samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 1/1992 (bandormi), fái greiðslur í hendur?``
    En þannig er að samkvæmt þeim lögum átti Tryggingastofnun ríkisins að auglýsa fyrir 15. febr. 1992 með áberandi hætti eftir þeim aðilum sem töldu sig eiga rétt á endurgreiðslum samkvæmt framansögðu og var viðkomandi gert að senda inn umsóknir fyrir 15. mars 1992 á sérstöku eyðublaði sem stofnunin hefur látið í té. Að öðrum kosti félli þessi réttur niður. Greiðslum samkvæmt þessu bráðabirgðarákvæði skal ljúka eigi síðar en 31. des. 1993 eins og ég skil lögin.
    Nú er mér ekki kunnugt um á hversu áberandi hátt var auglýst af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins en mér er hins vegar kunnugt um að það hafa borist 4.500 umsóknir. Þessir einstaklingar velta því að sjálfsögðu fyrir sér hvenær þeir muni fá greiðslur í hendur. Hvort það verður greitt á síðasta mögulegum degi, þann 31. des. 1993, og eins það hvort tekið verður tilliti til verðlagsbreytinga frá því að krafan varð til. Þá veltir maður því einnig fyrir sér um hversu háar upphæðir hér er að ræða og hversu mörgum starfsmönnum Tryggingastofnun ríkisins þarf að bæta við til að sinna þessu verkefni. Þó það komi ekki fram í minni fsp. þá væri forvitnilegt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra.