Líffæraflutningar frá Íslandi til annarra landa

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:32:00 (5378)

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 672 er fyrirspurn til heilbrrh. um líffæraflutninga frá Íslandi til annarra landa. Til skamms tíma hefur skort hér lög um heimildir einstaklinga til að gefa samþykki sitt fyrir því að nema á brott líffæri eða lífrænt efni úr líkama viðkomandi einstaklings við dauða. Á þessu varð breyting í febrúar 1991 þegar Alþingi samþykkti lög um brottnám líffæra og krufningar. Mikill skortur er á líffærum hjá þeim stofnunum erlendis sem standa í slíkum líffæraflutningum. Þess vegna hafa læknar erlendis og sjúkrastofnanir fylgst mjög náið með því hvernig við Íslendingar höfum hugsað okkur að koma þessum hlutum fyrir og sérstaklega hafa þeir læknar erlendis sem stundað hafa líffæraflutninga á Íslendingum fylgst mjög náið með hvernig við ætlum að standa hér að.
    Nú er eitt ár síðan að allar lagaheimildir fengust fyrir því að slíkir líffæraflutningar gætu átt sér stað. Í þessu sambandi vil ég vitna í viðtal í Dagblaðinu 28. mars sl. við séra Jón Baldvinsson, sjúkrahúsprest í London, þar sem hann er að fjalla um þá erfiðleika sem skapast hafa vegna þess að þessir líffæraflutningar hafa enn ekki átt sér stað frá Íslandi. Þar segir séra Jón orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef verið í sambandi við heilbrigðisyfirvöld og lækna heima vegna þessa og allir höfðu góð orð um það. Við sendum nauðsynlegar upplýsingar heim og nú er ár liðið og ekkert hefur gerst. Mér hafa verið gefnar tölur um þá sem hefði verið möguleiki að taka líffæri úr og samkvæmt þeim eru það tíu manns. Líffæri úr einum manni geta gagnast þremur þannig að þarna var hægt að bjarga mörgum, segir Jón.``
    Því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh.:
  ,,1. Hvað veldur því að flutningar á líffærum hafa enn ekki hafist frá Íslandi til annarra landa þrátt fyrir að allar lagaheimildir séu fyrir hendi?``
    Nú skil ég vel tíma tekur að koma slíkum samningum á og þeir samningar þarfnast undirbúnings. Hæstv. heilbr.- og trmrh. má ekki skilja það sem svo að einhverjar ásakanir felist í þessari fyrirspurn minni að ekki hafi verið vel að verki staðið. Fyrirspurnin er fyrst og fremst sett fram til að afla sem gleggstra upplýsinga um það hvenær megi vænta að af þessum líffæraflutningum geti orðið. Þá hef ég það í huga að í þeirri blaðagrein sem ég vitnaði í hér áðan segir séra Jón frá reglugerð sem sett hefur verið í Bretlandi þar sem verið er að flokka þá sem þurfa á þessari þjónustu að halda, annars vegar í forgangsröð þar sem Bretarnir eru á fyrsta klassa, þegna EB-þjóðanna á öðrum klassa og síðan aðrar þjóðir á þriðja klassa og í þeim hópi erum við Íslendingar auðvitað. Þannig að ég skil mjög vel að það þurfi að vanda þennan undirbúning eins og kostur er. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.:
  ,,2. Hvenær má búast við að slíkir líffæraflutningar hefjist?``