Framkvæmd jafnréttislaga

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:48:00 (5383)



     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í till. til þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem lögð hefur verið fyrir Alþingi er í kafla um starfsmannamál ríkisins að finna ákvæði um hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum. Ríkisstjórninni er þar falið að ná því markmiði að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins verði 30% í lok gildistíma áætlunarinnar. Hér er átt við heildarþátttöku í nefndum á vegum hvers ráðuneytis en ekki miðað við 30% í hverri nefnd. Þegar leitað er eftir tilnefningu við skipan í opinbera nefnd verði framvegis óskað eftir nafni karls og konu þannig að markmiði þessu verði náð. Jafnréttisráð taki árlega saman tölfræðilegt yfirlit um hlutfall kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum.
    Ég vil nota þetta tækifæri og minna á það að þegar frv. til nýrra laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla var lagt fyrir Alþingi árið 1989 var lagt til að fara svokallaða tilnefningarleið, þ.e. að svokallaðir tilnefningaraðilar tilnefndu tvo, konu og karl, og að við skipan skuli þess gætt að skipting milli kynjanna verði sem jöfnust. Nefndin rökstuddi tillögu sína um nauðsyn þess að lögfest yrði formleg leið til að ná markmiðum um sem jafnasta stöðu kvenna og karla í opinberum ráðum og nefndum.
    Þessi till. náði ekki fram að ganga á Alþingi en ákvæðið var þannig: Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu þar sem því verður við komið, setja sem næst jafnmargar konur og karla og ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.
    Með framkvæmdaáætluninni sem ég greindi frá fyrr í máli mínu, sem ég vænti að verði afgreitt á yfirstandandi þingi, væri hins vegar farin sú leið sem upphaflega stóð til að farin yrði til að tryggja sem jafnastan hlut kvenna og karla í nefndum og ráðum. Þess má geta að svokölluð tilnefningarleið sem fram kemur í þessari þál. var lögfest í Danmörku árið 1985. Það ár var hlutur kvenna í nefndum 12,7% en var kominn í 38% árið 1990. Í skýrslu Jafnréttisráðs, Hlutur kvenna í opinberum nefndum, stjórnum og ráðum í apríl 1990, kom fram að konur voru þá 16,6% nefndarmanna í opinberum nefndum. Sambærileg tala frá 1987 var 9,4%. En opinberum nefndum er skipt í tvo hópa. Annars vegar eru nefndir sem eru kosnar af Alþingi. Þar var hlutur kvenna í apríl 1990 15% en var 9% 1987. Hins vegar eru verkefnanefndir,

en þar var hlutur kvenna í apríl 1990 17%, var 11% 1987. Hlutur kvenna hefur því aukist töluvert á þessu tímabili.
    Benda má á jafnréttisáætlanir ráðuneyta sem tóku flestar gildi um áramót 1988--1989. Í öllum var tekið fram að stefnt skuli að jafnari hlut kvenna og karla í nefndum og ráðum á vegum viðkomandi ráðuneyta. Það skyldi gert með því að minna sérstaklega á skyldur stjórnvalda hvað varðar jafnrétti kynjanna og með tilvísun til 12. gr. laganna. Þessar áætlanir ná til næstu áramóta og þá er ætlunin að gera úttekt á þessu atriði sem og öðrum er varða jafnréttisáætlanir.
    Hvað varðar nefndir á vegum sveitarstjórna var að koma út ný skýrsla hjá Jafnréttisráði, Verkaskipting kvenna og karla í sveitarstjórnum, en þar kemur m.a. fram að konur eru 30% fulltrúa í nefndum, stjórnum og ráðum stóru sveitarfélaganna. Sú tala endurspeglar nokkuð vel hlutfall þeirra í sjálfum borgar- eða bæjarstjórnum sem er núna rétt 32%. Þann 8. maí verður síðan haldinn fundur á vegum Jafnréttisráðs með fulltrúum frá jafnréttisnefndum sveitarfélaga. Þar verður m.a. farið í möguleika jafnréttisnefndar til að hafa áhrif á tilnefningar viðkomandi sveitarfélaga í opinber ráð og nefndir og þannig fylgt eftir ákvæðum 12. gr. jafnréttislaganna.
    Ég vænti þess að ég hafi svarað fsp. hv. þm.