Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 15:31:00 (5393)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég verð að láta það álit mitt í ljós strax í byrjun að ég hefði vænst þess, þegar frv. um ferðamál lítur loks á nýjan leik dagsins ljós, að það væri meira að vöxtum og með tilkomumeira innihaldi en það sem hér er til umfjöllunar.

    Það hefur þegar verið farið yfir það í ræðum þeirra sem fyrr hafa talað hver forsaga mála er frá undanförnum þingum. Hv. síðasta Alþingi var komið langleiðina með að setja nýja heildarlöggjöf um endurskoðaða um ferðaþjónustu þar sem sameinuð voru í einu lagafrv. ákvæði sem varða málefni ferðaþjónustunnar í víðasta skilningi þess orðs. Það var afrakstur af miklu starfi sem unnið hafði verið að samfellt meira og minna í eitt og hálft ár og lágu fyrir þinginu bæði það frv. og sömuleiðis till. til þál. um ferðamálastefnu sem hugsuð var sem almenn stefnumörkun, samsíða lagasetningu á þessu sviði.
    Hæstv. núv. samgrh. lét það fljótlega frá sér fara að hann hygðist gera það að einu af sínum fyrstu verkefnum, gott ef ekki að forgangsverkefni, að endurskoða lög um málefni ferðaþjónustunnar og leggja fyrir Alþingi nýtt frv. í þeim efnum. Ef ég man rétt var jafnvel látið í veðri vaka að það yrði eitt af fyrstu málum hæstv. ráðherra sem hann legði fyrir þingið. Það voru út af fyrir sig ágæt tíðindi að hæstv. ráðherra hygðist veita ferðaþjónustunni þannig sérstaka athygli og ekki vanþörf á þó nærtækt hefði verið og sé enn að spyrja hvort ekki hafi verið hugsanlegt að nýta í ríkara mæli en nú er raunin þá miklu vinnu sem þegar hafði verið unnin á þessu sviði á undanförnum tveimur árum.
    Þá er rétt að hafa í huga hvernig að þeirri vinnu var staðið. Hún var fyrst og fremst unnin á vegum nefndar sem skipuð var fulltrúum helstu ferðaþjónustuaðila og fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Þannig var fyrir því séð að með einum eða öðrum hætti ættu, eftir því sem best var vitað, allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa áttu á Alþingi greiðan aðgang að einstökum nefndarmönnum. Þar á meðal var einn af hv. alþm. Sjálfstfl. Flokkur núv. hæstv. samgrh. átti því greiðan aðgang að upplýsingum.
    Í þessari nefnd var unnið gríðarlega mikið starf og svo ánægjulega tókst til að nefndin náði samhljóða niðurstöðu, afgreiddi nefndarálit sín og tillögur, bæði þáltill. um ferðamálastefnu og frv. til nýrra heildarlaga um málefni ferðaþjónustu, með einróma áliti.
    Sömuleiðis tókst um þessa tillögugerð og vinnu ágæt samstaða --- ég treysti mér til að fullyrða það --- við alla helstu hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Málið var á dagskrá tveggja ferðamálaþinga og á hinu síðara, sem svo háttaði til um að var að miklu leyti helgað umfjöllun um þessa stefnumörkun og tillögugerð, var ekki annað að heyra en í öllum aðalatriðum væri góð samstaða um þessa vinnu enda höfðu hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu átt mjög mikinn hlut í henni og átt greiðan aðgang að nefndinni á öllum starfstíma hennar og haft mjög mikil áhrif á mótun vinnunnar á einstökum sviðum. Þess vegna eru það nokkur vonbrigði, verð ég að segja, hæstv. forseti, að eftir árs umhugsunartíma, eða svo gott sem og með hliðsjón af þeirri vinnu sem hæstv. samgrh. tók við og lá fyrir þegar hann kom í samgrn. skuli ekki vera um myndarlegri málafylgju að ræða af hans hálfu þegar hann loksins leggur hér fram sitt fyrsta þingmál á sviði ferðaþjónustu en raun ber vitni. Eins og hér gefur að líta eru það eingöngu tvær lagagreinar sem hafa þann eina tilgang að setja út úr Ferðamálaráði og stjórn Ferðamálasjóðs núverandi ráðherraskipaða fulltrúa.
    Þetta er að sjálfsögðu harla bágborin uppskera hjá hæstv. ráðherra og í engu samræmi við yfirlýsingar hans frá fyrstu mánuðum í embætti, í engu samræmi við stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar sem lofar allt öðru og að mínu mati í alls engu samræmi við þá miklu vinnu sem búið var að leggja í stefnumörkun á þessu sviði, þá miklu vinnu sem var algjörlega á þverpólitískum og faglegum grundvelli reist og sérstaklega vandað til þess að um þá vinnu væru ekki pólitískir flokkadrættir.
    Nú eru hins vegar greinilega breyttir tíma. Ég hef ekki heyrt af neinu starfi af því tagi þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka eigi einhverja aðild að yfirferð á þessum málum og heyrði reyndar ekki í máli hæstv. ráðherra að neitt slíkt stæði til.
    Ég ætla þó fyrir siðasakir eftir sem áður að spyrja hann að því hvort það sé á dagskrá af hans hálfu, ef hann hrindir í framkvæmd áformum sínum um að setja á fót nýja nefnd til að endurskoða lög um málefni ferðaþjónustunnar, að í þá nefnd veljist fulltrúar ólíkra sjónarmiða og þar á meðal einhverjir fulltrúar stjórnarandstöðuflokka eða hvort sú nefnd verði á einlitum flokkspólitískum grunni eins og hefur viljað bregða við hjá hæstv. ríkisstjórn, þeirri sem nú situr.
    Það er reyndar nokkuð skemmtileg upplifun fyrir þann sem hér talar að minnast þess

að á undanförnum árum kom það oftar en ekki fyrir að talsverð rekistefna varð út af kröfuhörku Sjálfstfl., sem þá sat í stjórnarandstöðu, fyrir að fá ekki bara fulltrúa í ýmsar stjórnskipaðar nefndir sem þá var verið að setja á laggirnar heldur fleiri en aðrir flokkar stærðar sinnar vegna. Ég held sú hentistefnumynd megi vera ýmsum hv. alþm. Sjálfstfl. nokkurt umhugsunarefni sem er að dragast upp af þeim flokki sem fyrir einu eða tveimur árum síðan neitaði að skipa fulltrúa t.d. í nefnd allra flokka um endurskoðun langtímaáætlunar um vegagerð nema hann fengi aukið vægi í þeirri nefnd vegna stærðar sinnar, frekar tvo fulltrúa en einn. En sá var þó annars vegar lýðræðisþroski og skilningur þeirra sem þá fóru með völd og hins vegar vilji þeirra til að reyna að hafa sæmilegan frið og sæmilega pólitíska samstöðu um málin að þetta var iðulega látið eftir Sjálfstfl. Sjálfstfl. fékk á síðasta kjörtímabili, þótt í stjórnarandstöðu væri, í þó nokkuð mörgum tilvikum tvo fulltrúa á móti einum fulltrúa annarra flokka í stjórnskipuðum nefndum þegar þannig háttaði til að allir flokkar voru beðnir að koma með tilnefningar. Og þetta er sami flokkur og síðan hefur mannað nefndir sínar og starfsemi sína með ýmsum hætti eins og raun ber vitni á undanförnum mánuðum. Þar má nefna til að mynda hina frægu átján manna nefnd hæstv. menntmrh. sem er skipuð sautján mönnum af höfuðborgarsvæðinu og einum sjálfstæðismanni norðan af landi, sem er að vísu margra manna maki og alls góðs maklegur, en þar fer a.m.k. ekki mikið fyrir því að reynt sé að hafa þverpólitíska mynd á slíku starfi.
    Hin fræga ,,steríónefnd`` hæstv. ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum, tvíhöfðanefndin, er að sjálfsögðu ekki skipuð öðrum en þeim sem hafa nýlega endurnýjað flokksskírteini frá stjórnarflokkunum upp á vasann. Öðruvísi mér áður brá og ég hef hér gert grein fyrir því og það kemur fram í skjölum frá þessum tíma hvernig að þessari vinnu var staðið á fyrri árum.
    Hæstv. ráðherra situr sem sagt uppi með þá rýru uppistöðu að leggja fram þessa örk, prenttextinn rétt teygist yfir á aðra síðuna, greinargerðin er ekki meiri en það að vöxtum með fylgigögnum þessa fyrsta stjfrv. hæstv. ráðherra um ferðamál, að hún kæmist fyrir á einni blaðsíðu í Gagni og gamni. Þetta er sem sagt uppskeran hjá hæstv. ráðherra.
    Þegar hefur verið vitnað í alldigurbarkaleg ummæli í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, hvítu bókinni, sem er annað meginrit stjórnarstefnunnar og næst á eftir handbók ráðherranna frá því á síðasta vori. Þar segir m.a. þetta um samgöngu- og ferðamál á bls. 42, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verið er að endurskoða löggjöf um ferðamál og verða frumvörp um þau lögð fram á Alþingi haustið 1991``. Nú er bara farið að vora talsvert á árinu 1992 og löngu liðið hið kalda og leiða haust en það er ekki farið að vora mikið hjá hæstv. samgrh. Formaður Alþfl. taldi að vísu að farið væri að vora í skoðanakönnunum hjá Alþfl. og eru kratar þó ekki góðum vorkomum vanir verð ég að segja. En haustið er löngu liðið hjá hæstv. samgrh. en ekkert bólar á þeirri vinnu sem er lofað í stjórnarsáttmálanum.
    Síðan eru ekki dónaleg fyrirheitin í textanum. Þar segir svo í næstu setningu, með leyfi forseta: ,,Að því er stefnt að ný lög taki gildi frá og með ársbyrjun 1992 og verði til þess að erlendum ferðamönnum sem hingað koma fjölgi.`` Það eru ekki dónaleg fyrirheit, það á bara að tryggja það með lagasetningu, setja lög um svo og svo mikla fjölgun erlendra ferðamanna ef taka má textann bókstaflega. Jafnframt á að lengja ferðatímann og ferðaþjónustuna á að skipuleggja sem arðvænlega atvinnugrein og er allt gott um það að segja.
    Enn fremur segir í næstu málsgrein stjórnarsáttmálans um þetta efni: ,,Til að ná þessum markmiðum verður`` --- og nú bið ég menn að taka vel eftir --- ,,dregið úr miðstýringu og Ferðamálaráð Íslands endurskipulagt.`` Ég vek sérstaka athygli manna á orðalaginu ,,dregið úr miðstýringu``, það á að vera eitt aðallykilorðið í endurskipulagningu hæstv. ríkisstjórnar á ferðamálum að draga úr miðstýringu. En um hvað vitnar sá hugsunarháttur sem hér birtist í frv.? Er það sérstaklega trúverðugt að sá ráðherra sem hefur það eitt fram að færa í málefnum ferðaþjónustunnar eftir árs starf að hann þurfi að hreinsa út það stjórnskipaða Ferðamálaráð sem er á síðari hluta síns kjörtímabils til þess eins að koma, eins og hann sagði hér, pólitískum trúnaðarmanni þar í forsæti? Er það að draga úr

miðstýringu? Er það aðferðin við að efla fyrirheit hæstv. ríkisstjórnar um að breyta skipan ferðamála sérstaklega með það að leiðarljósi að draga úr miðstýringunni? Að hafa það eitt fram að færa af því að svo vill til að núv. formaður Ferðamálaráðs, og e.t.v. einhverjir aðrir af þeim sem í ráðinu eru og ráðherra getur haft áhrif á, eru ekki í sama flokki og hæstv. samgrh.? Þess vegna er flutt hér grímulaust frv. um það og það eitt að hreinsa þessa aðila út til að koma, eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur, pólitískum trúnaðarmönnum sínum að. Er það aðferð Sjálfstfl. við að draga úr miðstýringu að hreinsa út allt það fólk sem kann að hafa stutt eða starfað í öðrum stjórnmálaflokkum og koma sjálfstæðismönnum að í staðinn?
    Nei, þetta er óskaplega dapurleg niðurstaða, herra forseti, svo ekki sé meira sagt og verður að lýsa miklum vonbrigðum yfir því að hæstv. samgrh. skuli koma svo fátæklega klæddur, ég segi ekki að hann sé jafnklæðalaus og keisarinn var forðum en það vantar þó ekki mikið upp á.
    Það er svo allt annar hlutur að menn geta haft þá afstöðu að í tilvikum sem þessum og sem almennar reglur í stjórnkerfinu ætti að miða við það að ýmsir af trúnaðarmönnum og æðstu embættismönnum í stjórnkerfinu ættu að fylgja kjörtímabilum ríkisstjórna. En ég tel að það eigi þá ekki bara við um Ferðamálaráð og stjórn Ferðamálasjóðs og reyndar miklu síður en um margt annað og ég hyggst færa rök fyrir því. Ef hæstv. ríkisstjórn hefur þá stefnu að almennt séð væri heppilegast að skipta um forustumenn í stjórnum, nefndum og ráðum þegar nýjar ríkisstjórnir taka við völdum þá er það stefna út af fyrir sig en á þá líka að vera almenn stefna. Hún á ekki að beinast að einstökum aðilum, eins og á við í þessu tilviki og er fremur hvimleitt að skuli sérstaklega eiga við hér þar sem kjörtímabil er langt komið hjá þeirri stjórn og því ráði sem í hlut á. Þau eiga rétt liðlega eitt ár eftir ef ég man rétt. Það háttaði einmitt mjög svipað til þegar ég tók við starfi samgrh. á árinu 1988. Þá var um eitt ár eftir af kjörtímabili þess Ferðamálaráðs og þeirrar stjórnar sem þá sat. Ekki hvarflaði að mér að fara að rjúka til með lagasetningar til þess eins að hreinsa það ágæta sjálfstæðisfólk út sem þá sat alla vega í stjórn Ferðmálasjóðs og var í forustu fyrir Ferðamálaráði. Reyndar skiptir það mig engu máli hvaða stjórnmálaskoðanir það fólk hafði, ég átti við það ágætt samstarf á meðan það lauk sínu kjörtímabili.
    Ég vil jafnframt minna á það, sem þegar hefur verið gert, að þegar ég skipaði nýjan formann fyrir Ferðamálaráði fór ég ekki í flokkspólitískan farveg með það mál. Þvert á móti valdi ég fyrrverandi alþingismann úr öðrum stjórnmálaflokki og þáverandi og núverandi starfsmann úr öðrum stjórnmálaflokki, manneskju sem hafði getið sér mjög gott orð fyrir skeleggan málflutning í ferðamálum og ég hafði fylgst með, m.a. á Alþingi, sem öflugum talsmanni fyrir þennan málaflokk. Manneskju sem ég treysti mjög vel til þess að taka þarna við forustu og færa á ýmsan hátt ferska og nýja vinda inn í starfsemi Ferðamálaráðs hvað tókst óumdeilanlega að mínu mati.
    Hæstv. samgrh. hefur a.m.k. ekki það fyrir sér sem rök til þess að sparka núverandi formanni Ferðamálaráðs að hann sé sérstakur pólitískur trúnaðarvinur fyrrv. samgrh. eða flokkssystkin því svo er ekki. Mætti hæstv. samgrh. e.t.v. taka sér þetta til eftirbreytni og skipa formann Ferðamálaráðs úr gerólíkum stjórnmálaflokki þegar þar að kemur. Það verður fróðlegt að bíða og sjá.
    Ég held líka að menn verði að horfa á það hvers eðlis sú stofnun eða sú starfsemi er sem í hlut á hverju sinni áður en því er svarað hvort endilega sé eðlilegt eða nauðsynlegt að stjórnarformennska fylgi kjörtímabilum ríkisstjórnar eða ráðherra. Staðreyndin er auðvitað sú að fulltrúar samgrh. í Ferðamálaráði eru þar í miklum minni hluta og hafa þar á ekki nokkurn hátt þá oddaaðstöðu sem átt getur við í einstökum öðrum tilvikum. Það dæmi sem hér var vitnað til um lánasjóðinn er auðvitað allt annars eðlis, m.a. vegna þess mikla valds sem stjórn lánasjóðsins er með sérstökum lögum selt í hendur varðandi framkvæmd í sínum málaflokki. Hlutverk Ferðamálaráðs er annars eðlis auk þess sem starf þess, eðli málsins samkvæmt, er fyrst og fremst mótað af hagsmunaaðilum greinarinnar sem eru í yfirgnæfandi meiri hluta í ráðinu. Þar eru fulltrúar stærstu hagsmunaaðila eins og lög um skipan ferðamála mæla fyrir um. Þar gegnir því allt öðru máli en um ýmislegt annað og sama

má segja um stjórn Ferðamálasjóðs. Þar er auðvitað aðeins einn fulltrúi ráðherra sem er í minni hluta borið saman við fulltrúa hagsmunaaðila í greininni. Ég held því að hæstv. ráðherra, þegar hann tekur sérstaklega fram að hann hafi ekkert upp á störf núverandi Ferðamálaráðs eða stjórnar Ferðamálasjóðs að kvarta eða klaga, þurfi að útskýra þetta aðeins betur fyrir okkur. Hvers vegna er þessi lagabreyting nauðsynleg, úr því að hann hefur ekkert annað til málanna að leggja um ferðamál en að rjúka til með sérstaka lagasetning í þessu efni? Heldur hæstv. ráðherra virkilega að hann geti sannfært nokkurn mann um að hann hafi ekki nægjanlega frjálsar hendur til að setja á fót endurskoðunarnefnd þó svo að núverandi Ferðamálaráð sitji áfram og ljúki kjörtímabili sínu á rétt liðlega ári? Þetta er auðvitað slíkur endemis málflutningur að það tekur engu tali. Það er alls enginn sem skyldar hæstv. samgrh. til að setja formann Ferðamálaráðs í forustu fyrir þá vinnu sem hann vill láta vinna á sviði ferðamála. Hann þarf ekki frekar en hann vill að taka þaðan nokkurn fulltrúa í sínar nefndir eða sín ,,appíröt`` sem hann setur til starfa á þessu sviði. Það er auðvitað alveg augljóst mál. Ef hæstv. ráðherra hefði í höndunum dæmi um að það hefði torveldað honum störf eða Ferðamálaráð hefði beinlínis spillt áformum hans um breytingar á þessu sviði af einhverju tagi þá gegndi öðru máli og ég hygg að menn hefðu þá frekar einhverja samúð með hæstv. ráðherra.
    Ég verð að segja, herra forseti --- þó að ég taki það skýrt fram að ég er ekki þar með að útiloka að það sjónarmið sem hér er hreyft við að æskilegt sé að forusta fyrir starfi af þessu tagi fylgi kjörtímabilum ríkisstjórna geti ekki átt rétt á sér --- að fyrir þessum málatilbúnaði, svo nakinn sem hann hér birtist, sé ég ákaflega lítil rök. Mér finnst hann heldur ósmekklegur. Ég verð að segja það alveg eins og er, heldur ,,brútall`` eins og menn mundu kannski leyfa sér að segja. Það er óskaplega grímulaust og nakið hjá hæstv. ráðherra að hann þurfi af einhverjum óútskýrðum ástæðum, sem hann hefur engin rök fært fyrir hér, að koma einhverjum sérstökum pólitískum vildarmönnum sínum að. Það er ekki nægjanlega gott tilefni. Lagasetning á Alþingi á ekki að ganga eftir brautum slíkra duttlunga, slíkra pólitískra duttlunga. Það er með öllu ósæmandi og Alþingi hefur margt miklu þarfara að gera en að taka tíma sinn í slíka hluti. Ég tel þess vegna að þetta fyrsta frv. hæstv. ráðherra sé sýnu lakast af þeim þremur sem hann er með á dagskránni í dag. Ég ætla að leyfa mér að nefna það í þessu samhengi, þótt umræður um þau komi hér síðar, vegna þess að hin eru þó efnisleg að einhverju leyti, hvort sem menn eru þeim sammála eða ekki eða hafi við þau meiri eða minni athugasemdir. Þau eru þó efnisleg og hafa eitthvað fram að færa. Í þeim felst einhver afstaða, einhver málafylgja á þessu sviði. En þessi útafskiptingarsnepill hæstv. samgrh. er með miklum endemum og satt best að segja harla lágkúrulegur.
    Hæstv. ráðherra varð, eins og kunnugt er, til þess á síðasta Alþingi meira en aðrir menn --- og má segja að hann eigi að því mestan heiður ef ekki óskiptan --- að stöðva framgang frv. í efri deild, frv. sem var langleiðina komið í gegnum Alþingi með ágætu samkomulagi, m.a. með einróma samþykkt neðri deildar sem þá fundaði í þessum salarkynnum. Ég tel að hæstv. samgrh. beri talsverða ábyrgð á, vegna þess að hann komst óvænt í þá aðstöðu undir lok þinghaldsins, að bregða fæti fyrir þetta mál og ég tala ekki um á jafnómálefnalegum forsendum og hann gerði. Það var, eins og hér hefur verið rifjað upp, aðaltilefni hæstv. samgrh. í ræðustólinn þá að ráðast á þáv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki skapað ferðaþjónustunni nægjanlega góð starfsskilyrði og hafa ekki létt af henni sköttum í stórum stíl eins og hæstv. ráðherra taldi einboðið og sjálfsagt að gera. Þá var það einkum virðisaukaskattur sem hæstv. ráðherra taldi að ætti að létta af ferðaþjónustunni. Hann kvartaði mikið undan því að málefni ferðaþjónustunnar hefðu ekki fengist skoðuð í réttu ljósi sem samkeppnisatvinnugreinar eins og hún væri.
    Ég verð að segja að hæstv. samgrh. ætti í ljósi þess hvert hefur orðið vinnuframlag hans á tæpu einu ári á sviði ferðamála að tala varlega í því ljósi sem síðar hefur fallið á þessa hluti, ummæli hans frá fyrri tíð um að aðrir hafi staðið slælega að verki í þessum efnum. Staðreyndin er nefnilega sú að ferðamálanefnd samgrn., sem starfaði á árunum 1989--1990, er sú fyrsta og eina sem unnið hefur eitthvert umtalsvert verk á því sviði

að skoða málefni ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar, sem fullgildrar og fullvaxinnar atvinnugreinar í hópi slíkra, og á þessum tíma fór fram fyrsta og eina heildstæða úttektin á starfsskilyrðum ferðaþjónustunnar í nefndinni. Til marks um það geta menn haft fylgiskjöl með þáltill. frá fyrra þingi um málefni ferðaþjónustunnar, Stefnumörkun í ferðamálum, og jafnframt að nokkru leyti fylgiskjöl með því frv. sem ég hef hér gert að umtalsefni. Eitt af meginverkefnum nefndarinnar á sínum tíma, eins og skilgreint er í hennar erindisbréfi, var að fjalla um samkeppnisskilyrði og starfsskilyrði ferðaþjónustunnar og í því skyni var unnin ýmiss konar grunnvinna og gagnasöfnun sem aldrei áður hafði farið fram í landinu. Ég hygg að þeir sem fylgdust með umræðunni um þessi mál á þeim tíma, fylgdust betur með en hæstv. núv. samgrh. gerði því hann virtist ekki hafa áttað sig á þessu og hefur e.t.v. ekki enn, því miður, munað eftir því að þá komu einmitt fram í umfjöllun fjölmiðla mjög margar nýjar og athyglisverðar upplýsingar sem ekki höfðu áður birst um mikilvægi og stærð ferðaþjónustunnar í íslenskum þjóðarbúskap. Það var m.a. afrakstur af starfi sérstaks tölfræðihóps sem settur var á laggirnar til að vinna einmitt það verkefni að kanna samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar. Í þessu skyni var settur á fót sérfræðingahópur með fulltrúum frá Hagstofu Íslands, Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun og auk þess unnu sjálfstæðir sérfræðingar með hópnum.
    Hópurinn vann allviðamikið starf og ég hvet þá sem áhuga hafa á þessum málum að verða sér úti um tillögu til þál. um ferðamálastefnu frá síðasta þingi, sem var 164. mál þess þings og var á þskj. 177. Þar er greinargerð þessa tölfræðihóps um athugun á samkeppni, stöðu og rekstrarskilyrðum ferðaþjónustu birt sem fylgiskjal og er allmikið plagg, upp á tæpar 60 blaðsíður. Þetta er fyrsta og eina heildstæða úttektin á samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrðum ferðaþjónustunnar í landinu. Hún var einmitt unnin af þessari nefnd og var m.a. grundvöllur þeirra tillagana og frv. sem hæstv. núv. samgrh., þrátt fyrir málflutning sinn, brá fæti fyrir. Í þessum hópi sátu meðal annarra Friðrik Már Baldursson frá Þjóðhagsstofnun, Kristinn Karlsson frá Hagstofu Íslands, Þorsteinn M. Jónsson frá Seðlabanka Íslands, deildarstjóri í samgrn. sem jafnframt var starfsmaður ferðamálanefndarinnar. Einnig starfaði með tölfræðihópnum á síðari stigum Vilborg Júlíusdóttir á Þjóðhagsstofnun og sumarið 1990 vann Björn Fr. Björnsson, sem þá var starfsmaður samgrn., einnig að þessu verkefni.
    Þarna var í fyrsta sinn reynt að ná fram samræmdum upplýsingum á grundvelli þjóðhagsreikningauppgjörs og rekstraryfirlits fyrir ferðaþjónustuna. Þarna var samkeppnisstaðan skilgreind og skoðuð og þarna voru fjölmargar aðrar tölfræðilegar upplýsingar tengdar ferðaþjónustu dregnar saman.
    Þess vegna er ég að rekja þetta, hæstv. forseti, að hæstv. núv. samgrh. hefur allar upplýsingar sem hann þarf. Hann vantar nefnilega ekki grunninn til þess að taka sínar ákvarðanir. Er hv. formaður samgn. orðinn órólegur? ( Gripið fram í: Ég er bara að minna á fundinn sem átti að vera klukkan fjögur.) Ég er þakklátur umhyggju hv. formanns samgn., hann er velviljaður og góðhjartaður maður eins og dæmin sanna. En ætli ég verði ekki að bera þann kross að ráða minni dagskrá í dag þó að einhverjir hér inni kynnu e.t.v. að kjósa að ég væri ekki mikið að rifja þetta upp af skiljanlegum ástæðum.
    Hæstv. samgrh., sem var brennandi í andanum síðasta vori að létta sköttum af ferðaþjónustunni og bæta starfsskilyrði, rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu, vantar engar upplýsingar ef hann hefur áhuga á að hrinda þessu í framkvæmd. Þær liggja fyrir. Þökk sé þeirri fyrstu og einu úttekt sem unnin hefur verið á samkeppnisskilyrðum og rekstrarstöðu ferðaþjónustunnar í landinu, ítarlegri úttekt sem unnin var af þessum tölfræðihópi sérfræðinga frá Þjóðhagsstofnum, Hagstofu og Seðlabanka. Auðvitað hlýtur hæstv. samgrh. að viðurkenna þetta brautryðjendastarf og nýta sér þessar upplýsingar til góðra verka.
    Það hefði verið mannsbragur á því ef hæstv. samgrh. hefði verið að tala fyrir frv. um að t.d. létta að einhverju leyti virðisaukaskatti af ferðaþjónustu. Hann hefði eignast marga stuðningsmenn í því, hæstv. samgrh. Sömuleiðis hefði það átt við ef hæstv. samgrh. hefði við afgreiðslu síðustu fjárlaga aukið fjárveitingar til ferðamála svo sem til Ferðamálaráðs. En gerði hæstv. samgrh. það? Sá sem sá ástæðu til þess að stöðva heilt frv. og

setja í uppnám gríðarlega mikið starf hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og stjórnskipaðrar nefndar út af því einu að honum fannst ekki nógu vel tekið á starfsskilyrðum ferðaþjónustunnar. Hvert hefur orðið framlag hans til þessa á því sama sviði? Jú, að lækka að raungildi fjárveitingar til Ferðamálaráðs milli ára, því miður og þar með hverfa frá þeirri þróun sem þó tókst að innleiða við afgreiðslu tvennra eða þrennra fjárlaga að auka að raungildi fjárveitingar til Ferðamálaráðs milli ára, úr tæplega 30 millj. á árinu 1988 upp í tæpar 70 millj. á síðasta ári. Síðan hefur reyndar óbreyttri krónutölu verið haldið milli ára sem þýðir, þó ekki sé mikið, lítils háttar raungildislækkun. Og það á tíma þegar tekjurstofninn er stærri en nokkru sinni fyrr og lætur nærri að um 190 millj. kr. ættu að renna til Ferðamálaráðs ef Ferðamálaráð fengi þau 10% af sölutekjum Fríhafnar sem lög gera ráð fyrir.
    Hæstv. samgrh. hefur því ekki af miklu að státa það árið sem liðið er frá því að hann tók við embætti. Þeim mun dapurlegra er þetta allt saman að framlag hans nú til þessara mála skuli ekki vera annað en þetta litla frv. um að framkvæma flokkspólitískar hreinsanir í stalinískum anda, liggur mér við að segja, í Ferðamálaráði og stjórn Ferðamálasjóðs. Flokkspólitískar hreinsanir.
    Það er heldur dapurlegt, herra forseti, að þurfa að segja þetta en það verður að ræða um hlutina eins og þeir eru og liggja fyrir. Ekki á að hlífa hæstv. núv. samgrh. frekar en öðrum mönnum við því enda rekur mig ekki minni til þess að hann hafi dregið af sér á undanförnum árum ef hann hafði eitthvað við málflutning annarra að athuga. Hann hefur ekki af þeim ástæðum undan neinu að kvarta þó að honum sé sagt hressilega til syndanna ef mönnum býður svo við horfa varðandi hans eigin frammistöðu. En það er auðvitað sjálfsagt að temja sér að gera það með málefnalegum og yfirveguðum hætti eins og ég er að reyna að gera hér, að ég tel, herra forseti.
    Ég ætla ekki efnislega að fara dýpra í þetta mál eða ítarlegar. Ég vil þó segja að það eitt veldur mér strax vonbrigðum að hæstv. ráðherra skuli vera að leggja fram þrjú frv. og tæta þar með í sundur þennan málaflokk í meira mæli en verið hefur hvað lagasafnið snertir. Það var alveg þveröfug ætlan þeirrar nefndar sem starfaði á síðasta ári. Þá var einmitt ætlunin að færa saman í ein lög öll málefni ferðaþjónustunnar svo þau væri að finna á einum og sama stað í einni samræmdri heildarlöggjöf. Hér er hæstv. ráðherra þvert á móti að breyta lögum um veitinga- og gististaði. Hann gerir þá væntanlega ráð fyrir að þau standi áfram sem sjálfstæð lög. Í öðru lagi er hann að draga út kafla um ferðamiðlun og gera að sérstökum lögum og verður þá ekki annað ráðið en það sé ætlun hans til frambúðar að þessi skipan haldist. Það tel ég miður. Ég hefði talið miklu eðlilegra að menn beindu sjónum sínum að því að í framtíðinni yrði þessum ákvæðum fundinn samastaður í einum samræmdum heildarlögum.
    Herra forseti. Þótt það sem ég hef verið að rekja af frammistöðu hæstv. samgrh. á undanförnu ári gefi kannski ekki tilefni til mikillar bjartsýni bind ég samt sem áður vonir við það að þeirri miklu vinnu að málefnum ferðaþjónustunnar sem unnin var undir forustu ferðamálanefndar samgrn. á árunum 1989--1990 verði ekki allri kastað fyrir róða. Það væri að mínu mati mikið slys. Auðvitað væri það sorglegt ef það þarf að fara þannig í stjórnsýslunni að vinna af þessu tagi --- mér liggur við að segja vegna einhverrar pólitískrar fordildar --- ónýtist í hvert sinn sem ríkisstjórnarskipti verða í landinu. Það er auðvitað bagalegt ef það verður að reglu í stjórnsýslu að slík viðamikil vinna sem unnin hefur verið, kannski undir forustu og með mikilli þátttöku hagsmunaaðila í einni atvinnugrein, geti ekki nýst mönnum þrátt fyrir einhvern mismun í pólitískum áherslum. Ekkert er við því að segja þó að nýjum herrum fylgi nýir siðir og þeir hafi sín sjónarmið varðandi yfirstjórn þessara mála eða aðra slíka hluti og séu ekki að öllu leyti sammála þeim sem áður hafa um þá vélað hvað það snertir. En að slík grundvallarvinna sem þarna fór fram nái ekki að nýtast mönnum er mjög bagalegt. Ég hlýt að hvetja menn eindregið til þess að kasta slíku ekki frá sér að óathuguðu máli. Hér voru dregnar saman geysilega miklar upplýsingar, að mörgu leyti tímamótaverk og grundvallarupplýsingar sem aldrei áður höfðu verið teknar saman í landinu og ég er alveg sannfærður um að það er sama hvaða aðila

úr ferðaþjónustu menn ræða við um það efni, allir viðurkenna gildi og mikilvægi þess starfs sem þarna var unnið. Að sjálfsögðu voru menn ekki alltaf sammála um einstök útfærsluatriði, t.d. þegar kom að samningu lagafrv. Þannig ræddu menn fram og til baka um það hversu margir ættu að sitja í Ferðamálaráði og hvort og hvernig ætti t.d. að innleiða sérstök þing fyrir ferðaþjónustuna sem atvinnugrein sem væri sambærileg við ársfundi eða þing annarra atvinnugreina eins og búnaðarþing, iðnþing o.s.frv. Um slíkt er eðlilegt og ekki nema heilbrigt að menn takist á og ræði því um líkt. En að nýta ekki undirstöðuvinnu af því tagi, sem hér var unnin og stefnumarkandi áherslur t.d. varðandi æskilega þróun og uppbyggingu í greininni, væri mikið slys. Það væri slys ef menn væru svo blindaðir af einhverjum ástæðum í starfi sínu eftir stjórnarskipti í landinu að þeir næðu ekki að nýta sér slíkt.
    Ég vil þess vegna leyfa mér að vona að þrátt fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um frv. hafi hæstv. samgrh. í huga þegar kemur að frekari vinnu, sem væntanlega verður, að halda þessu starfi til haga. Ég hvet hann mjög eindregið til að manna þá starfsemi þannig, sem hann hefur boðað að fram fari á sumri komanda, svo um þessi mál geti verið sæmilegur pólitískur friður. Það er þannig að ráðamenn koma og fara, stjórnir koma og fara, en væntanlega ætlum við þessari atvinnugrein að lifa og dafna um ókomin ár og þá held ég að það sé a.m.k. henni fyrir bestu, hvað sem öðru líður, að um málefni hennar ríki sæmileg breið pólitísk samstaða í landinu.