Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 13:28:00 (5432)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns langar mig að vekja athygli á því að hér í salnum sitja nú eingöngu konur --- og einn karlmaður birtist, fyrir utan ráðherrann að sjálfsögðu, ég bið ráðherrann afsökunar, ég átti við almenna þingmenn. ( Heilbrrh.: Það eru komnir hérna tveir.) Já, það fjölgar stöðugt, virðulegi forseti. Þessi ummæli mín höfðu mjög hvetjandi áhrif. En það sem ég vildi sagt hafa með þessu var auðvitað að það er nokkuð dæmigert fyrir áhugann á málum eins og þessu hversu menn láta sig hverfa þegar ýmis þau mál sem snerta almenning í landinu koma til umræðu.
    Mig langar að gera athugasemd við það, virðulegi forseti, að það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist að ráðherra lýsir því yfir við kynningu á máli að það hafi verið lagt fyrir áður. Nú er það svo að við erum í upphafi nýs kjörtímabils, þetta er fyrsti vetur á

nýju kjörtímabili, og það sitja nú 25 nýir þingmenn hér á þinginu. Mér finnst ekki viðeigandi að þegar ráðherrar mæla fyrir málum að þeir vísi til einhverra umræðna sem hafi átt sér stað á síðasta kjörtímabili. Ég vildi koma þessu hér á framfæri. Mér finnst þetta ekki gott. Það koma mjög mörg mál inn, ekki síst núna þessar síðustu vikur, og við höfum fullt í fangi með að reyna að setja okkur inn í málin og það er einfaldlega til of mikils mælst að mínum dómi að við förum að lesa umræður fyrri ára til þess að átta okkur á því hvað hefur verið sagt um hin ýmsu mál. Ég vil því óska eftir því að ráðherrar geri jafnan grein fyrir málum, alla vega í upphafi nýs kjörtímabils, með tilliti til nýrra þingmanna.
    Mér finnst þetta mál að mörgu leyti mjög merkilegt og ég vil fagna því eins og síðasti ræðumaður að hér er verið að samræma, hér á sér stað nokkur lagahreinsun og hún á sér auðvitað skýringar í því að ýmsir þeir sjúkdómar sem menn settu lög um fyrr á öldinni eða undir lok síðustu aldar eru sem betur fer horfnir úr okkar þjóðfélagi.
    En ég ætla að koma strax að ástæðunni fyrir því að ég kveð mér nú hljóðs. Hún er sú að sjónarhornið í þessum lögum er fyrst og fremst sjónarhóll læknisfræðinnar en mér finnst vanta hér mjög tengsl við almenning og hvernig virkja megi almenning eða skilgreina það betur hvaða kröfur beri að gera til almennings til þess að sóttvarnir megi verða sem bestar. Mig langar aðeins til að rifja það hér upp vegna þess að það skiptir máli í þessu samhengi að ef við horfum svo sem 150 ár aftur í tímann, þá voru hér landlægir ýmsir sjúkdómar eins og holdsveiki, berklar og fleiri slíkir sjúkdómar sem lögðust á allan almenning, sjúkdómar sem enn ber nokkuð á í þriðja heiminum og gengur mjög illa að ráða við.
    Á seinni hluta 19. aldar fóru að koma hingað til lands íslenskir læknar sem voru mótaðir af nýjum vísindum sem þá voru að koma upp og það er mjög merkilegt að lesa sér til um það hvernig þeir tóku á þessum málum og hvílíkar gífurlegar breytingar urðu hér á landi á stuttum tíma. Ég vil sérstaklega nefna Jónas Jónassen, sem var landlæknir í kringum síðustu aldamót, sem einbeitti sér að því að fræða almenning. Hann áttaði sig á því að leiðin til þess að ná tökum á þessum sjúkdómum var sú að fræða almenning. Hann skrifaði bækur og bæklinga, hann beindi orðum sínum til mæðra ungbarna, hann skrifaði sérstaka bók ætlaða konum og hann skrifaði sérstaka bók um almennar lækningar, ekki síst til þess að kenna fólki að þekkja sjúkdóma.
    Nú er það svo að við höfum aðgang að ýmsum bókum en ég held að til þess að ná verulegum árangri og til þess að bæði almenningur og stjórnvöld haldi vöku sinni í þessum efnum þurfi að eiga sér stað jöfn og góð fræðsla. Ég er að nefna þetta vegna þess að það hefur borið á því sjónarmiði á undanförnum árum að það sé óhætt að fara að slaka á í þessum efnum. Mér er kunnugt um umræður sem áttu sér stað í Svíþjóð þar sem menn voru að tala um að það væri nú óhætt að hætta þessum bólusetningum, hætta að bólusetja lítil börn því að þessir sjúkdómar væru meira og minna úr sögunni. En það er langt í frá að svo sé. Þess vegna er svo mikilvægt að halda vöku sinni í þessum efnum.
    Svo ég víki aðeins að frv. sjálfu eftir þennan inngang þá finnst mér vera margt mjög gott í því að finna en það vakna ýmsar spurningar varðandi framkvæmd þessara laga. Ég ætla að hlaupa strax yfir í 14. gr. Hér á undan eru fyrst og fremst skilgreiningar á gildissviði laganna og starfssviði þeirra sem eiga að vinna við sóttvarnir. Mér er ekki alveg ljóst hvernig þetta á að ganga fyrir sig samkvæmt 14. gr., hvernig sóttvarnalæknar eiga að vinna, hvernig á að framfylgja lögunum, sem mér finnst vera stór þáttur í þessu sambandi, hvernig á að framfylgja þessum lögum, hvernig á þessi keðja að ganga fyrir sig. Og þó vaknar enn stærri spurning varðandi 16. gr. þar sem segir: ,,Starfrækja skal göngudeildir vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma sem veita meðferð og rekja smitleiðir.`` Í ljósi þess mikla sparnaðar sem nú gengur yfir er vandséð hvernig eigi að fylgja eftir þessu lagaákvæði.
    Í athugasemd frá fjmrn. segir, með leyfi forseta:
    ,,Óvíst er um kostnað af slíkri deild`` --- þeir tala hér eins og um eina deild sé að ræða --- ,,en ráðuneytið telur að hver slík deild með fimm stöðugildum muni ekki kosta

undir 15 millj. kr. í árlegum rekstri auk stofnkostnaðar til innréttinga og búnaðar sem telja má að geti numið yfir 30 millj. kr.`` Það er því augljóst að eigi þetta að komast í framkvæmd þá fylgir hér nokkur kostnaður. Og ég spyr hæstv. heilbrrh.: Hvernig ætlar hann að fylgja þessu eftir? Hvenær má vænta þess að slíkum göngudeildum verði komið á fót í ljósi þess ástands sem ríkir í heilbrigðismálum hér á landi?
    Í fskj. eru skilgreindir þeir sjúkdómar sem um ræðir og ber að tilkynna og fylgjast með og það er greinilegt samkvæmt þessu frv. að menn eru mjög vakandi gagnvart ýmsum þeim sjúkdómum sem löngu er búið að útrýma hér á landi en auðvitað geta alltaf borist hingað eða komið upp, t.d. sullaveiki. Það koma alltaf öðru hvoru upp einstaka tilfelli af sullaveiki. En vegna þess sem ég sagði áðan um stutta kynningu hæstv. heilbrrh. á þessu frv. hefði ég gjarnan viljað fá upplýsingar um það hvernig þessi mál standa. Hvað er mikið um það að þessir sjúkdómar stingi hér upp kolli? T.d. barnaveiki, kólera og hér á listanum er jafnvel svarti dauði sem lifir einhverju dularfullu lífi í Asíu og stingur þar öðru hverju upp kolli en mér er ekki kunnugt um að hafi borist hingað öldum saman. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar hjá ráðherra varðandi þetta.
    Samkvæmt grg. með frv. virðist Margrét Guðnadóttir sem átti sæti í nefndinni hafa gert athugasemdir eða lagt fram sérálit og ég vildi gjarnan fá það fram í hverju hennar skoðun var fólgin, að hvaða leyti hún var ekki sammála því sem hér er lagt til.
    Það er ýmislegt sem hér mætti gera að umræðuefni sem varðar framkvæmd þessara laga en ég ætla ekki að eyða tíma í það. En ég vil að lokum ítreka það að ég mælist til þess við þá nefnd sem fær frv. til umfjöllunar að hún hugi svolítið að þeim þætti sem snýr að almenningi og hvernig virkja megi fólk til vitneskju og þekkingar á þessu málefni því að samkvæmt þessu frv. ber öllum skylda til að tilkynna um sjúkdóma. Það segir í 7. gr.:
    ,,Það er almenn skylda að gjalda sem mesta varúð við smitsjúkdómum og gera sér allt far um að sýkja hvorki sjálfan sig né aðra, að svo miklu leyti sem framkvæmanlegt er.``
    En við þekkjum auðvitað dæmi um það að út af þessu hefur nú brugðið, m.a. hvað varðar eyðni. Það er því mjög mikilvægt til að lög eins og þessi nái tilgangi sínum að fræðsla og samband við almenning sé sem allra best.