Almannatryggingar

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:57:00 (5447)


     Ragnhildur Eggertsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fær væntanlega framgang í þinginu og öðlast gildi sem allra fyrst. Það er nú einu sinni svo að sú upphæð sem greidd er í meðlag með barni hrekkur engan veginn til --- og það held ég að allir viti --- ekki fyrir brot af því sem það kostar í rauninni að framfæra barn.
    Í töflunni sem fylgir með frv. er ýmislegt tekið til og sem þá flokkast undir nauðsynjar, en það vantar auðvitað mjög mikið sem við öll teljum að börn þurfi til að öðlast þann þroska sem þau þurfa til að búa sig undir lífið. T.d. að læra eitthvað til lista, eins og að læra á hljóðfæri, læra dans, eða eitthvað sem hjálpar þeim til að öðlast öruggari félagslegan grunn meðal jafnaldra sinna. Bókakostnaður er enginn hérna og kostnað vegna

íþróttaiðkana, sem er töluvert mikill og mikill kostnaðarbaggi þar sem börn eru fyrir hendi, vantar alveg inn í þessa töflu.
    Það gefur auga leið að kostnaðurinn sem tekinn er til á meðfylgjandi fylgiskjölum er í raun og veru allt of lágur og ég vona að nefndin sem fær frv. til umfjöllunar útfæri enn ítarlegri kostnaðaráætlun en fram kemur. Það er einu sinni staðreynd að það þarf lög til að foreldrar, sem ekki búa samvistum við börn sín og í langflestum tilfellum eru það feðurnir, borgi meðlög til þess að taka þátt í framfærslu barnsins. Það er í raun og veru mjög hastarlegt að það þurfi lög yfir svo sjálfsagðan hlut og það er að taka þátt í framfærslukostnaði barnsins en það er staðreynd og fyrst að lög þarf til þá þarf að gera þær kröfur í þeim lögum að meðlagið hrökkvi til að standa raunverulega á einhvern hátt undir þessum kostnaði.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir las upp fyrir okkur raunalega lýsingu Guðmundar Ólafssonar á feðrum sem þurfa að greiða meðlag og ég efast ekkert um að meðlög eru erfiður baggi á tekjulágum feðrum. En framfærsla barns er líka baggi á tekjulágri móður, þannig að ég sé ekki sérstaka ástæðu til að vorkenna tekjulágum feðrum meira en tekjulágum mæðrum.
    Eins og ég sagði áðan vona ég að þetta frv. fái framgang hér í þinginu og enn fremur að nefndin sem fær það til umfjöllunar taki enn þá ítarlegar á kostnaðinum en gert er með frv. því að það er mikið þjóðþrifamál að börnum farnist vel í þjóðfélaginu hjá okkur. Eins og hér kom fram og allir vita eru börnin framtíð þjóðarinnar. Ef við höfum ekki efni á því að framfæra þau eins og þau þurfa þá höfum við alls ekkert efni á að eiga þau. Þetta er kannski svolítið hörkulega mælt en þetta er bara staðreynd og þjóðfélagið mætti gjarnan sjálft taka meiri þátt í þessu, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér áðan, með skattaívilnunum eða einhverju því um líku.
    Eins og ég er búin að segja hér tvisvar og ég ítreka það enn þá vona ég að þetta frv. fái góða framgöngu. Þetta er þó a.m.k. eitthvað í áttina.