Starfsmenntun í atvinnulífinu

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 16:20:00 (5458)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilumál Alþb. að öðru leyti en því að ég styð skoðun þeirra hv. 5. þm. Vestf. og 4. þm. Austurl. einmitt með þeim rökum að mér er mikið í mun að lyfta úr láginni, eins og hér segir, svonefndri verkmenntun og koma henni á sama stað og bókmenntun. Ég held að verkmenntun hafi dregist mjög aftur úr hér í landi og ég held að hún eigi að heyra undir menntmrn. eins og bókmenntun.
    En það var ekki þess vegna sem ég kom upp í ræðustól heldur langar mig að spyrja hvort ákvæði í lögum nr. 64/1981, um Atvinnuleysistryggingasjóð, eiga að vera áfram í gildi verði þetta frv. að lögum. En í 18. gr. laga um Atvinnuleysistryggingasjóð segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sá sem gengur undir starfsþjálfun eða sækir námskeið til að öðlast hæfni í starfi sínu eða til að stunda ný störf, nýtur á meðan atvinnuleysisbóta í allt að sex vikur ef atvinnuleysi hefði skapað honum rétt til slíkra bóta þegar starfsþjálfun eða dvölin á námskeiðinu hófst, enda njóti hann ekki launa.`` Síðan fylgja nokkur frekari ákvæði um það. Síðan segir síðar í sömu grein, með leyfi forseta: ,,Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að veita styrki til rekstrar starfsþjálfunarnámskeiða á vinnustað eða utan hans, enda verði það talið nauðsynlegt vegna verulegra breytinga og nýjunga í starfsháttum . . .  `` Þess vegna er ég að spyrja að því að mér finnst stundum vanta þegar verið er að setja lög hér á hinu háa Alþingi að það sé litið til annarra laga og kem ég þá enn og aftur og einu sinni enn að því að í lögum nr. 48 frá 1929 er gert ráð fyrir laganefnd við Alþingi Íslendinga. Sú laganefnd hefur aldrei orðið til. En ég held sannarlega að það væri ekki vanþörf á því því að grun hef ég um að mikið vanti á samræmingu frv. og laga hér í þinginu. Þetta er einmitt talandi dæmi um það. Ég sé ekki að þessi ákvæði séu felld úr gildi. En ég hygg að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi gert afar lítið af að greiða slíka styrki en ákvæðið er hér eftir sem áður. Og ef það á ekki að vera nema nafnið eitt þá er alveg eins gott að fella þessa grein úr gildi. Ég vil benda á að þarna er í raun og veru, verði þetta frv. að lögum, ákvæði sem fjalla um sömu starfsemina. Mér sýnist að Atvinnuleysistryggingasjóður sé ekki vel haldinn fjárhagslega og með vaxandi atvinnuleysi hygg ég að hann hafi nóg á sinni könnu þó að hann eigi ekki að standa undir námskeiðahaldi og styrkjum til þeirra sem óska eftir að sækja slík námskeið. Ég vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort þetta ákvæði eigi að standa óbreytt. Ef ekki þá vil ég biðja hæstv. ráðherra að athuga eða biðja hv. nefndarformann félmn. að líta aðeins inn í hvort ekki þyrfti að samræma þarna áður en endanlega yrði gengið frá lögunum.