Lánskjör og ávöxtun sparifjár

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 18:09:00 (5478)

     Guðmundur Þ Jónsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins upplýsa það vegna ummæla flm. um kaupgjaldsvísitölu að það er rétt að hún er bönnuð samkvæmt lögum, bein tenging launa við vísitölu, en þó er það svo að kaupgjald hefur á undanförnum árum verið verðtryggt eftir öðrum leiðum. Við höfum notast við það sem við höfum kallað rauð strik þar sem sett eru ákveðin mörk og koma þá bætur í launum fyrir ef verðlag fer yfir ákveðin tiltekin mörk, fyrir fram ákveðin. Eins hafa verið settar launanefndir sem hafa úrskurðað launabætur ef mál hafa þróast með þeim hætti og í mörgum tilfellum hefur valdið verið alfarið í höndum Alþýðusambands Íslands til að úrskurða það þannig að við höfum notið nokkurrar tryggingar á þessu sviði þrátt fyrir lögin.
    Hvað þetta frv. um afnám verðlagsvísitölu eða lánskjaravísitölu varðar þá verð ég að segja að ég er ekki alveg tilbúinn til þess að gera upp við mig klárt og kvitt hvort ég væri tilbúinn að samþykkja tillöguna eða ekki, en ég ætla að benda á að þetta hefur verið skoðað svolítið og þá með tilliti til greiðslubyrði skuldara. Við getum tekið dæmi um fólk sem er að byggja eða koma sér upp húsnæði og tekur til þess vísitölutryggt lán annars vegar og óverðtryggð lán hins vegar. Ég hygg ég að greiðslubyrði fólks af óverðtryggðum lánum hafi verið mun meiri á undanförnum árum en af verðtryggðum lánum. Verðtrygging er ekki skaðleg í svo lítilli verðbólgu sem við höfum núna. Í mikilli verðbólgu dreifist vísitöluþátturinn eða verðbótaþátturinn á lánstímann á sama tíma og nafnvextir á óverðtryggðum lánum falla jafnóðum til greiðslu. Ég hygg því að erfiðleikarnir hjá fólki með óverðtryggð lán hafi verið öllu meiri en með verðtryggð lán. Meinsemdin er ekki verðtryggingin heldur óðaverðbólgan sem hér hefur verið. Núna eru það svo fyrst og fremst þessir háu vextir sem sliga bæði einstaklinga og fyrirtæki og hefur mjög mikil tregða verið hjá stjórnvöldum að taka á málinu. Háir raunvextir er vandamálið sem fólk og fyrirtæki þurfa að burðast með í dag en ekki verðtryggingin sem slík.
    Við gerð kjarasamninga í febrúar 1990 leiddi svokallaður þjóðarsáttarsamningur til þess að verðbólga fór mjög niður, nafnvextir lækkuðu mjög hratt en það verður ekki sama sagt um raunvextina. Þeir hafa enn þá haldist mjög háir og þar af leiðandi valda þeir þessu fólki og fyrirtækjum erfiðleikum núna en ekki verðtryggingin. Við verðum því að athuga hvað er orsök og hvað er afleiðing í þessu efni eins og hverju öðru. Þótt sú krafa hafi heyrst að afnema beri lánskjaravísitöluna bæði frá mönnum sem reka fyrirtæki og einstaklingum þá held ég að menn verði að skoða það mál nokkuð vel. Ef verðbólgan eykst þá aukast nafnvextirnir þannig að fólk þarf kannski að standa frammi fyrir mun meiri greiðslubyrði af lánum sínum en ella því að eins og ég gat um dreifast verðbæturnar á lánstímann og koma léttar niður á fólki en nafnvextirnir. Ég ætlaði aðeins að draga þetta fram.