Veitinga- og gististaðir

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 14:50:00 (5490)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Kannski er rétt að byrja á að taka undir orð síðasta ræðumanns um að það rekst hvað á annars horn í frv. Og það er dálítið sérkennilegt hvernig málið er sett fram. Það vakna mjög margar spurningar við lestur frv. þótt í fljótu bragði hefði maður getað haldið að ekki þyrfti að ræða þetta mál mjög mikið við 1. umr. eins hratt og hæstv. ráðherra fór í gegnum málið. Hann vakti í raun ekki athygli á mjög mikilvægum þáttum sem verið er að taka fyrir í frv. sem og breytingum á núgildandi lögum.
    Ég vil byrja á að taka 1. gr. frv. Eins og hv. 2. þm. Vestf. vil ég spyrja hvers vegna veitinga- og gistisala ferðabænda er tekin fyrir í þeirri grein. Er ekki eðlilegt að það falli undir lögin almennt eins og ég hélt að væri gert núna? Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þetta er sett inn í frv.? Að mínu mati er óþarfi að taka þetta sérstaklega fram. Ég vil því spyrja ráðherrann, og taka undir þá spurningu sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., hvers vegna þetta er tekið þarna inn.
    Í 2. gr. frv. eru gerðar miklar breytingar frá núgildandi lögum, sérstaklega að því er varðar c-lið. Það segir í frv. að til þess að geta stundað starfsemi samkvæmt lögunum, þ.e. að reka veitinga- og gististaði, verði viðkomandi að eiga varnarþing á Íslandi. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að hann hafi verið heimilisfastur á Íslandi og hafi verið það síðustu ár, eins og það er orðað. Það er kannski dálítið opið.

Í frv. sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi var gert ráð fyrir því að skilyrði til þess að öðlast leyfi væri að vera búsettur á Íslandi og hafa verið það sl. þrjú ár. Það var sem sagt settur inn ákveðinn árafjöldi.
    Mér þykir mjög miður að í þessu frv. skyldu ekki vera tekin upp einhver slík ákvæði því ég tel nauðsynlegt að þeir sem fá leyfi til að reka veitinga- og gististaði séu heimilisfastir hér en því sé ekki fjarstýrt erlendis frá. Þá er meiri hætta á að við missum þennan hluta ferðaþjónustunnar, að selja veitingar og gistingu, út úr höndunum á okkur. En það er stór hluti af því sem kemur hingað inn í landið. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna fallið hafi verið frá þessu. Ég tel þá skýringu ekki fullnægjandi sem kemur fram í athugasemdum við greinarnar en þar segir: ,,Hér er hins vegar látið nægja að setja það skilyrði að ábyrgðaraðili hafi varnarþing á Íslandi.`` Þetta er ekki útskýrt nánar og það kom heldur ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra hvers vegna ekki eru sett skilyrði um búsetu á landinu. Maður hefði getað látið sér detta í hug að það væri vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði en samkvæmt því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt í þinginu, og reyndar annars staðar líka, er ekkert því til fyrirstöðu að setja ákvæði um búsetuskilyrði í ákveðinn árafjölda inn í íslensk lög. Mig langar þess vegna að spyrja hvers vegna horfið var frá þessu.
    Síðan er það 3. gr. frv. sem er algjörlega óskiljanleg og ég skil ekki hvernig hægt er að framkvæma hana. Það er ætlast til þess að lögreglustjóri skrái starfsemi en ekki er neitt ákvæði um það að mönnum sé skylt að fara til lögreglustjóra og skrá sig. Samkvæmt þessu á hann líklega að eltast við fólk eða ég get ekki séð hvernig í ósköpunum þetta á að geta farið fram. Auk þess sem tengingin við vínveitingaleyfi er dálítið óljós eins og reyndar hv. 4. þm. Austurl. kom inn á. Fulltrúi lögreglustjóra í Reykjavík, sem hefur fjallað um þetta mál á því svæði, var í samvinnu við svokallaða ferðamálanefnd samgrn. þegar saminn var sá hluti þess frv. sem minnst hefur verið á og lagt var fram á 113. löggjafarþingi. Þá var lögð áhersla á að þessi tenging væri einmitt mjög mikilvæg til þess að lögreglustjóri hefði eitthvert yfirlit um þessa leyfisveitingu. Það er mjög nauðsynlegt að tengja saman þetta tvennt vegna þess að það þurfa að mínu mati að vera nokkuð ströng skilyrði fyrir vínveitingaleyfum og ekki sjálfsagt að þau séu veitt hverjum sem er. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fara betur ofan í þetta. Ég sé ekki að það sé nokkur lifandi leið að framkvæma greinina eins og hún kemur þarna fram.
    Síðan er tekið fram að ef ábyrgðaraðili uppfylli ekki þau skilyrði sem tekin eru fram í greininni, þ.e. að hafa ákveðna staðfestingu frá sveitarstjórn, eldvarnaeftirliti og heilbrigðisnefnd, beri að stöðva starfsemina. En ég tek eftir því að það eru ekki nein tímatakmörk á þessu. Það eru engin tímamörk á leyfisveitingu og þá getur verið erfitt fyrir lögreglustjóra að fylgjast með þessu atriði. Í fyrsta lagi þurfa menn ekki að sækja um leyfi og í öðru lagi er þessi skráning ótímabundin. Það þarf því ekki að endurskrá sig þó reynt væri að setja það einhvers staðar í reglugerð eða bæta því inn í lögin að menn séu skyldugir að skrá sig hjá lögreglustjóra. Ég átta mig ekki á því hvernig þetta er hugsað.
    Við lestur frv. og þessarar greinar sérstaklega datt mér í hug hvort þetta tengdist á einhvern hátt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Við getum t.d. tekið veitingahúsið á Ítalíu aftur sem dæmi sem hv. 2. þm. Vestf. minntist á áðan. Ef það veitingahús eða það fyrirtæki hefur starfsleyfi á Ítalíu, er það þá svo að við verðum að veita því leyfi hér? Hefur það þar með starfsleyfi á Íslandi og getur starfað hér á landi án sérstaks leyfis? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um þetta atriði því samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er það vissulega þannig að fyrirtæki sem hefur leyfi til starfa á einum stað á svæðinu getur starfað á svæðinu öllu. Ég velti því fyrir mér hvort þetta geti á einhvern hátt tengst þessu máli og að 3. gr. frv. sé þess vegna svo einkennilega sett fram. Þetta eru mínar vangaveltur en ráðherrann getur eflaust leyst úr spurningum mínum eða getgátum.
    Ég er alveg samþykk því og tel miklu eðlilegra að ákvæði í 8. og 9. gr. núgildandi laga, þ.e. um flokkun gististaða, séu sett í reglugerð. Það er ekki gott að hafa það í sjálfum lögunum, ég get mjög vel fallist á það. En mér finnst frv. vera langt frá því að geta staðið óbreytt þannig að hv. samgn. hefur mikið starf fyrir höndum ef hún ætlar á stuttum tíma að gera það að einhverju sem líklegt er að þingmenn geti sætt sig við, kannski fyrst og fremst að gera það þannig úr garði að einhver möguleiki sé á að framfylgja lögunum ef frv. verður samþykkt á Alþingi. En eins og það lítur út núna held ég að það sé algjörlega óframkvæmanlegt.