Fæðingarheimili Reykjavíkur

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 15:41:00 (5496)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Vandamál Fæðingarheimilis Reykjavíkur eru af tvennum toga spunnin. Það sem meira er, þessi vandamál sameinast síðan í enn stærra vandamáli sem er Sjálfstfl. í Reykjavík.
    Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. gengið svo hart fram í að skera niður fjárveitingar til sjúkrahúsanna í Reykjavík að Fæðingarheimilið er óstarfhæft.
    Í öðru lagi, og það á núv. forsrh. að kannast manna best við, þegar hann sem fyrrv. borgarstjóri leigði hluta af því húsnæði sem Fæðingarheimilið hafði til reksturs til sjálfstæðs praktíserandi lækna úti í bæ. Við þessa breytingu sem þarna átti sér stað var fótunum í raun og veru kippt undan rekstri Fæðingarheimilisins. Borgarspítalinn, eða Sjúkrahús Reykjavíkur eins og hann átti að heita, hafði 60 millj. kr. til ráðstöfunar á rekstri Fæðingarheimilisins á árinu 1991. Í fjárlögum ársins 1992 er gert ráð fyrir að Ríkisspítalarnir fái 20,3 millj. kr. til að reka Fæðingarheimilið og allir hljóta að sjá að það er útilokað að reka það við þær aðstæður.
    Fæðingarheimilið í þeirri mynd sem það er nú, eftir að fyrrv. borgarstjóri leigði það út til sjálfstætt praktíserandi lækna, er mjög óhagkvæm rekstrareining þannig að nú er enn verra en nokkru sinni fyrr að reka Fæðingarheimilið vegna þess að þeir fjármunir sem hafa verið veittir til þess nýtast verr nú en nokkru sinni fyrr. Það að leigja húsnæðið út var auðvitað eitt af mörgum skemmdarverkum fyrrv. borgarstjóra gagnvart fyrrv. ríkisstjórn á ýmsum sviðum heilbrigðismála.