Sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:20:00 (5521)

     Flm. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þessu máli. Það krefst ekki langra umræðna af því að svipuð þáltill. hefur legið fyrir frá Steingrími J. Sigfússyni og fleirum sem nú er til umfjöllunar í sjútvn. Þessi þáltill. gengur út á að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að stofnun sjávarútvegsmiðstöðvar á Akureyri. Sjávarútvegsmiðstöðin verði miðstöð þekkingaröflunar og rannsókna fyrir íslenskan sjávarútveg og starfi í tengslum við Háskólann á Akureyri.
    Markmiðið er að stefna að því að flytja allt háskólanám á sviði sjávarútvegs til Háskólans á Akureyri og enn fremur að flytja í áföngum aðalstarfsemi upplýsinga-, rannsókna- og þjónustustofnana sjávarútvegsins til Akureyrar.
    Rökin fyrir þessu eru þau að sjávarútvegurinn er aðalútflutningsgrein okkar. Til þess að hún geti blómstrað og staðist samkeppni á erlenda vísu er nauðsynlegt að einhver kjarni sé til staðar þar sem saman fari öflug starfsemi í greininni sjálfri, rannsóknastarfsemi, akademísk starfsemi í háskóla og að þekking og reynsla flæði á milli atvinnugreinarinnar og þeirra sem í henni starfa og þeirra sem stunda rannsóknir, þeirra sem eru í þróunarstarfsemi og þeirra sem vinna í akademísku starfi í háskóla.
    Akureyri og umhverfi hennar er að mörgu leyti vel til þess fallin að vera vettvangur fyrir slíka sjávarútvegsmiðstöð. Við höfum mjög öflug sjávarútvegsfyrirtæki á Akureyri og eins á Eyjafjarðarsvæðinu. Við höfum Háskólann á Akureyri, útibú frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, fyrirtæki sem eru mjög öflug í þjónustu við sjávarútveginn, bæði í viðgerðum og framleiðslu á ýmsum vörum sem tengjast sjávarútvegi. Má þar nefna ýmis iðnfyrirtæki eins og DNG, Sæplast og fleiri fyrirtæki. Það er einmitt kjarni sem felur í sér virkt samstarf á milli allra aðila af þessu tagi, þ.e. fyrirtækjanna í sjávarútveginum, fyrirtækja í greinum sem sjá sjávarútveginum fyrir aðföngum, sölufyrirtækjum og rannsóknafyrirtækjum og háskóla, sem gerir það að verkum að sjávarútvegur okkar getur þróast áfram.
    Ég legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og hv. sjútvn.