Sjávarútvegsmiðstöð á Akureyri

125. fundur
Mánudaginn 13. apríl 1992, kl. 23:24:00 (5522)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem nú er til umræðu hefur komið fyrir á Alþingi í vetur á öðrum vettvangi í formi þáltill. og blandast einnig inn í umræðu um önnur mál, svo sem frv. um Fiskistofu.
    Ég get tekið undir meginefni framsöguræðu hv. 1. flm. Það er búið að skapa þá aðstöðu á Akureyri sem nægir til þess að byggja á þann grunn sem þarf ef raunverulegur vilji er til frekari ákvarðanatöku í þessa átt. Það blés ekki byrlega fyrir sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri í upphafi. Að mínu mati er það öðru fremur fyrir það að fyrrv. sjútvrh., hv. 1. þm. Austurl., skildi það þegar staðan var hvað erfiðust að ekkert yrði úr sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri ef hún næði ekki að þróast sem akademísk stofnun að þessi grunnur var lagður. Gekk hann fram í því að koma fyrir í tengslum við háskólann hluta af starfsemi rannsóknastofu fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar. Ef þessi starfsemi á að ná að þróast að einhverju marki held ég að meginmálið sé að hlúð verði að þeim vísi að akademískri stofnun sem þar er.
    En eins og ég sagði áðan er þetta angi af stærra máli. Þetta er angi af þeirri umræðu sem hefur verið um flutning ríkisstofnana. ( ÖS: Eru ekki framsóknarmenn á móti, samanber Byggðastofnun?) Af vana kallar hv. 17. þm. Reykv. fram í, ræðir um afstöðu framsóknarmanna til flutnings Byggðastofnunar. Ég vil að það komi skýrt fram að sá sem hér talar hefur alla tíð mælt með því að Byggðastofnun yrði flutt út á land. ( ÖS: Er ágreiningur í Framsfl.?) Það ku vera ágreiningur um það í Framsfl. en það er ágreiningur í fleiri flokkum. Fyrir nokkrum dögum var ég í útvarpsþætti með einum hv. þm. Sjálfstfl., flokki forsrh., sem sagðist ætla að flytja frv. um málið. Sá maður er kominn í stjórn Byggðastofnunar og þar virðast menn vera dáleiddir í þessa veru strax á fyrsta degi, hvort sem þeir eru í Framsfl. eða Sjálfstfl.
    Hins vegar nefni ég það við hv. 17. þm. Reykv. að ég er þeirrar skoðunar að umræðunni um flutning Byggðastofnunar sé nú slegið upp að nokkru leyti til þess að drepa málinu á dreif. Að mínu mati er holur tónn í þeirri umræðu núna. Ég er ekkert viss um að hæstv. forsrh. mæli þessi orð í þeirri trú að hann hafi þingmeirihluta til þess að koma málinu fram. ( ÖS: Með þínum tilstyrk.) Það getur vel verið að minn tilstyrkur dugi til, en ég vil fyrst sjá forsrh. sýna fram á að hann hafi meirihlutastuðning stjórnarflokkanna til þess að koma málinu fram. Þegar hæstv. forsrh. hefur sýnt mér fram á það skal ég veita honum allan stuðning til málsins, en fyrr ekki.
    Það er nefnilega svo, hv. 17. þm. Reykv., að ef menn vilja á annað borð ræða flutning ríkisstofnana í alvöru ræða menn um fleira en Byggðastofnun. (Gripið fram í.) Þá ræða menn um fleira en þau 20 störf sem þar er um að ræða. Þá ræða menn um eitthvað sem vigtar. Ég vil þess vegna sjá þær áætlanir sem liggja að baki áformum um þessi atriði í hinnu hvítu bók stjórnarflokkanna. Það var m.a. af þeim ástæðum sem ég hafði forgöngu um að semja lítið frv. og leggja það fram til þess að það kæmi skýrt fram hver vilji Alþingis gagnvart flutningi ríkisstofnana væri. Ég setti þar fram skýr og raunhæf markmið í þá veru að innan 10 ára væri hlutfall ríkisstarfsmanna á höfuðborgarsvæðinu og utan þess í hlutfalli við íbúafjölda.
    Þar sem hér var um mál að ræða sem fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum höfðu lýst áhuga á, gerði ég mér vonir um að fá flutningsmenn úr öllum flokkum. Þess vegna byrjaði ég á að kanna, m.a. fyrir milligöngu hv. 17. þm. Reykv. og þingflokksformanns Alþfl., hvort ekki væri flötur á því að fá flutningsmenn um málið úr öllum flokkum. Strax á fyrsta degi fékk ég synjun bæði frá Alþfl. og Sjálfstfl. enda búið að múlbinda þar almenna þingmenn, þar með talinn þingflokksformann Alþfl., og þeim hreinlega bannað að skrifa upp á mál hjá öðrum en stjórnarliðum. (Gripið fram í.) Þetta er í stíl við vinnubrögð núverandi meiri hluta, svo ég haldi áfram þeirri umræðu sem hv. 17. þm. var svo vinsamlegur að beina mér inn á. Þetta er í stíl núv. hæstv. ríkisstjórnar sem telur að hún geti með tilskipun sagt fyrir fram hvað Alþingi eigi að samþykkja, samanber útgefna yfirlýsingu, auglýsingu hæstv. ríkisstjórnar, um vexti á námslán sem engin heimild er enn þá fyrir í lögum. Þar kem ég að enn öðru máli sem kemur kannski eilítið við kaunin á hv. 17. þm. Reykv. En þetta var aðeins útúrdúr. ( ÖS: Taktu vegalaus börn líka svo það komi . . .  ) Ég er nú ekki svo kunnugur þeirri umræðu að ég ætli að taka hana hér fyrir.
    Virðulegi forseti. Þetta undirstrikar kannski að varðandi það mál sem hér liggur fyrir eru það ekki tækifærin sem skortir. Það skortir viljann. Ég heyrði ekki eitt einasta orð frá hæstv. sjútvrh. eða öðrum þeim þingmönnum stjórnarliðsins sem ræddu um það að stofnsetning Fiskistofu gæti verið einn liður í því máli sem við erum að ræða um nú. Ég heyrði ekki eitt einasta orð um það þrátt fyrir að bæjarstjórn Akureyrar hefur ályktað í þá veru að æskilegt væri að Fiskistofan yrði staðsett á Akureyri en sami flokkur er í forsvari fyrir meiri hlutanum á báðum stöðum. Þessi tillaga liggur fyrir frá tveimur hv. þm. Sjálfstfl. Þannig skyldi maður ætla að í þeirri umræðu hefði einkum verið rætt um staðsetningu Fiskistofu annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Næg tilefni eru því til þess að ræða þessi mál við hv. stjórnarþingmenn á þeim nótum sem hv. 17. þm. Reykv. kaus að gera með frammíkalli, sem ég hafði þó ekki ætlað mér í þessari stuttu ræðu um það annars ágæta mál sem hér er á dagskrá.
    En ég vil að lokum ítreka það að ég tel að hér sé hreyft góðu máli. Á Eyjafjarðarsvæðinu eru allar aðstæður til þess að stíga þessi skref, eins og fram kom í ræðu framsögumanns. Í umfjöllun þeirra mála sem tengjast sjávarútveginum og eru á dagskrá þingsins bíð ég bara ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar eftir því að hæstv. ráðherrar og hv. sjórnarþingmenn sýni viljann í verki, þeir hafa öll tækifæri til þess.