Ráðning þjóðminjavarðar

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 14:10:00 (5535)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er alveg ótrúlegt hve hæstv. menntmrh. er lánlaus í embættisveitingum sínum og lýsti hann því sjálfur hér áðan. Samkvæmt þjóðminjalögum er safnstjóri Þjóðminjasafns Íslands staðgengill þjóðminjavarðar. Því hefði verið eðlilegt að safnstjóri, sem í þessu tilviki er kona, hefði verið beðin að taka að sér starf þjóðminjavarðar meðan hann er í leyfi frá störfum. Það var hins vegar ekki gert og fréttir á skotspónum um að Lilja Árnadóttir safnstjóri hafi e.t.v. meiri hug á að verða safnstjóri fremur en þjóðminjavörður á hæstv. menntmrh. ekki að taka á þann hátt að hún vilji ekki taka að sér starfið. Hann sagði áðan að hann hefði orð þjóðminjavarðar fyrir því en ég hef orð hennar sjálfrar fyrir því að hún fékk hvorki tækifæri til að segja já né nei við því hvort hún vildi taka að sér starfið. Hún var aldrei spurð. Það kemur bara skipun að ofan án alls samráðs. Auðvitað hefði átt að auglýsa stöðuna ef það hefði verið niðurstaðan að Lilja Árnadóttir hefði ekki viljað taka að sér starfið. Það hefði kannski líka verið eðlilegt. Ég er ekki að spyrja um hvað sé löglegt í þessu máli, ég vona að það sem hæstv. menntmrh. gerði sé löglegt, en það hefði átt að auglýsa stöðuna. Þetta er tveggja ára staða og t.d. eru alltaf auglýstar stöður við háskólann þótt þær séu bara til eins árs. Því hefði verið mjög eðlilegt að auglýsa stöðuna ef Lilja Árnadóttir hefði sagt nei, en hún fékk bara aldrei tækifæri til að segja nei. Mér finnst, virðulegur forseti, að með þessum gerningi sé þjóðminjaverði sýnd ótrúleg lítilsvirðing eftir 23 ára starf.