Rekstur dagvistarstofnana fyrir börn á vegum sjúkrahúsa

126. fundur
Þriðjudaginn 14. apríl 1992, kl. 19:13:00 (5602)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli mínu hér áðan að ég var einmitt að ítreka það sem bjó að baki þess sem hv. 7. þm. Reykv. var að segja að ég var auðvitað að vekja athygli á því að hér væri ekki verið að beina málinu sérstaklega til einhvers tiltekins sveitarfélags. Þessu var ekki beint gegn Reykjavík. Ég vakti athygli á því að hlunnindagreiðslur af þessu tagi sem ríkið stæði straum af en sveitarfélögunum bæri að greiða ættu sér stað einhvers staðar víðar. Í þeim upplýsingar sem við höfðum og byggðust á svari hæstv. heilbrrh. við fsp. Gunnlaugs Stefánssonar um rekstur dagvistunarheimila fyrir börn komu sérstaklega fram þessar tölur varðandi sjúkrahúsin í Reykjavík. Í greinargerðinni er hins vegar aukið nokkuð við þær upplýsingar eins og fram kemur ef menn lesa hana. Hérna er verið að taka fyrst og fremst þau dæmi sem eru mest sláandi og þær tölur sem eru auðvitað langstærstar. Ég ítreka það að hér er ekki verið að beina neinum ásökunum eða neinu af því taginu gegn einhverju tilteknu sveitarfélagi.
    Ég nefni það svo að lokum að síðasti hluti fsp. hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar til heilbrrh. á sínum tíma um rekstur dagvistunarheimila fyrir börn var svona: ,,Samræmist það verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að sjúkrahús sem rekin eru af ríkissjóði sjái um rekstur dagvistarheimila fyrir börn?`` Þar er ekkert sérstaklega verið að tala um eitthvert tiltekið sveitarfélag heldur sveitarfélög almennt. Og það er auðvitað það sem fyrir okkur hv. flm. þessa máls vakir, við erum að vekja athygli á því að ákveðin lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru í gildi. Þau taka m.a. til reksturs dagvistunarstofnana. Við erum að vekja athygli á verulegu ósamræmi sem hefur viðgengist í raunveruleikanum í þessu sambandi og út á það gengur þessi þáltill. eins og glögglega kemur fram.