Lánasjóður íslenskra námsmanna

127. fundur
Mánudaginn 27. apríl 1992, kl. 15:15:08 (5616)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. menntmn. Alþingis fyrir vel unnin störf. Það hefur vissulega dregist of lengi að þetta mikilvæga mál kæmi til 2. umr. og hlyti lokaafgreiðslu á Alþingi. En þar er ekki við hv. menntmn. að sakast. Það varð ýmislegt til þess að það dróst úr hömlu að frv. væri lagt fram í haust og svo dróst einnig úr hömlu að fá það tekið fyrir í þinginu eftir áramót. Með þessu er ég ekki að deila á hv. menntmn. en legg áherslu á að málið hljóti sem fyrst lokaafgreiðslu á hv. Alþingi.
    Það eru nokkur atriði sem ég vil við 2. umr. gera að umtalsefni og einkum tillögur hv. minni hluta menntmn. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var hér að mæla fyrir og þá fyrst aðaltillaga minni hlutans til rökstuddrar dagskrár.
    Þar eru tekin fram þrjú atriði til rökstuðnings þessari tillögu minni hlutans. Í fyrsta lagi að gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna hafi í aðalatriðum reynst vel. Ástæðan fyrir því að farið var út í að semja frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna og leggja fram á Alþingi er sú sem margsinnis hefur komið fram að lánasjóðurinn stefndi í þrot að óbreyttum lögum. Þetta hefur margsinnis verið rætt við fyrri tækifæri, við 1. umr. málsins og raunar við fleiri tækifæri hér í þinginu, að gjaldþrot blasti í raun og veru við sjóðnum ef ekkert væri að gert.
    Þegar gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna voru samþykkt á Alþingi gáfu menn sér ýmsar forsendur sem ekki hafa staðist. Námsmönnum hefur fjölgað mikið umfram það sem gert var ráð fyrir. Endurheimtur lána hafa heldur ekki orðið eins góðar eins og gert var ráð fyrir. Einnig hafa sumir, sem farið hafa með pólitíska valdið í málefnum lánasjóðsins, víkkað út lánareglur sjóðsins án tillits til fjárveitinga hverju sinni. --- Herra forseti, væri ekki hægt að loka hér á milli? Mér finnst svo óþægilegt að tala þegar annar fundur er hér við hliðina á mér.
    Það þarf ekki að líta lengra til baka en til síðasta árs. Á fjárlögum þess árs voru liðlega 1.700 millj. kr. ætlaðar til lánasjóðsins en svo fór að í raun hefði þurft að bæta við 1 milljarði kr. við það sem ætlað var á fjárlögum ársins 1991 vegna þess að námslán höfðu verið hækkuð þrátt fyrir að fjárlög gerðu ráð fyrir skertum framlögum til sjóðsins. Með ákveðnum aðgerðum var hins vegar dregið úr þessari fjárþörf um 300 millj. kr. en bætt við 700 millj. eftir að núv. ríkisstjórn tók við, eins og menn muna frá því að fjáraukalög voru afgreidd á sl. hausti.
    Ég hef áður tekið það fram að það hafi raunverulega litlu skipt hvaða flokkar hafa farið með stjórn í þessu landi, fjárveitingavaldið hefur sýnt að það er tilbúið að leggja fram u.þ.b. 2 milljarða á ári í námslánakerfið, ekki meira en það nema þá núna á síðasta ári. Kerfið hefur hins vegar þanist út og afleiðingin er sú að sjóðurinn hefur þurft að fjármagna sig í vaxandi mæli með lántökum. Og nú var sem sagt var svo komið að þrot blasti við. Það er þess vegna rangt að halda því fram í þessum rökstuðningi með till.

til rökst. dagskrár að gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna hafi í aðalatriðum reynst vel. Með hliðsjón af þessum veruleika, sem ég hef hér rakið og þeim tíma sem þau hafa gilt, þá hafa þau í aðalatriðum brugðist.
    Í öðru lagi er það fært fram sem rök með till. til rökst. dagskrár ,,--- þar sem ríkisstjórnin gengur með fyrirliggjandi tillögum gegn markmiðinu um jafnrétti til náms``. Markmiðið með því frv. sem við erum að ræða er að tryggja hag Lánasjóð ísl. námsmanna svo hann megi áfram gegna því hlutverki sínu að tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag námsmanna. Það er nefnilega svo að ef lánasjóðurinn verður gjaldþrota þá þjónar hann engum. Og ef það gerist þá verða það einungis þeir sem eiga sterka að sem geta stundað nám.
    Í fyrirliggjandi frv. og í brtt. meiri hluta menntmn. er þess gætt að áfram verði tryggt jafnrétti til náms hér á landi. Það er tekið tillit til fjölskyldustærðar námsmanns við ákvörðun námslána, tillit sem nægir til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði. Sjóðstjórn er heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða sem áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Það má veita undanþágu frá endurgreiðslum ef skyndilegar eða verulegar breytingar verða á högum námsmanns. Vextir af námslánum eru mun lægri en gerist í bankakerfinu og því í raun niðurgreiddir af skattgreiðendum. Sjóðstjórn er heimilt að veita námsmönnum aukalán með kjörum almennra námslána ef sérstaklega stendur á. Það er tryggt að námsmenn munu ekki þurfa að greiða samtímis af námslánum teknum í tveimur kerfum og þannig komið í veg fyrir að þeir þurfi að bera aukna greiðslubyrði sem annars yrði. Endurgreiðslur eru tekjutengdar þannig að námsmenn munu aldrei greiða meira en 5% af útsvarsstofni fyrstu 5% árin og 7% eftir það. Það sem gengur gegn markmiðinu um jafnrétti til náms er að reyna að koma í veg fyrir samþykkt þessa frv. sem hér liggur fyrir. Ef þetta frv. fæst ekki samþykkt þá verður nauðsynlegt að skerða grunnlánin, hjá því verður einfaldlega ekki komist. Og ég geri ráð fyrir að sú skerðing gæti numið allt að 30%, jafnvel meira til þess að mögulegt sé að halda sjóðnum innan ramma fjárlaga og lánsfjárlaga. Ég býst við að ef svo færi þá þyrftu margir að hrökklast frá námi og lítið stæði þá eftir af markmiðinu um jafnrétti til náms.
    Sem sagt, ef þetta frv. verður ekki samþykkt, sem það yrði ekki ef till. til rökst. dagskrár frá minni hluta hv. menntmn. yrði samþykkt, yrði að skerða námslánin strax, hjá því yrði ekki komist. Og það verður þá á ábyrgð þeirra sem koma í veg fyrir samþykkt frv. eða samþykkja þessa till. til rökst. dagskrár.
    Þriðja atriðið sem nefnt er með þessum rökstuðningi er þetta: ,,--- þar sem með grófum hætti er ráðist gegn hagsmunum námsmanna og hafnað samráði við námsmannahreyfinguna``.
    Ég hef gert grein fyrir því að þetta frv. er lagt fram til að tryggja hag Lánasjóð ísl. námsmanna og gera sjóðnum þannig kleift að tryggja jafnrétti til náms. Það er þess vegna gróf misvísun að halda því fram að ráðist sé gegn hagsmunum námsmanna með frv. Með frv. er stefnt að því að tryggja til frambúðar hag þeirra sem þurfa á námslánum að halda. Því er einnig haldið fram að hafnað hafi verið samráði við námsmannahreyfinguna. Þetta er rangt. Námsmenn fengu tvo fulltrúa í þá nefnd sem gekk frá frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna en áður höfðu þeir fengið nokkrar vikur til að kynna sér tillögur um leiðir til úrbóta í málefnum lánasjóðsins og koma á framfæri athugasemdum og eigin tillögum. Í frv. sem lagt var fram hafði verið tekið tillit til ýmissa meginþátta í tillögum og athugasemdum námsmanna og í brtt. meiri hluta nefndarinnar er gengið enn lengra heldur en gert var með frv. sjálfu í að taka tillit til athugasemda námsmanna. Í stað þess að námslán verði endurgreidd sem jafngreiðslulán án tillits til tekna skuldara er farin sú leið að hafa endurgreiðslur tekjutengdar og það var eitt af því sem námsmenn óskuðu einmitt eftir. Brtt. meiri hluta menntmn. ganga enn lengra til móts við sjónarmið námsmanna í þessu efni. Það hefur verið tekið tillit til þeirra óska námsmanna að í stað tveggja ábyrgðarmanna er nú aðeins krafist eins. Þau sjónarmið komu líka mjög skýrt fram í 1. umr. málsins og það hefur verið tekið tillit til þessa.
    Mikið félagslegt tillit er í því frv. sem hérna er til umfjöllunar. Ég bendi þar sérstaklega á 3., 8. og 12. gr. frv. Og það hefur verið tekið tillit til þeirra óska námsmanna og raunar ýmissa hv. alþm. að fella brott ákvæðið um svokallaða 20 ára reglu. Það hefur verið tekið tillit til athugasemda námsmanna varðandi 18. gr. frv. og nú er lagt til að með henni verði tryggt að námsmenn greiði aðeins af námslánum teknum í einu kerfi hverju sinni, þ.e. að fyrst verði greitt samkvæmt hinu nýja kerfi sem hér er ráðgert að taka upp og síðan af lánum sem tekin hafa verið samkvæmt núgildandi kerfi. Af þessu sem ég hef sagt má ljóst vera að það hefur verið tekið tillit til ýmissa sjónarmiða námsmanna, ekki allra, bæði við samningu frv. og við umfjöllun þess í hv. menntmn., þannig að mér sýnist fráleitt að halda því fram að samráði við námsmannahreyfinguna hafi verið alfarið hafnað, eins og haldið er fram í rökstuðningi með þessari dagskrártillögu.
    Ég vildi nefna þetta sérstaklega vegna þessarar mjög svo undarlegu till. til rökst. dagskrár. Flm. tillögunnar, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í hv. menntmn., skulda okkur skýringar á því hvernig þeir ætla að tryggja jafnrétti til náms ef þessi tillaga þeirra verður samþykkt. Það þurfa þeir að útskýra og þá þýðir ekki að segja að bæta skuli við fjárframlag Alþingis einn eða tvo milljarða eða hvað það nú er sem kann að þurfa miðað við óbreytt lög. Það hefur Alþingi aldrei samþykkt og það er ekkert sem bendir til að sú breyting hafi orðið á að það muni gera svo nú. Því þurfum við að fá nánari skýringar á því hvernig á að bregðast við vanda lánasjóðsins ef þessi till. til rökst. dagskrár skyldi verða samþykkt. En þetta er sem sagt aðaltillaga hv. fulltrúa í minni hluta menntmn.
    Til vara flytur minni hlutinn allmargar brtt. við frv. Þær eru í níu liðum. Ég vil aðeins nefna hér

nokkrar þeirra.
    Í fyrsta lagi er lagt til nýtt orðalag á 1. gr. frv. Þar er talað um í brtt. minni hluta ,,námsaðstoð`` en ekki námslán. En í frv. er fjallað um námslán og mér þykir rétt að halda því orði en ekki námsaðstoð. Brtt. meiri hluta menntmn. taka til þess að námsmenn hafi tækifæri til náms án tillits til efnahags og einnig er fallið frá 20 ára reglunni í tillögum meiri hlutans eins og ég greindi frá áðan og hv. formaður nefndarinnar gerði líka grein fyrir í framsögu sinni með meirihlutaálitinu. Stjórn sjóðsins er falið að setja nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað. Ég tel eðlilegt að stjórn sjóðsins setji reglur um slíkt en að ekki sé kveðið sérstaklega á um það í lögum að ráðherra ákveði slíkt með reglugerð og minni á að þótt sjóðstjórn sé með frv. þessu falin ýmis ákvarðanataka, sem hingað til hefur verið í höndum ráðherra, þá hefur ráðherra að sjálfsögðu reglugerðarvaldið eins og kveðið er á um í 16. gr. frv. Ég tel þess vegna ástæðulaust að samþykkja þessa brtt.
    Þá er gerð tillaga um breytta 3. gr. frv. sem meiri hluti nefndarinnar gerir raunar lítillegar brtt. við líka en þarna er alveg nýtt orðalag. Í till. minni hlutans eru talin upp öll þau atriði sem tekið skuli tillit til við ákvörðun upphæðar námslána. Slíkt sýnist mér vera óþarfi. Í tillögum meiri hlutans er lagt til að sjóðstjórn sé skylduð til að taka tillit til fjölskyldustærðar námsmanns og henni heimilað að taka tillit til búsetu.
    Í athugasemdum við 3. gr. sem fylgir frv. er tekið fram að þótt horfið sé frá upptalningu á þeim þáttum sem tekið skuli tillit til sé ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á útlánum sjóðsins vegna þess. Þess vegna er þessi brtt. óþörf.
    Líka er lagt til í 2. brtt. minni hlutans við 3. gr. að ráðherra sé skyldaður til að skipa nefnd þriggja manna til að fjalla um breytingar á reiknuðum framfærslugrunni ef ósk kemur fram um slíkt. Hlutverk fjárveitingavaldsins og stjórnar sjóðsins innan ramma laganna er að ákveða upphæð námslána. Ég sé ekki að það sé til bóta að koma á enn einni nefndinni með aðild hagsmunaaðila og oddamanns. (Gripið fram í.) Já, við erum að breyta þeim.
    Mér sýnist líka nokkuð einkennilegt að minni hluti menntmn. skuli leggja til að þeir sem rétt eiga á námsláni skuli eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Um þetta eru höfð nokkuð mörg orð í nál. minni hlutans á bls. 6. Það ákvæði í gildandi lögum er til komið vegna húsnæðiskerfis sem hefur verið lagt niður og námsmenn hafa sjálfir lýst yfir að litlu skipti hvort ákvæði af þessu tagi sé úti eða inni. Það er ástæðan fyrir því að þetta er lagt til í frv. að þetta kerfi, húsnæðiskerfi sem byggt var á, er ekki lengur til.
    Þriðja brtt. frá hv. minni hluta nefndarinnar er við 4. gr. Þar er lagt til að fjölgað sé í stjórn LÍN úr sex í átta og tilgangurinn sá að Iðnnemasamband Íslands fái þar fulltrúa en það hefur ekki sérstakan fulltrúa nú. Þannig hefur verið litið á að Bandalag ísl. sérskólanema fari með mál sérskólanemenda í stjórn LÍN, þar með talið iðnnema og þess vegna sýnist ónauðsynlegt að fjölga í stjórn sjóðsins til þess að iðnnemar fái þar sérstakan fulltrúa. Þess vegna leggst ég gegn þessari tillögu.
    Þá er næst hér 4. brtt. sem er við 6. gr. Hér er lögð til sú breyting frá frv. að í stað þess að námsmaður skuli ávallt skila vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur þá skuli sú krafa einungis gerð á fyrsta missiri eins og er nú. Þetta var rætt allmikið við 1. umr. málsins og ég lýsti því þá hvers vegna þessi krafa um skólasókn og námsárangur er gerð. Þetta ákvæði auðveldar að sjálfsögðu alla áætlanagerð sjóðsins og kemur í veg fyrir að greidd séu lán til þeirra sem uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru. Ég nefndi sem dæmi við 1. umr. að á síðasta ári voru ofgreidd lán vegna þessa yfir 50 millj. kr. og þarna þekkjast mjög háar upphæðir sem hafa verið greiddar án þess að námsárangri hafi verið skilað. Ef ég man rétt þá þekkjast upphæðir allt að 800 þús. kr. sem sjóðurinn er síðan að baksa við að innheimta og gengur ekki alltaf vel. Auðvitað er ekkert vit í því að vera með svona ákvæði inni í lögum sem gefa mönnum kost á slíku sem þessu sem verður að kalla misnotkun. Það verður að kalla þetta misnotkun og verið er að koma í veg fyrir það með þessu ákvæði.
    Það verður að hafa í huga þegar fjallað er um námslán að þau eru og verða með allra hagstæðustu lánum sem völ er á í þjóðfélaginu, niðurgreidd af skattgreiðendum og ætluð til þess að tryggja jafnrétti til náms án tillits til efnahags. Þetta ákvæði er til þess ætlað að tryggja að þeir, sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru, njóti lánanna en ekki aðrir. Að þetta séu sem sagt námslán og standi undir því nafni.
    Minni hlutinn leggur einnig til að brott falli úr 4. mgr. 6. gr. orðin ,,ásamt vöxtum``. Um þetta þarf ég svo sem ekki að fjölyrða, við höfum rætt vextina svo oft og ég segi aðeins þá skoðun mína að eðlilegt sé að á námslánum séu hóflegir vextir og hér er nú ekki lagt annað til.
    Gerð er tillaga um að ákvæði sem heimilar sjóðstjórn að innheimta lántökugjöld af innheimtum lánum falli brott. Nauðsynlegt er að hafa í huga að við erum að fjalla um lán. Kostnaður fellur til vegna þessara lánveitinga og þess vegna er eðlilegt að heimilt sé að innheimta lántökugjöld. Hérna er miðað við hófleg lántökugjöld og í athugasemdum við 6. gr. með frv. kemur fram að reiknað er með að lántökugjald verði 1,2% sem er lægra en gengur og gerist í bönkum. Ég vek hins vegar athygli á að þessi upphæð, 1,2%, er ekki lögbundin. Einungis er um það að ræða að lánasjóðurinn fái inn fyrir þeim kostnaði sem verður við að veita lánin.
    Fimmta brtt. varðar ákvæði 7. gr. Í frv. er gert ráð fyrir að endurgreiðslur hefjist einu ári eftir námslok. Meiri hluti menntmn. hefur lagt til að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok og ég tel

það sanngjarnt og fellst á þá brtt. meiri hlutans. Ég get hins vegar ekki fallist á að þetta verði óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. þrjú ár. Lagt er til í tillögum minni hlutans að ári eftir námslok sé námsmanni tilkynnt upphæð heildarskuldar hans. Þetta er ónauðsynlegt þar sem sjóðurinn sendir öllum skuldurum yfirlit yfir skuldir þeirra um hver áramót og ekki er ráðgert að breyta því.
    Mér sýnist einnig einkennilegt og í raun og veru ótrúlegt að minni hluti menntmn. skuli leggja til að endurgreiðslur skuli fara fram á grundvelli reglna sem giltu á þeim tíma sem námsmaður undirritaði einstök skuldabréf. Hérna hlýtur að vera um einhver mistök að ræða hjá þeim sem tillöguna flytja því ég sé ekki betur en þetta geti falið í sér aukna greiðslubyrði skuldara miðað við það sem gert er ráð fyrir í frv.
    Þá er lagt til að ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður þegar fyrsta greiðsla hefur að fullu verið innt af hendi enda setji lánþegi aðra tryggingu fyrir lánum sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Þessi brtt. sýnist mér líka vera ónauðsynleg þar sem í 6. gr. frv. er kveðið á um að ábyrgð ábyrgðarmanna geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Á þessum stað er því ekki þörf fyrir þessa breytingu.
    Þá er alveg nýtt orðalag á 8. gr. Þar leggur minni hlutinn til að farið verði að tillögum samstarfsnefndar námsmannahreyfinganna um endurgreiðslur. Þær tillögur hafa verið athugaðar mjög ítarlega og í ljós hefur komið að þær duga ekki til þess að tryggja grundvöll sjóðsins til framtíðar og þess vegna er ekki hægt að samþykkja þær.
    Meiri hlutinn hefur lagt til breytingar á þessari sömu grein sem sýnt er að eru innan þess ramma að markmið frv. náist fram og þess vegna er ég samþykkur tillögum meiri hlutans en ekki minni hlutans.
    Þá er hér gerð tillaga um nýtt orðalag á 9. gr. Þar sýnist vera um tæknilegar breytingar á 9. gr. frv. að ræða auk þess sem orðið ,,vextir`` er fellt út. Mér sýnist að fyrir utan þann þátt að leggja til að orðið ,,vextir`` falli út, sem ég get auðvitað ekki fallist á, að þá séu þetta óþarfa breytingar og séu fremur fallnar til þess að flækja útreikninga endurgreiðslna en einfalda þá.
    Þá er hér um 15. gr. Þar er lagt til að orðin ,,og með lántökugjöldum`` falli brott og er það í samræmi við það sem minni hlutinn hefur annars staðar lagt til. Líka er tæknileg breyting á greininni vegna þessarar andstöðu minni hlutans við lántökugjöld. Athygli vekur að ekki er lagt til að orðin ,,og vextir`` í 1. mgr. falli brott en það eru kannski mistök og ég tók ekki eftir því hvort það hefur verið leiðrétt en ég geri ráð fyrir að það hafi einnig verið ætlun minni hlutans í samræmi við skoðanir hans á vöxtunum.
    Þá er síðasta brtt. sem er við 16. gr. Þar er lagt til að sjóðstjórn sé heimilt að draga félagsgjald af hagsmunasamtökum námsmanna frá láni nema námsmaður óski sérstaklega eftir því að svo sé ekki gert. Hérna er lagt til að farið sé alveg öfugt við það sem lagt er til í frv. Að minni hyggju er eðlilegra að félagsgjald af þessu tagi sé dregið af láni ef námsmaður óskar eftir því eins og lagt er til í frv. en ég veit að um þetta erum við ekki sammála.
    Herra forseti. Hv. formaður menntmn. hefur gert grein fyrir brtt. meiri hlutans og ég vil ekki eyða tíma í að fara sérstaklega yfir þær. Ítarleg grein hefur verið gerð fyrir þeim og ég fellst að sjálfsögðu á þær brtt. allar.
    Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri. Ég ítreka þakkir til hv. menntmn. fyrir það starf sem hefur verið unnið í nefndinni. Mér er alveg ljóst að ágreiningur er um grundvallaratriði varðandi þetta mál en það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta mál verður að fá afgreiðslu og það sem allra fyrst. Ég treysti því að um það sé skilningur meðal þingmanna þótt ágreiningur sé um ýmis efni frv.
    Ég mæli með því, herra forseti, að tillögur meiri hluta nefndarinnar verði samþykktar en tillögur minni hlutans felldar.