Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 14:47:05 (5630)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns árétta þá sameiginlegu kröfu allra stjórnarandstöðuflokkanna sem hv. málshefjandi Steingrímur Hermannsson kynnti fyrir okkar hönd í ræðu sinni að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram á Íslandi um EES-samninginn. Það er afar mikilvægt að það komi skýrt og afdráttarlaust fram áður en utanrrh. íslenska lýðveldisins skuldbindur lýðveldið þjóðréttarlega séð, sem hann mun gera 2. maí, að hér á Alþingi hafa allir flokkar stjórnarandstöðunnar sameiginlega sett fram þá ósk að íslenska þjóðin fái að greiða atkvæði um þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslenska þjóðin sjálf fái eins og þjóðin í Sviss að greiða atkvæði um þennan samning.
    Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh. vék ekki einu orði að þessari formlegu ósk allra stjórnarandstöðuflokkanna í sinni svarræðu hér. Það segir meira en mörg orð. Að þögnin skuli vera einu viðbrögð hæstv. utanrrh. við slíkri formlegri kröfu í þessari umræðu. Hæstv. utanrrh. var undrandi á því að hér á Alþingi væri beðið um umræðu um þetta mál áður en hann skrifar formlega undir sem utanrrh. íslenska lýðveldisins. Það finnst mér merkilegra að ráðherrann skuli undrast það heldur en að umræðan fer fram.
    Ég vil til viðbótar setja fram þá skoðun að ég tel undirskrift utanrrh. Íslands undir þennan samning 2. maí óeðlilega, óréttlætanlega og ég dreg í efa að hún standist stjórnarfarslega og stjórnmálalega. Ég vil mótmæla því formlega að utanrrh. íslenska lýðveldisins skrifi undir þennan samning og skuldbindi lýðveldið þjóðréttarlega 2. maí. Og meginrök mín eru þríþætt.
    Í fyrsta lagi liggur það fyrir að Evrópubandalagið og Ísland hafa ekki gert samning um sjávarútvegsmál. Sá samningur liggur ekki yfir. Utanrrh. hæstv. reyndi áðan að draga létta fjöður yfir þá staðreynd með því að segja að Ísland og Evrópubandalagið hefðu skipst á minnisblöðum. Minnisblöð eru ekki í samningum og það er athyglisvert og segir töluvert langa sögu að það hefur ekki enn tekist að gera þennan sjávarútvegssamning milli Íslands og Evrópubandalagsins þrátt fyrir langan tíma og miklar umræður. Hæstv. utanrrh. upplýsti áðan að það mundi þurfa marga fundi enn áður en slíkur samningur lægi fyrir. Það eitt gefur til kynna að málið sé flókið, viðamikið og erfitt.
    Við, sem hlustuðum í síðustu ríkisstjórn á margar ræður við ríkisstjórnarborðið frá hæstv. utanrrh. um þá samningatækni sem hann hefði ákveðið að beita í þessum viðræðum, erum furðu lostin yfir þeirri staðreynd að nú skuli þessi sami hæstv. utanrrh. ætla að skrifa undir samninginn um EES án þess að sjávarútvegssamningur Íslands og Evrópubandalagsins liggi fyrir vegna þess að það voru meginrök hans öll þau ár sem við sátum saman í ríkisstjórn að samningatækni hans mundi tryggja að áður en EES-samningnum yrði lokið mundi liggja fyrir fullbúinn og frágenginn sjávarútvegssamningur Íslands og Evrópubandalagsins sem tryggði hagsmuni Íslands. Nú liggur hins vegar fyrir að það er þveröfugt. Það er enginn sjávarútvegssamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins á borðinu en engu að síður ætlar hæstv. utanrrh. að skrifa undir EES-samninginn, þveröfugt við það sem hann sagði aftur og aftur viku eftir viku, mánuð eftir mánuð í öll þau ár sem við sátum saman í ríkisstjórn að væri lykilatriðið í nálgun hans í viðræðum við Evrópubandalagið. Ég er viss um það að ef mönnum hefði verið sagt það fyrir einu ári, fyrir tveimur árum, jafnvel fyrir 2--3 mánuðum að hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson mundi setja nafn sitt og íslenska lýðveldisins undir EES-samninginn án þess að hafa sjávarútvegssamninginn í höndum hefði ekki nokkur maður trúað því. Þess vegna dugir það út af fyrir sig eitt og sér sem ástæða fyrir því að mótmæla undirskrift utanrrh. undir EES-samninginn að sjávarútvegssamningurinn liggur ekki fyrir. Ísland er í þeirri sérstöðu að þess hefur verið krafist að gengið yrði frá slíkum samningi og Evrópubandalagið hefur sagt að það muni halda öllum sínum hagsmunamálum til streitu í þeim viðræðum.
    Það er önnur ástæða fyrir því að ég mótmæli því í dag að utanrrh. Íslands muni skrifa undir samninginn 2. maí. Hún er sú að hæstv. ráðherra hefur sjálfur talið nauðsynlegt að láta kanna það hvort samningurinn brýtur í bága við stjórnarskrána. Þrír flokkar á Alþingi hafa flutt um það sérstaka tillögu að lagadeild Háskólans, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands verði falið að skipa nefnd sérfróðra manna til að úrskurða um það hvort samningurinn stenst stjórnskipunarrétt og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Það er fullkomlega óeðlilegt að utanrrh. skrifi undir alþjóðlegan samning sem hann sjálfur hefur talið nauðsynlegt að skipa sérfróða menn til að kanna hvort standist íslensku stjórnarskrána. Og þrír flokkar á Alþingi hafa ályktað sérstaklega um að það þurfi að kanna hvort hann standist stjórnarskrána. Öll eðlileg vinnubrögð hefðu auðvitað kallað á það að slík athugun færi fram og niðurstöður hennar lægju fyrir áður en hæstv. utanrrh. skrifaði undir samninginn. En hæstv. ráðherra ætlar ekki að gera það. Hann ætlar að binda íslenska lýðveldið þjóðréttarlega séð, að vísu með fyrirvara um samþykkt Alþingis, án þess að vita það hvort samningurinn stenst íslensku stjórnarskrána og stjórnskipunarlög og venjur íslenska lýðveldisins. Það hefðu líka einhvern tíma þótt tíðindi ef mönnum hefði verið sagt það á ferli málsins að slíkt ætti eftir að gerast.
    Þriðja meginástæðan fyrir því að ég mótmæli því að hagsmuna Íslands sé gætt með þeim hætti að skrifa undir samninginn 2. maí er sú staðreynd að það liggur fyrir að samningurinn verður ónýtur eftir 3--4 ár. Þegar lagt var upp í þessa för var verið að tala um varanlega lausn. Menn gátu haft skiptar skoðanir á því en nú er það staðreynd, sem hæstv. utanrrh. kýs hins vegar ávallt að gera lítið úr, að Svíar hafa

ákveðið að yfirgefa EES, Finnar hafa ákveðið að yfirgefa EES, Austurríki hefur ákveðið að yfirgefa EES, Norðmenn stefna í það að yfirgefa EES og kannski Sviss einnig. Og hæstv. utanrrh. sagði fyrir aðeins einum mánuði síðan í skýrslu sinni til Alþingis, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Trúir því einhver að Evrópskt efnahagssvæði fái staðist sem tveggja stólpa brú sem hvílir annars vegar á stólpa útvíkkaðs Evrópubandalags með 17 aðildarríkjum og 370 millj. íbúa og hins vegar á brúarstólpa Íslands og Liechtenstein með innan við 300 þús. íbúa?`` Trúir því einhver? sagði hæstv. utanrrh. En hann ætlar engu að síður að skrifa undir samning 2. maí sem hann sagði í skýrslu sinni til Alþingis í síðasta mánuði að fáránlegt væri að trúa því að slíkt gæti staðist.
    Hæstv. utanrrh. sagði fleira fyrir aðeins mánuði síðan í skýrslu sinni til Alþingis. Hann sagði einnig, virðulegi forseti, á bls. 12: ,,Hinar pólitísku forsendur sem leiddu til EES-samninganna virðast ekki eiga við lengur, hvorki við EB né EFTA.``
    Var þetta sami hæstv. utanrrh. sem stóð hér áðan og var að svara málshefjanda, hv. þm. Steingrími Hermannssyni? Það er furðulegt að hæstv. utanrrh. skuli leyfa sér slíkar mótsagnir í jafnalvarlegu máli og fram koma hjá honum sjálfum, annars vegar í skýrslunni til Alþingis og hins vegar í svarræðu hans áðan. ,,Að sjálfsögðu er þetta áfram tveggja stólpa kerfi,`` sagði hann áðan eins og ekkert væri einfaldara. Staðreynd málsins er auðvitað sú að sá EES-samningur sem verið er að tala um nú er allur annar en sá samningur sem rætt var um í upphafi og lengst af. Það er auðvitað ábyrgðarhluti að leyfa ekki umræður á Íslandi um hvort það sé skynsamleg leið fyrir íslenska lýðveldið að gangast undir þennan samning áður en undirritunin fer fram enda er það auðvitað táknrænt hvers vegna undirritunin fer fram 2. maí. Það hefur komið fram í fjölmörgum fjölmiðlum. Það er Evrópubandalagið sem er að flýta undirrituninni. Og að sjálfsögðu segir EFTA já. Þótt hér liggi ekki fyrir hvort samningurinn stenst stjórnarskrána, þótt ekki liggi fyrir sjávarútvegssamningur milli Íslands og EB og þótt nær allar aðrar ríkisstjórnir í EFTA hafi ákveðið að yfirgefa þennan samning. Málið er slíkt metnaðarmál, persónulega og pólitískt, fyrir hæstv. utanrrh. að hann er undrandi á því að þingmenn á Alþingi Íslendinga skuli leyfa sér að draga í efa að þetta sé skynsamleg leið fyrir íslenska lýðveldið. Það vekur auðvitað athygli okkar að enginn af forustumönnum Sjálfstfl. í ríkisstjórninni er viðstaddur þessa umræðu. Það kann að vera tilviljun. En það kann líka að felast í því einhver pólitísk merking. Hæstv. forsrh. er ekki hér í dag. Hæstv. sjútvrh. er ekki hér í dag þótt sjávarútvegssamningurinn hafi ekki enn þá verið gerður. Það er satt að segja mjög undarlegt að þessir forustumenn Sjálfstfl. skuli kjósa að vera fjarverandi þegar umræðan fer fram þrátt fyrir það að þeir hafa vitað með margra daga fyrirvara að stjórnarandstaðan í heild sinni óskaði eftir þessari umræðu. Forusta Sjálfstfl. hefur kosið að skilja hæstv. utanrrh., formann Alþfl., eftir einan í þessari umræðu, formann sem hefur talið nauðsynlegt að flýta sínu flokksþingi vegna þess, eins og hann sagði sjálfur í viðtali við fjölmiðla og gaf sem fyrstu ástæðu, að í sumar þyrftu að fara fram umræður um EES-samninginn. Ef flýta þarf flokksþingi Alþfl. vegna EES-samningsins, þá þarf hæstv. utanrrh. ekki að vera undrandi á því að við teljum nauðsynlegt að ræða hann hér.
    Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki tíma nú í þetta sinn til þess að víkja ítarlega að ýmsum efnisatriðum, sem ég gjarnan vildi gera, en ég vil þó segja að það er nauðsynlegt að sú umræða fari fram hér á landi með opnum og heiðarlegum hætti hvort ekki kann að vera skynsamlegra fyrir Íslendinga að fara strax í tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um framtíð samskipta okkar, Íslands og Evrópubandalagsins, byggja þær viðræður á ýmsum meginþáttum í viðskiptakerfi þessa EES-samnings í stað þess að ganga þá götu sem hæstv. utanrrh. ætlar nú að ganga. Ég vil hins vegar nota tækifærið við upphaf þessara umræðna til þess að lýsa þeirri afstöðu alveg skýrt og greinilega að ég tel rangt af hæstv. utanrrh. að undirrita þennan samning á mánudaginn með þeim rökum sem ég hef hér lýst, að sjávarútvegssamningur liggur ekki fyrir, að því hefur ekki verið svarað hvort samningurinn stenst íslensku stjórnarskrána og það liggur fyrir að ekki getur verið um varanlegan samning að ræða, hvorki af hálfu annarra EFTA-ríkja né af hálfu Evrópubandalagsins.