Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og þingleg meðferð hans

128. fundur
Þriðjudaginn 28. apríl 1992, kl. 17:32:30 (5643)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hafði þau orð að ég hefði í svörum áðan viljað gylla þennan samning. Því fer fjarri. Ég sagði hvorki kost né löst á samningnum heldur svaraði fyrirspurnum.

    Það eru nokkur atriði sem ástæða er til þess að staldra við af því sem hér hefur verið sagt, þar á meðal sú fullyrðing hv. 1. þm. Norðurl. v. að með erindaskiptunum um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum hafi Íslendingar brotið grundvallarreglur sínar um það að synja um tengsl milli veiðiheimilda og tollfríðinda. Þetta er alger misskilningur. Erindaskiptin um skipti eru á gagnkvæmum veiðiheimildum. Í staðinn fyrir takmarkaðar veiðiheimildir í karfaígildum kemur loðna. Það eru engin tengsl á milli þess og tollfríðindanna.
    Annað mál: Hefur ekki verið staðið við fyrirvarana? Jú, það er viðurkennt að það hefur vissulega verið staðið við fyrirvarana að því er varðar rétt til nýtingar á fiskiauðlindinni. Menn viðurkenna að sá fyrirvari er skýr og ótímabundinn. Menn mættu gjarnan vitna til norskra embættismanna sem hafa kveðið upp úr um það að það sé þeirra mat sem og samtaka norska sjómanna að Íslendingar hafi náð miklu hagstæðari samningum í því efni en Norðmenn. Ég vil að vísu ekki leggja mjög mikið upp úr því vegna þess að ég er þess mjög minnugur að Norðmenn lögðu á sig mikinn fórnarkostnað við að ná þessum hagstæðu samningum.
    Hvers vegna eru þá ekki fyrirvarar varðandi orkulindirnar? Það er vegna þess að það gerðist engin þörf sérstaks fyrirvara. Okkur er í sjálfsvald sett að breyta svo okkar löggjöf að enga fyrirvara þurfi og þá þarf enga eins og er. Það reynir á það þegar fylgifrumvarpið um þjóðareign á orkuauðlindunum kemur fyrir þingið hver afstaða t.d. hv. þm. Framsfl. verður.
    Að því er varðar vinnumarkaðinn, þá eru í gildi fyrirvarar sem samsvara þeim sem áður voru í gildi varðandi hinn norræna vinnumarkað. Ef farið væri yfir ræðu hæstv. fyrrv. forsrh. frá því í mars árið 1989 í Ósló mega menn sjá það að þessum fyrirvörum hefur verið til skila haldið.
    Ein fullyrðingin er þessi: Þetta er allt annar samningur, sem nú liggur fyrir, en upp var lagt með. Síðan segja menn að utanrrh. vilji alls ekki viðurkenna það og leggja honum þau orð í munn að hann vilji ekki viðurkenna slíkar staðreyndir. Í hinu orðinu vitna menn í skýrslu utanrrh. þar sem því er haldið fram að hinar pólitísku forsendur sem upp var lagt með séu nú gerbreyttar. Það er laukrétt. Ég lagði á það mikla áherslu í umræðum um skýrslu utanrrh. að svo væri. Það er augljóst mál. Flest EFTA-ríkjanna voru hlutlaus ríki. Flest EFTA-ríkin lögðu upp til þessara samninga með það að vilja gera þennan samning við Evrópubandalagið vegna þess að þau töldu sig ekki geta sótt um fulla aðild. Þær pólitísku forsendur eru gerbreyttar. Ég hef lagt á það megináherslu og m.a. ályktað af því að við eigum ekki að stinga höfðinu í sandinn og láta eins og þessar breytingar hafi ekki átt sér stað. Því fer fjarri að ég neiti því að pólitískar forsendur hafi breyst. Það breytir hins vegar engu um það að þessi samningur, ef nokkuð er, er enn þá mikilvægari fyrir okkur Íslendinga en fyrir þau ríki sem eru á leið inn í Evrópubandalagið.
    Skammtímasamningur segja menn. Já, skammtímasamningur fyrir þau ríki sem stefna að inngöngu í EB þó að ég sé reyndar þeirrar skoðunar og hafi oft haft uppi þá fyrirvara að ég telji að það sé engan veginn hægt að slá því föstu að þau verði búin að ná aðildarsamningum á þeim tíma sem þau gera sér vonir um, þ.e. 1995. Fyrir þau ríki sem ekki eru á þeirri leið er þessi samningur enn þá mikilvægari.
    Sagt er að umræða um kosti og galla aðildar að EB hafi spillt fyrir samstöðu um þennan samning. Það er þvert á móti eins og rækilega kom fram í umræðunum. Þeir menn sem hafa haft allt á hornum sér um þennan samning eru nú farnir að tala á miklu jákvæðari máta um hann og jafnvel, eins og hæstv. fyrrv. forsrh sagði, hefur hann þó þann kost að ef hann léttir af þrýstingi á suma aðila í okkar þjóðfélagi um að leita eftir inngöngu í EB, þá væri það af hinu góða.
    Það má lengi staldra við nokkur atriði þess arna. Hv. 2. þm. Suðurl. nefndi sem dæmi um ójafnræðið í samningnum að EFTA yrði að fella niður tollfríðindin en Evrópubandalagið mætti halda 30% hjá sér. Já, þvílíkt. Við erum að sækjast eftir í þessum samningi þeim þætti laga og reglna Evrópubandalagsins sem eru af framsæknara taginu, þ.e. um fjórfrelsið og fríverslun. Það eru höfuðkostir samningsins frá okkar bæjardyrum séð. Við höfum ekki viljað tengjast hinni úreltu landbúnaðarpólitík Evrópubandalagsins sem eru þessi 30%, hv. þm., sem eitt dæmi.
    Menn deila um hvort það sé forsvaranlegt að undirrita samninginn af hálfu ráðherra áður en fyrir liggur niðurstaða vísra manna um það hvort samningurinn kunni hugsanlega að brjóta í bága við stjórnarskrá. Það rifjaðist upp fyrir mér að haustið 1989, í tíð fyrri ríkisstjórnar, stóðu harðar deilur á Alþingi. Þá krafðist þáv. stjórnarandstaða þess að utanrrh. færi hvergi til þess að staðfesta 19. nóv. 1989 að þá væri lokið undirbúningsáfanga samninganna. Þar lá fyrir verklýsing sem var staðfest af utanrrh. Íslands. Þess var krafist að hann færi hvergi nema hann hefði umboð frá Alþingi. Þessu var vísað á bug með þungum rökum af þáv. hæstv. forsrh., Steingrími Hermannssyni, þáv. hæstv. fjmrh., Ólafi Ragnari Grímssyni og sjálfum mér og vísað einfaldlega til þess að það styddist hvorki við neina nauðsyn, rök, hefðir né venjur að utanrrh., handhafi framkvæmdarvaldsins í þessu efni, þyrfti eitthvert slíkt umboð. Sannleikurinn er sá að þótt utanrrh. undirriti samninginn og hafi þar með efnt til þjóðréttarlegrar skuldbindingar af hálfu ríkisstjórnar, þá stendur það eftir að það er með fyrirvara um samþykki Alþingis, það liggur alveg ljóst fyrir. Ekki er stefnt að því að ljúka þeirri umfjöllun Alþingis, sem ég vona að verði vönduð og ítarleg, fyrr en undir árslok. Það er stefnt að því að niðurstöður hinna vísu manna, sem fjalla um stjórnarskrármálið, liggi fyrir í lok júní eða fyrir lok júní. Við höfum meira en hálft ár til þess að fjalla um þetta mál í ljósi þeirra niðurstaðna svo að það er ekkert að óttast í því efni.
    Varðandi þá skoðun sem fram hefur komið að hér sé um að ræða einstaklinga sem eru í vinnu hjá

ríkisstjórninni. Hvers konar tal er þetta? Til hverra á að leita um óhlutdrægt mat í þessu efni annarra en þeirra sem gegna þeim störfum sem krefjast sérfræðiþekkingar á þessu sviði, til prófessora í stjórnskipunarrétti við háskólann, til forvera hans sem jafnframt er sérfræðingur í Evrópurétti? Til slíkra manna hljótum við að leita. Og það er auðvitað fjarstæða að halda því fram að dómari við Hæstarétt Íslands sé vinnumaður ríkisstjórnar. Menn eiga að varast að ganga svo langt til þess að grafa undan trausti á sérfræðilegri álitsgerð innan lands um leið og menn hampa hverri einustu blaðagrein sem kemur fram í Noregi sem einhverju sem eigi að taka bókstaflega og binda trúss sitt við. (Gripið fram í.) Þetta mál erum við búnir að ræða, hv. þm., og ég hef gert mjög rækilega grein fyrir sjónarmiðum mínum í því efni.
    Er það rétt að þetta sé allt annars konar samningur en upp var lagt með vegna þess að nú sé tveggja stoða kerfið brostið? Þetta er eitt af atriðunum sem menn eru að vitna í greinargerð Van der Pas. Það sem upp var lagt með liggur reyndar fyrir í ítarlegri greinargerð um umfang og inntak samninganna eins og þeir lágu fyrir undir lok formennskutíðar Íslands í fyrra skiptið, frá haustinu 1989. Ef menn fletta upp í þeim blöðum sæju menn að inntak þessara samninga er í stórum dráttum hið sama og lagt var upp með og frá því er fyrst og fremst eitt meginfrávik. Það er dómstólskaflinn. Að öðru leyti er kjarni þessa máls tiltölulega einfaldur. Við vorum að sækjast eftir því, EFTA-þjóðirnar, að yfirtaka lög og reglur Evrópubandalagsins um fríverslunina, um fjórfrelsið, að því er varðar viðskipti með vörur, þjónustu, fjármagn og þær reglur sem gilda á vinnumarkaði. Það hefur nánast ekkert breyst í þessu efni frá því. Og að því er varðar t.d. fjármagnsmarkaðinn, þá lágu niðurstöður fyrir í því einna fyrst og þegar í tíð fyrri ríkisstjórnar og hafa nánast ekkert breyst eftir það.
    Það var aldrei krafa EFTA-landanna að krefjast íhlutunar um ákvörðunarferli eða stofnanir Evrópubandalagsins og tveggja stoða lausnin var aldrei nema um ákveðna þætti málsins. Hún var aldrei um það að við ætluðum ekki að yfirtaka lög og reglur Evrópubandalagsins um fjórfrelsið. Hún var fyrst og fremst um stofnanakerfið, þ.e. eftirlitsstofnun og dómstól. Niðurstaðan er sú að við höfum sjálfstæða eftirlitsstofnun, við höfum sjálfstæðan EFTA-dómstól í staðinn fyrir sameiginlegan dómstól og við höfum að sjálfsögðu EFTA-nefnd og EFTA-ráð og þetta er, eins og lagt var upp með, tveggja stoða lausn að því er þetta varðar. Svo geta menn sagt: Evrópubandalagið er stórt og voldugt og EFTA-þjóðirnar eru fámennar. Hefur það eitthvað breyst frá því sem við lögðum upp með? Ekki mikið.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. taldi að áhrif EES-samningsins á íslenskan landbúnað væru óljós. Það væri ekki útilokað að þau væru einhver en hann hafði þó ástæðu til þess að segja að hann teldi að hagsmuna íslensks landbúnaðar hefði ekki verið gætt sem skyldi. Viðskipti með landbúnaðarafurðir út af fyrir sig eru utan við EES-samninginn. Íslendingar gerast ekki aðilar að sameiginlegri landbúnaðarstefnu bandalagsins. Hann breytir því afar litlu um það fyrirkomulag sem tíðkast hefur við innflutning eða útflutning landbúnaðarafurða. Í samningaviðræðum lögðu EB-ríkin þó nokkuð upp úr því að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarafurðir. Því var vel tekið af hálfu EFTA-landanna og það mál var tekið fyrir í fjórum liðum.
    1. Landbúnaðarríkjum EB var það kappsmál að EFTA-ríkin tæku yfir reglugerðir EB um heilbrigði dýra og jurta. Það greiðir að sjálfsögðu fyrir viðskiptum. Að lokum fór þó svo að samkomulag náðist um flestar þessar reglugerðir og munu því EFTA-ríkin alla jafna ekki beita fyrir sig mismunandi heilbrigðiseftirliti til þess að réttlæta innflutningsbann. Ísland eitt EFTA-ríkjanna hefur þá sérstöðu að það er undanþegið þessum samningum.
    2. Sérstakar reglur hafa gilt um afurðir sem unnar eru úr landbúnaðarhráefni. Þegar með fríverslunarsamningunum 1972 var gengið frá því að afnema skyldi innflutningsbann og tolla á mörgum þessara afurða. Hins vegar er heimilt að innheimta verðbótagjald í hlutfalli við það magn landbúnaðarafurða sem við vinnsluna hefur verið notað. Í EES-samningnum er sameiginlegur listi fyrir öll EFTA-lönd yfir unnar afurðir sem þetta gildir um, sérstaklega þó tekið fram að hvað Ísland varðar séu veigamiklar undantekningar.
    3. Þriðja atriðið er viðskiptin við Suður-Evrópuríkin, þ.e. tollfríðindi fyrir liðlega 70 suðrænar landbúnaðarafurðir, banana, ananas, ferskjur, kirskuber, kíví, ólífur, vanillu, safran o.fl. Þetta var ekki fellt inn í samninginn heldur samdi hvert EFTA-ríki sérstaklega við EB. Í flestum tilfellum var um að ræða afurðir sem ekki voru ræktaðar hér á landi og höfðu tollar á þeim verið lágir. Reyndist því afar auðvelt að ganga til móts við þessar kröfur. Það var satt að segja engin fórn af okkar hálfu. Í nokkrum tilfellum voru verulegar innflutningshömlur við lýði að því er t.d. varðar salat, papriku, tómata, gúrkur og afskorin blóm. Það var sæst á að gefa innflutning frjálsan á þessum grænmetistegundum frá 1. nóv. til 15. mars en innflutningsfrelsi var gefið fyrir fimm tegundir afskorinna blóma frá 1. des. til 30. apr. Þetta er löngu upplýst mál, búið að liggja fyrir á annað ár. Önnur EFTA-ríki gengu hins vegar frá tvíhliða samningum þar sem þau gengu miklu lengra. Að segja svo að áhrif í þessum samningi á íslenskan landbúnað séu eitthvert áhyggjuefni er auðvitað ástæðulaust.
    Enn eitt atriði: Hvers vegna er ekki búið að taka upp viðræður við Evrópubandalagið um það hvernig unnt verði að breyta þessum samningi í tvíhliða samning milli Íslands og Evrópubandalagsins eftir árið 1995 eða einhvern tíma á árabilinu 1995--1997? Hvers vegna ekki? Það er í fyrsta lagi er ekki búið að undirrita þennan samning. Samningurinn er ekki kominn í gildi. Við skulum klára þennan samning vegna þess að við vitum að það þýðir lítið að ræða við samningsaðilann um breytingar á honum áður en búið er að ganga frá honum. Það er hin einfalda ástæða. Við skulum athuga það að Austurríki lagði fram sína umsókn um aðild að Evrópubandalaginu í nóvember 1989. Það hafa farið fram einar embættismannaviðræður. Það hefur ekki verið talað við þá frá því að þeir lögðu þessa umsókn fram þó að þeir hafi verið fullvissaðir um það af einhverjum pólitískum forustumönnum að þetta fengi einhverja sérstaka hraðferð. Það er ekki byrjað að tala við þá. Þeim er einfaldlega sagt að það verði ekki farið að ræða slíka hluti fyrr en EES-samningurinn er í höfn. Vera má að þeir geri sér vonir um að þetta taki minni tíma eftir að sá samningur er í höfn og þeir vonast til þess að það verði 1995. En eins og menn hafa sagt: Við höfum ákveðna reynslu af okkar samningum við Evrópubandalagið og það er rétt að þar hafa dagsetningar ekki staðist og tímamörk ekki staðist. Það liggur ekkert ljóst fyrir að þessi ríki séu komin þar sem fullgildir aðilar með einhverri hraðferð. Við getum með öðrum orðum ekki, og það eru staðreyndir málsins, farið að taka upp samningaviðræður við Evrópubandalagið um hvað eigi að taka við á seinni hluta áratugarins fyrr en þessi samningur liggur fyrir. ( Gripið fram í: Hver segir það?) Ég var að segja það.
    Ég held að það sé ekki ástæða til að staldra við fleiri atriði. Ég hef gaman af því þegar hv. 4. þm. Austurl. er að vitna í norsku pressuna, þar á meðal um áfengisbannið. Ég vildi eindregið óska eftir því að þeim ágæta manni Gundersen, þingmanni Frjálslynda flokksins í Noregi, takist að koma upp einkabúð sinni á Karl Jóhann þar sem hann getur farið að höndla með brennivín svo hann láti á það reyna hvort hann er frjáls að því eða ekki. En það liggja fyrir lærðar skýrslur af hálfu norskra stjórnvalda að út frá sjónarmiði Gundersens sé svo illa komið að Norðmenn verða að sitja uppi með sín ,,áfengismonopoli`` af félagslegum ástæðum vegna þess að þetta varði þjóðarsál og þjóðarvitund Norðmanna. Þeim mönnum, sem gera þetta að málfutningsatriði í alvarlegri umræðu, virðist ekki vera sýnt að greina mikið milli aðalatriða og aukaatriða.
    Var ósk Evrópubandalagsins sú að flýta samningum loksins núna eftir að það hafði dregist úr hömlu á annað ár? Nei, heldur betur ekki. Að vísu er það rétt að formennskulandinu í EB, Portúgal, var það nokkurt metnaðarmál að flýta þeim en hið sama má einnig segja um mörg EFTA-löndin vegna þess að þau hafa gert sínar áætlanir um hina þinglegu meðferð málsins. Þannig hafa Svíar gert sína verkáætlun um það að allt liggi fyrir í sænska þinginu 14. maí. Okkar vinnuáætlun var svipuð, þannig að formennskulandið í EFTA, Ísland, lagði þrýsting á hin EFTA-ríkin um að flýta undirskriftinni til 2. maí í staðinn fyrir að hafa hana síðar. Því það er alveg rétt, tíminn er að renna frá okkur, tíminn hefur nýst illa, við höfum orðið fyrir skakkaföllum og tímatöfum því miður. Okkur er það mikið hagsmunamál að þessi samningur nái gildistöku um áramót vegna þess að við eigum mikilla hagsmuna að gæta að svo verði. Þess vegna er í alla staði eðlilegt að við ýtum undir það að sú vinnuáætlun takist.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, enn láta í ljós þá ósk mína að það takist bærilegt samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um verklagið við úrvinnslu málsins. Ég vil taka það fram að því er mig varðar þá hlýtur það að vera á misskilningi byggt ef menn halda að taka eigi þetta mál úr höndum utanrmn. Ákvæði þingskapalaga um hlutverk utanrmn. eru skýr og það er ekki á valdi eins né neins og vafalaust ekki vilji eins né neins að taka málið úr höndum utanrmn., þá þætti þess sem þar eiga heima. Um það gilda einfaldlega þingskapalög, því breytir enginn. Það eru hins vegar ákveðin rök fyrir því hvers vegna skynsamlegt væri að setja ákveðna þætti þessa máls í hendurnar á sérnefnd. Þau rök lúta einfaldlega að því að nú þegar samningsferlinu sjálfu er lokið og fyrir liggur sjálfur texti samningsins og fylgiskjalanna og það allt saman, þá tekur við í þessu tilviki ferill sem er fyrst og fremst um það að leggja fyrir Alþingi Íslendinga frv. til laga um breytingar á innlendri löggjöf eða nýja löggjöf. Þessi lagafrumvörp spanna allt svið íslenskrar stjórnsýslu, heyra undir verksvið allra íslenskra ráðuneyta, heyra samkvæmt þingsköpum undir verksvið annars vegar allra fastanefndanna og það er ráð fyrir því gert í þingsköpum að við slíkar kringumstæður megi setja upp sérnefnd til þess að hafa á hendi samræmingu og verkstjórn í þeim tilvikum. Það er ekkert launungarmál að margir af helstu talsmönnum stjórnarandstöðunnar, þeir sem hafa kynnt sér þetta mál vel og vandlega, hafa lýst jákvæðri afstöðu til þess máls. Það er ekkert einkamál stjórnarliða og út af fyrir sig ekkert sérstakt kappsmál. Það er bara einfaldlega spurning um hvort það er betra verklag og í samræmi við eðlileg þingsköp. Um þetta vona ég að menn geti skipst á skoðunum og rætt og komist að niðurstöðu.
    Ég legg áherslu á það að við erum ekki búin að ljúka þessu máli þegar þessi samningur hefur verið staðfestur því framhald samstarfsins innan Evrópska efnahagssvæðisins kallar á að um mörg mál sem varða breytingar, lagabreytingar o.s.frv., verðum við að fjalla í framtíðinni. Það þarf að vera til frambúðar starfandi þingnefnd sem fjallar um þá þætti málsins sem varða þó ekki fyrst og fremst utanríkispólitískt svið heldur breytingar á innlendri löggjöf. Hlutverk fastanefndanna er eðlilega mikilvægt í þessu máli. Ég tel eðlilegt fyrir utan það að þingið ræði málið rækilega í grundvallaratriðum varðandi stefnuna að þá komi sem allra flestir þingmenn, sem eiga sæti í fastanefndunum, að þeim þáttum þessa máls sem heyra undir þau málasvið þar sem þeir eru einkum að vinna að málum. Ég teldi það til bóta út frá þeirri nauðsyn að allir þingmenn öðlist inngrip í og þekkingu á þessu máli.
    Einmitt vegna þess að tíminn er að renna frá okkur og við höfum nauman tíma til stefnu þá er það svo, og nú tek ég alvarlega þau orð sem hafa verið látin falla af hálfu forustumanna stjórnarandstöðunnar, að við verðum að leggja í þetta mikla vinnu ef við ætlum að vanda hina þinglegu umfjöllun um málið. Það er alveg augljóst mál að við verðum að gefa okkur tíma til þess að hafa sumarþing --- það er spurning um hversu langt það þarf að vera en samkomulag verður að vera milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málsmeðferðina --- en það er alveg óumflýjanlegt því það er sýnt að við ljúkum ekki svo mörgum málum og svo viðamiklu máli án þess. Þetta eru í stórum dráttum mínar skoðanir á því.
    Að því er varðar spurninguna um þjóðaratkvæði þá er ekkert nýtt í því máli. Það bæri að leggja þetta mál fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu ef það af einhverjum ástæðum væri með þeim hætti að það kallaði á breytingar á stjórnskipan ríkisins. Ef svo er ekki þá er hér um að ræða venjulegan, að vísu viðamikinn, en venjulegan milliríkjasamning og það hefur ekki verið hefð eða venja í íslensku ríki að leggja slíka samninga undir þjóðaratkvæði. Það er sá sami háttur sem hafður verður á við afgreiðslu málsins í öllum EFTA-ríkjunum nema Sviss. Sviss hefur annan hátt á af þeirri einföldu ástæðu að stjórnskipan í því ríki er öll önnur en hér er.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að láta í ljós þá ósk að fulltrúar stjórnmálaflokkanna, þingflokkanna, geti komið sér saman um að við gerum það sem gera þarf til að tryggja það að þetta mikla mál fái sem vandaðasta umfjöllun. Þar eiga engin annarleg sjónarmið að ráða ferðinni og ég hef satt að segja enga ástæðu fyrir fram til þess að ætla að slíkt samkomulag megi ekki takast.