Frumvörp um Sementsverksmiðju ríkisins og Síldarverksmiðjur ríkisins

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 13:44:38 (5656)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég vil upplýsa að sambærilegir atburðir urðu í sjútvn. Alþingis í morgun hvað þetta varðar, mjög alvarlegir að okkar mati. Þar var frv. til laga um Síldarverksmiðju ríkisins tekið út úr nefnd og sú tilkynning borin að ríkisstjórnin væri alfarið andvíg því að 7. gr. frv., þeirri sem kveður á um starfskjör starfsmanna, yrði breytt. Síðari málsliður hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``
    Þetta gerist þrátt fyrir að sjútvn. hafði, eftir umræður um málið, óskað eftir áliti óháðra lögfræðinga frá virtri málflutningsstofu úti í bæ til þess að fá fyllri upplýsingar um réttarstöðu opinberra starfsmanna og fékk í hendur mjög ótvíræða niðurstöðu lögfræðinga Almennu málflutningsstofunnar sem þegar hefur verið vitnað til. Þetta var á fyrsta fundi

sem málið var tekið fyrir eftir að niðurstaða lögfræðinganna lá fyrir. Það kom því okkur fulltrúum stjórnarandstöðunnar mjög á óvart að málið skyldi tekið út úr nefnd á þeim sama fundi og ekki síður hvernig upplýsingar um samhengi þessa máls voru bornar saman við nýgerða kjarasamninga. Ég held að vegna stöðu málsins sé óhjákvæmilegt að þetta verði tekið fyrir á nýjan leik og úr því að það hefur gerst í tveimur nefndum þingsins að óskum stjórnarandstöðunnar um að fá að ræða við fulltrúa opinberra starfsmanna er hafnað. Það er auðvitað stóralvarlegur atburður að mínu mati. Í raun og veru virðist málsmeðferðin hafa verið samræmd því nákvæmlega sama á við um meðferð málsins í sjútvn. og það sem síðar virðist hafa orðið á fundi milli kl. tíu og tólf í iðnn. Þessari málsmeðferð er óhjákvæmilegt að mótmæla. Það gengur auðvitað ekki að trúnaðarmenn opinberra starfsmanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða Starfsmannafélags ríkisstofnana skuli ekki fá að koma fyrir nefndir þingsins og taka af öll tvímæli um afstöðu þeirra og samhengi þessarar niðurstöðu við nýgerða kjarasamninga og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í því sambandi. Það er verið að breyta ákvæðum laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þó að það sé ekki gert með frv. sem flutt er gagngert til að breyta þeim lögum, heldur gert með því að vísa til þess að ákvæði laganna skuli ekki eiga við.
    Þar á ofan bætist svo, herra forseti, að það er álit lögfræðinganna að þó svo að á mál þetta verði látið reyna fyrir dómstólum sé það með öllu óeðlilegt að Alþingi sem slíkt sé að blanda sér í þá málsmeðferð með því að gefa eins konar fyrirmæli, eins og hér virðist eiga að standa til. Eðlilegra væri að fjmrn. tæki ákvörðun um að greiða ekki biðlaun í þessum tilvikum og síðan yrði látið reyna á það fyrir dómstóli hvort fjmrn. væri stætt á því. En að Alþingi sé blandað í málið með þessum hætti er auðvitað ótækt og beinlínis óeðlilegt með tilliti til verkaskiptingar í stjórnskipun landsins.
    Ég vil sem sagt, herra forseti, taka undir þau mótmæli sem hér hafa verið höfð í frammi við þessa málsmeðferð meiri hlutans. Ég óska eftir því að málið verði tekið fyrir á nýjan leik í þeim þingnefndum sem um þetta eru að fjalla eða að með einhverjum öðrum hætti gefist tóm til þess nú á þessum sólarhring eða hinum næsta að fá til viðræðna forsvarsmenn opinberra starfsmanna og fá á hreint samhengi þessara mála við nýgerða kjarasamninga og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í því sambandi.