Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 20:58:17 (5679)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram í máli ræðumanna sem hafa talað á undan mér að við fjöllum um stórt mál í þessari umræðu. Hins vegar verð ég að segja að ekki er laust við að umræðan um þetta stóra mál sé nokkuð í svart-hvítu. Það er kannski eðlilegt með tilliti til þess hvernig málum er skipað hér og þegar mál eru afgreidd á þann hátt sem t.d. þetta er og oft er um stjórnarmál, þ.e. þau eru afgreidd í meirihlutaáliti stjórnarsinna gegn stjórnarandstöðu.
    Það ber líka nokkuð á því að þrátt fyrir að stjórnarandstaðan sé nokkuð samræmd í afstöðu sinni til frv. að málum sé samt stillt upp á ólíkan hátt. Ég get ekki stillt mig um að nefna t.d. hvernig 1. gr. og brtt. meiri hlutans á 1. gr. hefur verið túlkuð þó ég líti svo á að 1. gr. skipti ekki mjög miklu máli í sjálfu sér um hvernig frv. sem slíkt eða lögin koma til framkvæmda. En hv. 18. þm. Reykv. nefndi að meiri hlutinn teldi sig vera að tryggja jafnrétti til náms með breytingum á 1. gr. á meðan hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði að með breytingu á 1. gr. hefði komið fram að meiri hlutinn hefði ekki þorað að tryggja jafnrétti til náms. Ég segi meira frá þessu til gamans í þessu þó stóra og alvarlega máli en að ég sé að gera það að máli, en ég sé fulla ástæðu til að nefna það hvernig þessi grein var. Hún hljóðar svo í frv.: ,,Meginhlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna er að veita námsmönnum námslán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.``
    Það kom mjög fljótt fram í nefndinni að við litum svo á að það ætti að vera markmið með hlutverkinu, frekar ætti að koma markmiðsgrein, en þarna var verið að segja hver framkvæmdin væri. Við boðuðum mjög fljótt að trúlega yrði greininni breytt með tilliti til þess og brtt. varð svona: ,,Hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna er að tryggja þeim, sem falla undir lög þessi, tækifæri til náms án tillits til efnahags. Sjóðurinn veitir lán til framhaldsnáms . . .  ``, o.s.frv. eins og greinin hljóðaði áður.
    Ég fullvissa hv. þm. um það að með þessari brtt. var nákvæmlega verið að koma á framfæri því sjónarmiði sem gilti hjá okkur við umræðu í nefndinni.
    Gagnrýni hefur komið fram á frv. og frumvarpssmíðina hér og það kom fram talsverð gagnrýni á frv. við 1. umr. og má segja að það hafi komið fram einhver gagnrýni frá þingmönnum allra flokka. Gagnrýnin beindist sérstaklega að hinum félagslegu þáttum sem menn óttuðust að væri verið að fella út með þessu frv., þ.e. endurgreiðsluformi lánanna, endurgreiðslutíma lánanna, vöxtum og vaxtastigi lánanna.
    Þó höfnuðu ekki allir stjórnarandstæðingar vöxtum en lögðu áherslu á að ef þeir væru settir á yrðu það að vera lægstu vextir. Ég minni á að formaður Framsfl. nefndi það einmitt í þingræðu og eins á fundi í Háskólabíói, ef ég man rétt --- ég sat upphaf þess fundar.
    Núna er enn rætt um þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í upphafi þegar þetta frv. var smíðað en ég vil minna á að í mínu máli við 1. umr. kom fram að áherslumunur væri milli stjórnarflokkanna varðandi það frv. sem lá fyrir og að það yrði unnið að breytingum á milli umræðna og í nefnd og að samkomulag hefði verið milli flokkanna að leggja það fram í þeim búningi sem það var og taka síðar á því.
    Ég vil líka vekja athygli á því að menntmrh. tók mjög jákvætt í að ýmsir þættir yrðu skoðaðir í nefnd og tíndi þar til ýmis atriði. Ég sé ástæðu til þess að rifja þetta upp einmitt af því að vinnubrögð við frv. hafa verið nokkuð rædd við þessa umræðu.
    Nú liggja brtt. meiri hlutans fyrir og það er komið til móts við mörg sjónarmið og mér finnst að við getum verið sammála um að það er mjög jákvætt hvaða breytingar hafa verið gerðar á þessu frv.
    Þegar við fengum yfirlýsingu frá samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna lögðu þeir megináherslu á eina sex þætti. Það hefur verið komið til móts við sjónarmið þeirra í fjórum þessara þátta, þ.e. þann þátt sem þau nefndu lánshæfni náms. Þar var vísað í iðn- og verkmenntun og 20 ára regluna og þá þætti sem ákvarða upphæð láns. Þar fjölluðu þeir um þá félagslegu þætti sem þeir töldu að væru felldir út, þ.e. fjölskyldustærð, barnafjölskyldur o.s.frv, líka tekjutengingu og fyrirkomulag endurgreiðslna og þá t.d. hvort ætti að byrja endurgreiðslu strax eftir eitt ár og svo lánstímann, en eins og við vitum og hefur komið hér til umræðu, þá átti hann að vera fjórfaldur námstími. M.a. hefur ekki verið komið til móts við fulltrúa Iðnnemasambandsins og að breyta eftirágreiðslum lána.
    Á fundi í menntmn. skildi ég fulltrúa námsmanna þannig að ef þeir ættu að draga út úr það sem þeim þætti þyngsta atriðið í því sem þeir legðu áherslu á þá væru það trúlega vextirnir. Mér finnst mjög mikilvægt að leggja áherslu á þetta nú þar sem fram hefur komið að vextir munu verða 1%. Í frv. hafði brtt. verið gerð um að þeir geti verið allt að 3%.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði áherslu á og kom með gagnrýni á að tillögur hafi komið fram í áföngum í nefndinni. Að mínu mati er þetta ekki alveg rétt vegna þess að allar megintillögur komu fram jafnt. Vaxtaprósentan kom fram síðar og áður en málið var afgreitt út nefndinni og það var mjög valdlega skoðað hvernig útkoma væri miðað við vaxtastig, bæði varðandi endurgreiðslur til lánasjóðsins og frá sjónarhóli lánasjóðs og varðandi greiðslubyrði lánþeganna og miðað við breyttan lánstíma.
    Ég vil taka það fram að við 1. umr. í málinu vakti hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, athygli á því og það hefur verið komið inn á það í umræðunni hér þótt ekki væru notaðar sömu tölur, að við starfslok mundi t.d. hjúkrunarfræðingur skulda 4 millj. kr. Í nál. minni hlutans hefur komið fram að skuldastaða lánþega við starfslok --- þá erum við að tala um við 67 ára aldur --- sé mjög há og nefndar mjög háar upphæðir. Við þessa gagnrýni eru menn að taka mið af 3% vöxtum. Ég hef fullan hug á því að nefna það hér

þannig að það komi líka fram í umræðunni hér hvernig þetta er í raun miðað við þá útreikninga sem hafa verið lagðir fram í nefndinni. Ef við tökum mið af útreikningum sem taka mið af meðallaunum starfsgreina hjá aðila sem var í námi með tvö börn og tekið lán var 2,8 millj. og meðallán á ári yfir 700 þús. kr., þá væri viðskiptafræðingur búinn að ljúka endurgreiðslum 42 ára gamall eftir 18 ár á vinnumarkaði.
    Ef við tækjum verkfræðing þá væri hann búinn að greiða lán sitt upp sem væri svipað að upphæð um fertugt eftir 16 ár á vinnumarkaði.
    Ef við tökum hjúkrunarfræðing sem hefði tekið jafnhátt lán, þ.e. nærri 3 millj. á námstíma og meðallánið hefði verið 710 þús. á ári --- og þarna erum við enn að tala um aðila sem er með tvö börn á framfæri --- ætti þessi hjúkrunarfræðingur eftir miðað við meðaltekjur starfsgreina, 327 þús. kr. í skuld 67 ára gamall. Þá væru launin sem í upphafi eru reiknuð 98.000 orðin 101.000 kr. Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að meðan við erum að taka lán og reikna á það 1% vexti þá erum við samt ekki að reikna launin fram meira en það að þau væru eftir allan þennan starfstíma orðin 101.000 kr. Við erum að tala um árstekjur upp á 1.177.299 kr. sem væru orðnar 1.219.897 kr. Þetta er mjög mikilvægt.
    Framhaldsskólakennarar sem tækju sömu lán væru búnir að borga sitt lán 62 ára og sálfræðingar 59 ára, nokkurn veginn svipuð hlutföll.
    Þá segja menn: Hvað þýðir þetta? Hvaða meðaltekjur er verið að tala um? Hér er verið að tala um meðaltekjur miðað við tekjur starfsgreina samkvæmt könnun sem var gerð af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands 1989 og þessar tekjur hafa verið uppfærðar með launavísitölu til að gera þær sem raunsannastar.
    Óskað var eftir því að annað væri skoðað. Ósanngjarnt væri að taka mið af meðallaunum og eðlilegt væri að fá útreikninga á svokölluðum taxtalaunum. Það var orðið við þessari beiðni og við skulum skoða hvað það þýðir. Það þýðir að viðskiptafræðingur sem hefði verið í námi með tvö börn og hefði tekið lán sem var orðið 3,4 millj. við námslok, 864.000 á ári, mundi skulda við starfslok um 1.800.000 kr. En út frá hvaða launakjörum er þá verið að ganga? Það er verið að ganga út frá því að þegar hann byrjaði að greiða af lánunum væri hann með 65.000 kr. í laun --- við erum að tala um viðskiptafræðing og hagfræðing --- þegar hann væri orðinn fertugur væru launin orðin 84.000 og þegar hann væri orðinn 67 ára gamall væru launin orðin 88.000 kr. Þetta eru tölurnar sem við erum að miða við að viðkomandi hafi á meðan við í hinum dálkinum reiknum á lánin 1% vexti upp til 67 ára. Við verðum að skoða út frá hvaða forsendum við göngum þegar við berum svona saman og nefna það hversu þung greiðslubyrðin verði og það verði að líta á hver taxtalaun verði af því að nú sé að harðna á dalnum.
    En hvað yrði þá um aðrar stéttir og er hægt að bera þetta saman við þær tölur sem ég nefndi hér áður? Verkfræðingur við sömu aðstæður væri búinn með sitt lán þegar hann væri 57 ára og þá væru árslaunin hans 2,1 millj. --- og við erum að tala um heildartekin lán upp á nærri 3,5 millj. kr.
    Því miður treystu menn sér ekki til að gera útreikninga á taxtalaunum hjúkrunarfræðinga sem svo mjög hafa verið notaðir í samanburði eða tilvitnunum vegna þess að það er dálítið flóknara en hjá mörgum öðrum stéttum sem hafa bein laun án álags og annað slíkt.
    Við skulum skoða hvernig staða framhaldsskólakennara væri ef hann hefði verið að læra með tvö börn, hefði tekið lán upp á 3,5 millj., 864.000 á ári, og hver staða hans væri við 67 ára aldur ef hann yrði alla tíð á taxtalaunum. Það er þá sem þessi framhaldsskólakennari mundi bera enn þá 2 millj. kr. skuld miðað við að 1% vextir væru reiknaðir allan tímann á lánið. En við hvaða laun er miðað? Við værum að miða við það að þegar endurgreiðslur hæfust væri þessi framhaldsskólakennari með 61.000 kr. á mánuði eða 733.000 í árslaun, en árslánin hans á námstíma voru 864.000 kr. Um fertugt hefði þessi framhaldsskólakennari verið kominn með 79.000 kr. og þegar hann er orðinn 67 ára gamall og stendur með skuld hjá lánasjóðnum um 2 millj. kr. þá er hann kominn í 83.000 kr. í laun á mánuði.

    Þetta eru tölurnar að baki þeim útreikningum sem við lögðum fram í nefndinni þegar við vorum farin að fjalla ákveðið um þessa vexti. Það er alveg nauðsynlegt að þetta komi hér fram miðað við það sem áður hefur verið sagt.
    Það var líka skoðað mjög vel hvernig það kæmi út að vera með stighækkandi endurgreiðslur á lánunum eins og hér hefur verið nefnt og ég verð að viðurkenna það að sú sem hér stendur heillaðist nokkuð af því sem hún taldi að yrði jöfnunaraðgerð með því að vera með ákveðna prósentutölu upp að ákveðinni upphæð eins og 1.200 þús., eins og námsmenn voru með, og hærri prósentu á upphæð þar fyrir ofan. Það kom mér mjög á óvart þegar við fengum útreikninga um þau atriði að það munaði svo miklu að hafa hærri prósentuna, þó upp að 1.200 þús. eins og tillaga var um að jöfnunin var talsvert mikil og í mörgum útreikningum hjá okkur varð heildarendurgreiðsla undir 6%.
    Ég mun ekki gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hlutinn hefur lagt fram vegna þess að formaður nefndar hefur gert það mjög ítarlega í framsögu. Ég verð að segja það að ég er mjög ánægð með þær breytingar sem hafa verið gerðar á þessu frv. og samstaða var algjör hjá meiri hlutanum um þá félagslegu þætti sem svo mjög hafa verið til umræðu.
    Ég veit að eftirágreiðslan á lánunum er harður kostur, það hefur komið hér fram og við vitum að það er harður kostur, ekki síst að mati námsmanna. Því er ekki breytt hér og ég vona að reynslan eigi eftir að leiða það í ljós að það ákvæði sé ekki eins slæmt og margir óttast.
    Mér finnst mjög mikilvægt að ákvæði um að tillit verði tekið til fjölskyldustærðar og búsetu er lögfest áfram. Það er líka mikilvægt í þeirri umræðu sem er um menntamál og verkmenntun í dag að það er algjör samstaða um það og hefur verið frá því í 1. umr. að ekki verði miðað við 20 ár í verkmenntanámi. Það er tekið á því sem margir óttuðust að með kröfunni um tvo ábyrgðamenn væri kannski farið inn á braut sem gæti orðið mörgum erfið og það er fallið frá því. Þó að það fyrirkomulag sem á að gilda sé í einhverju frábrugðið þá er óbreytt krafan um einn ábyrgðarmann eins og verið hefur.
    Líka er gott að það hefur verið gengið hreinlega frá því að greiðsla á eldri lánum hefst ekki fyrr en nýrra lán er að fullu greitt. Þetta skiptir mjög miklu máli því það voru áhyggjur uppi um að þetta ákvæði eins og það var gæti orsakað mjög háar jaðargreiðslur við sérstök tilvik.
    Breytingar eru gerðar á endurgreiðslu lána og munar mestu varðandi afnám ákvæðis um fjórfaldan námstíma og það vegur talsvert þungt í skoðun á breytingunum að endurgreiðslur hefjast ekki fyrr en tveimur árum eftir námslok.
    Við erum öll sammála um nauðsyn og gildi menntunar og að stuðningur við æskufólk til að sækja sér menntun skiptir miklu, enda er það markmið allra flokka að stuðla að jöfnum tækifærum námsmanna til náms. Þess vegna get ég tekið undir hvert orð hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur í ræðu hennar í dag þar sem hún taldi upp alla þá dýrmætu þætti sem tengjast menntun. Ég er sammála henni í því. Vissulega er verið að gera breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna en það er ekki verið að afnema hann. Það er ekki verið að afnema það að veita námsmönnum lán til náms eins og stundum mætti halda miðað við málflutning minni hlutans. Áfram verður tekið tillit til barna og fjölskyldugerðar sem mér finnst skipta mjög miklu máli ekki síst með tilliti til möguleika kvenna eins og kom fram og ég fellst ekki á að verið sé að hrekja konur frá námi.
    Ég bind að sjálfsögðu miklar vonir við að þær brtt. sem hér hafa verið settar fram verði samþykktar af öllum. Ég bind vonir við að þær verði mjög til góðs og að það frv. sem verður gert að lögum að lokinni umræðu verði á þann veg að enginn þurfi að hrekjast frá námi né að hætta við að fara í nám og reynslan muni sýna það að þó það sé e.t.v ekki jafnörlátur kostur og verið hefur þá sé það vel fullnægjandi sem hér er gert.