Lánasjóður íslenskra námsmanna

129. fundur
Miðvikudaginn 29. apríl 1992, kl. 21:18:54 (5680)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur kom fram að umræðan eins og hún fer fram hér sé býsna svart-hvít. En það vill svo til að það er einfaldlega

grundvallarskoðanaágreiningur í þessu máli um það hvernig staðið skuli að aðstoð samfélagsins við námsmenn. Þessi grundvallarskoðanaágreiningur ræðst m.a. af því að það fékk enginn að koma að þessu máli meðan það var í vinnslu af hálfu ráðuneytisins þannig að það hefur ekki átt sér stað neins konar málamiðlun. Það er umhugsunaratriði hvernig hæstv. menntmrh. stendur að nefndarskipan. Og nú síðast í kvöld voru fréttir af enn einni nefndinni sem á að endurskoða útvarpslögin. Það er umhugsunarvert hve einhliða hann stendur að öllum þeim málum sem snerta menntun og menningu.
    Hv. þm. nefndi 1. gr. sérstaklega. Ég nefndi það í minni ræðu að fulltrúar meiri hlutans þættust vera að tryggja jafnrétti til náms með því orðalagi sem þar er upp tekið. En ég tel að frv. í heild gangi þvert gegn jafnrétti til náms og þykist hafa rökstutt það hér mjög rækilega.
    Ég vil einnig að það komi fram vegna orða þingmannsins um áherslur námsmanna að það var ekki bara eitt atriði sem námsmenn töldu vega þyngst í þeim breytingum sem hér er verið að boða heldur nefndu þeir fjögur atriði. Ég skrifaði í mína fundargerð eftir þáv. formanni Stúdentaráðs að það væru fjögur atriði sem þar vega þyngst, vextirnir, eftirágreiðslurnar, biðtíminn, þ.e. að byrjað er að borga af lánum eftir tvö ár í stað þriggja áður, og síðast lántökugjöldin. Þessi fjögur atriði lögðu námsmenn mesta áherslu á.
    Þingmaðurinn nefndi einnig gagnrýnina á skuldir sem fólk mun standa uppi með eftir 67 ára aldur og nefndi að sú gagnrýni miðaðist við 3% vexti. Þetta er þung greiðslubyrði hvort sem miðað er við 3% vexti eða 1% vexti. Það er verið að þyngja greiðslubyrðina verulega. Og ef við miðum við þau launakjör sem stórir hópar háskólamanna hafa í dag munar þetta miklu. Fólk mun eiga erfitt með að standa undir þessu. Og hvað heldur þingmaðurinn að þessir 1% vextir haldist lengi? Það er verið að opna á 3% og héðan í frá verður auðvitað hægt að breyta þessum lögum ef vilji er til þess hjá meiri hluta Alþingis.
    Að lokum, herra forseti. Þingmaðurinn hélt því fram að með þessum lögum væri ekki verið að hrekja konur frá námi. Ég ítreka þá skoðun mína að sú breyting sem hér stendur fyrir dyrum muni gera konum mjög erfitt fyrir og draga úr sókn kvenna til náms og draga úr því jafnrétti sem við höfum góðu heilli stefnt að á undanförnum árum. En hér er stefnt í þveröfuga átt.