Verðlagning á veiðireynslu

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 10:53:00 (5715)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda trú hans á þekkingu sjútvrh. en sem svar við fyrirspurnum er það að segja að það er ekki á verkefnasviði sjútvrn. að fylgjast með því hver brögð séu að viðskiptum af því tagi sem þar er spurt um. En samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, er öllum þeim fisktegundum, sem leyfilegur heildarafli er takmarkaður á, skipt upp á milli einstakra skipa eftir þar til greindum reglum. Veiðar á öðrum tegundum eru hins vegar frjálsar öllum skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, þó með þeim takmörkunum sem leiða af almennum reglum um veiðisvæði, veiðarfæri og veiðitíma. Reynist hins vegar nauðsynlegt að takmarka veiðar á tegund sem samfelld veiðireynsla er á skal skv. 1. mgr. 8. gr. laganna skipta leyfilegum heildarafla upp á milli einstakra fiskiskipa á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja ára. Áður en slík ákvörðun er tekin þarf hins vegar að liggja fyrir tillaga frá Hafrannsóknastofnun um tiltekið aflahámark á viðkomandi tegund. Að verðmeta hugsanleg réttindi út frá því sem kann að gerast í framtíðinni hvað þetta atriði varðar er því alfarið á ábyrgð þeirra sem slíka

samninga gera. Sé um það að ræða að opinberir sjóðir meti áunnin réttindi af vannýttum tegundum verð ég í því sambandi að minna á rétt þingmanna til að leita álits Ríkisendurskoðunar og fá svör við því þar hvort hagsmuna ríkissjóðs hafi verið gætt með eðlilegum hætti. Mér er kunnugt um að Ríkisendurskoðun hefur til skoðunar það sérstaka tilvik sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni.
    Þá er að því spurt hvort stjórnvöld hafi mótað afstöðu til slíkra viðskipta. Það hafa þau ekki gert enda hygg ég að almennt sé erfitt að móta afstöðu til þess með almennum reglum hvernig meta skuli viðskiptavild. Mín skoðun er sú að það hljóti að teljast hæpið að leggja mat á verðmæti afla reynslutegunda sem ekki eru háðar ákvæðum um leyfilegan heildarafla. Hins vegar kunna að vera verðmæti í því fólgin að nýta vannýttar tegundir. Ég á þar fyrst og fremst við þekkingu sem fyrirtæki, sem stundar veiðar á vannýttum tegundum, hefur aflað sér, bæði að því er varðar veiðar og markaðssetningu. Slík þekking getur verið verðmæt og það hlýtur að metast í hverju tilviki hversu verðmæt slík viðskiptavild kann að vera.