Kostnaður við fundaherferðir innan lands á vegum utanríkisráðuneytis

130. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 12:00:03 (5744)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er auðvitað um að ræða pólitískar einkaáróðursherferðir hæstv. utanrrh., það náttúrlega fer ekkert á milli mála og þeir sem hafa komið á þessa fundi vita að hann hefur rekið þá eins og pólitíska fundi fyrir sjálfan sig og sinn fokk. Það er náttúrlega engin tilviljun að hann er að skipuleggja fundaherferð á vegum utanrrn. akkúrat núna í maí í aðdraganda að flokksþingi Alþfl. sem hann hefur látið flýta sérstaklega til þess að leysa innanflokksvandann hjá sér.
    En það er athyglisvert að hann hyggst dreifa ýmsum bæklingum og ritum á þessum fundum og ég vil spyrja hann að því af þessu tilefni hvort hann mundi t.d. dreifa greinargerðum sem Alþb. tæki saman um þessi mál á þessum fundum. Mun hann stuðla að lýðræðislegri umræðu um þessi mál? Ég tel í raun og veru að það ætti að taka hér upp sama háttinn á og er í gangi í Danmörku þar sem núna í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Maastricht-samkomulagið er gert ráð fyrir því að þingið sjálft kosti upplýsingarnar, þingið dreifi upplýsingunum og ég teldi langeðlilegast að Alþingi Íslendinga tæki sig til og stofnaði sérstaka upplýsingaskrifstofu í tilefni af þessari EES-umræðu en ég tel algerlega fráleitt að láta formann Alþfl. einan um að ganga í sjóði þjóðarinnar til þess að kosta áróður í þessu skyni, sérstaklega þegar svo stendur á að hann er í kröppum dansi að undirbúa um leið flokksþing Alþfl.