Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 13:24:00 (5767)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Umræðan um atvinnumál á Suðurnesjum og sérstakt átak til að bæta úr miklu atvinnuleysi kvenna þar hefur borist víða bæði í tíma og rúmi.
    Þegar við skildum við umræðuna þann 6. mars sl. hafði 31 ræða verið haldin, bæði langar ræður og andsvör. Við höfum heyrt af meintri framsóknarmennsku Gorbatsjovs og stuðningi Margrétar Thatcher við skólagöngu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ég vil leyfa mér að álykta það að umræðurnar hafi farið út á allar þessar brautir vegna þess að í þessu máli séu bæði landsmálin og heimsmálin samankomin í hnotskurn. Ég efast ekki um að hv. þátttakendur í umræðunni eru sér vel meðvitaðir um það að þar sem konur eru ekki, dafnar og sprettur líf ekki. Þar sem konur vinna um 2 / 3 hluta allra vinnustunda í heiminum má ljóst vera að ekki er líklegt að við finnum konur þar sem ekki er kostur á vinnu og henni helst við hæfi.
    Þróunin bæði hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum hefur sannað að þegar konur eiga ekki lengur kost á störfum sem þær sækjast eftir á einstökum landsvæðum hefur orðið þaðan verulegur brottflutningur. Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er staða sem gæti hent á því gróskumikla atvinnusvæði sem Suðurnesin hafa löngum verið þrátt fyrir ýmsar hremmingar. Þetta getur gerst hvar annars staðar sem er ef ekki er vel að gáð. Ég vil þakka góðar undirtektir flestra ræðumanna við þessa tillögu. Ég get tekið undir ýmsar þær ábendingar sem fram hafa komið. Ég tek undir það að atvinnuleysi er alltaf alvarlegt hvar sem það kemur upp. Atvinnuleysi karla er að sjálfsögðu ekkert síður alvarlegt en atvinnuleysi kvenna en það breytir ekki þeirri staðreynd að á Suðurnesjum er við mjög sérstakt vandamál að glíma sem er stöðugt atvinnuleysi kvenna sem hefur verið í kringum 10% alveg síðan í haust. Mest hefur það komist upp í næstum 12% í janúar og þetta eru alvarlegar tölur.
    Við vorum hér tveir þingmenn Reyknesinga úr stjórn og stjórnarandstöðu að spjalla saman áðan og við vorum sammála um að það væri hreint furðulegt hve litla athygli þessar háu tölur hafa vakið og hann stakk því raunar að mér að e.t.v. hefðu viðbrögðin verið önnur ef t.d. þetta sama ástand hefði komið upp í Vestmannaeyjum. Ég varpa þessu bara hér til athugunar, ég vil engum stað á landinu, hvorki Vestmannaeyjum né öðrum það að búa við það atvinnuleysi sem hefur verið meðal kvenna á Suðurnesjum en ég hlýt að varpa þessu fram til íhugunar hvers vegna þessar ógnvænlegu tölur hafa ekki verið teknar eins alvarlega og mér finnst ástæða til.
    Sérstök svæðisbundin vandamál kalla á sérstakar aðgerðir og ég held að ekki sé ósanngjarnt að kalla á þjóðarsátt um að gripið verði til raunhæfra aðgerða þegar í stað vegna þessa sérstaka atvinnuleysis sem á sér sem betur fer ekki hliðstæðu annars staðar enn. Ég get ekki séð annað en að grundvöllur ætti að vera fyrir slíkri þjóðarsátt um aðgerðir. Fólk úr öllum flokkum hefur sýnt þessu máli skilning og rætt það af ábyrgð og alvöru sem málið krefst. Lýst hefur verið eftir úrræðum og þau eru til. Þótt ég leggi ríka áherslu á að ríkisvaldið eigi ekki að ráðskast um of um hvernig atvinnuuppbygging á sér stað á einstökum svæðum, það er hlutverk heimamanna að mínu mati, þá er það ýmislegt sem ríkið getur gert þegar einstök vandamál koma upp. Fyrst og fremst með því t.d. að draga úr samdrætti þar sem atvinnuástand er slæmt. Í öðru lagi með því að skapa hagstæð almenn skilyrði fyrir atvinnulífið. Þar á ég m.a. við þá vaxtalækkun sem kjarasamninga þurfti til þess að knýja í gegn og vona ég að það muni muna um hana.
    Ég á einnig við það að leggja ekki þungar álögur á atvinnuvegi sem standa höllum fæti. Það er ýmislegt fleira sem mætti nefna og ég nefndi raunar í máli mínu í upphafi, þótt alllangt sé síðan og vonast ég til þess að frekar en að fara að endurtaka of mikið að mönnum sé það minnisstætt.
    Í þriðja lagi þá getur ríkisvaldið gripið til óbeinna aðgerða sem eru mjög bitastæðar, eins og með því að styðja rannsóknir, þróun og styðja við bakið á nýsköpun fólksins sjálfs, annaðhvort með beinni fjárhagsaðstoð eða annarri aðstoð svo sem fyrirgreiðslu og forgangsröðun verkefna. Þetta getur skipt sköpun þegar ný atvinnustarfsemi er að komast á laggirnar.
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að í kvöld verður haldinn fundur á vegum bæjarstjórnar Grindavíkur um atvinnumál á þessu svæði. Við þingmenn og þingkonur Reykjanesskjördæmis erum sem betur fer boðuð þangað. Mér þykir það mjög gott og ætla að sjálfsögðu að mæta og ég veit að það eru fleiri sem ætla að gera það.
    Ég held að langmikilvægast sé að hlusta á og taka mið af hugmyndum heimamanna um atvinnuuppbyggingu og að fylgjast vel með og styðja við bakið á þeim mönnum og þeim hugmyndum sem þarf. Ég vil einnig vísa til ályktunar sem Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum sendi frá sér 13. apríl sl. en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ýmsar blikur eru á lofti í atvinnumálum hér á svæðinu og nokkurt atvinnuleysi virðist vera að festa rætur. Það er því full ástæða til að sporna við fótum og leita allra leiða til að tryggja Suðurnesjamönnum þá atvinnu sem er á svæðinu og vinna ötullega að vexti og viðgangi nýrra tækifæra í atvinnulífinu.``
    Undir þetta tek ég. Ýmsar hugmyndir eru þarna settar fram í fimm liðum og ég vil sérstaklega vekja athygli á þriðja lið þar sem er að mörgu leyti komið út í það sama og ég gat um, en þar segir, og bið ég enn leyfis hæstv. forseta til þess að vitna í þetta skjal:
    ,,Vinna þarf skipulega að markaðssetningu Suðurnesja með tilliti til nýrra atvinnutækifæra. Þess er krafist að ríkisstjórn Íslands veiti til þess fjármagni og í samráði við heimaaðila leiti að og setji fram hugmyndir og möguleika þá sem til staðar eru í hverju sveitarfélagi þannig að hægt sé að byggja upp og kynna heildstæða mynd af Suðurnesjum sem atvinnulegri heild.``
    Mér finnst full ástæða til þess að vekja athygli á þessu vegna þess að þarna kveður við mjög svipaðan tón og ég er að reyna að koma á framfæri og sem betur fer endurómar í máli flestra hér. Ég vil koma því enn einu sinni á framfæri að skynsamleg uppbygging byggist ekki síst á því að hlúa að hinu smáa, ekki síður en hinu stóra og útiloka ég þá hvorugt. Nú loksins er að renna upp fyrir ráðamönnum í stjórnmálum og viðskiptum að það sem við kvennalistakonur höfum alltaf lagt áherslu á, að hlúa beri að hinu smáa, er ekki einungis gott fyrir sálina og hugmyndaflugið heldur bara mjög arðvænlegt líka. Um þetta vitna bæði ummæli sem ég hef vísað til í öðrum umræðum og fyrr í þessari umræðu og einnig ýmsar ráðstefnur, verkefni og eitt og annað sem við höfum verið að sjá núna að undanförnu. Ég fagna að sjálfsögðu þessari fjölbreytni og þessari hugarfarsbreytingu og í ljósi hennar held ég að það hljóti að vera sanngjarnt að fara fram á það að tillaga sú sem er til umræðu mæti skilningi. Það er brýnt mál og þolir ekki nokkra bið.
    Ég vænti þess að ef raunverulegur vilji er til að taka á þessu brýna og afmarkaða máli nú á samdráttartímum þá verði það gert og ég veit að það er hægt. Því vonast ég til þess að hv. félmn., sem fær málið til umfjöllunar, sé reiðubúin til að hraða afgreiðslu málsins. Ég held að engum blandist hugur um það að vandinn er fyrir hendi, hann er skilgreindur, hann er skilgreinanlegur, hann er þekktur, hann er mikill, hann er brýnn og á honum þarf að taka.