Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 14:02:00 (5824)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í frv. þá er þetta frv. niðurstaða af alllöngu starfi sem hefur farið fram í samvinnu við eigendur frystiskipa í landinu. Sú þróun sem hefur verið á undanförnum árum er öllum kunn, þ.e. frystingin hefur verið að flytjast í auknum mæli út á sjó og ekki hafa verið nægilega skýrar reglur þar um.
    Það má segja að það hafi staðið þessum málum nokkuð fyrir þrifum að Alþingi hafnaði því á sínum tíma að eigendur frystiskipa greiddu kostnað af eftirliti um borð í skipunum en brtt. var flutt um það fyrir allmörgum árum og var henni hafnað hér á Alþingi. Þetta hefur m.a. orðið til þess að ekki hefur verið hægt að hafa eftirlit með þessum skipum nema á kostnað ríkisins en það hefur verið mikil þörf fyrir meira eftirlit með þessum veiðum en öðrum veiðum almennt. Nú er gefin heimild til þess að útgerðir þessara skipa greiði allan kostnað sem hlýst af veru eftirlitsmanna og er það vissulega veruleg breyting.
    Að öðru leyti eru mjög víðtækar heimildir í núgildandi lögum til þess að hafa eftirlit með þessum skipum og má reyndar segja að allar heimildir séu til þess að gera það sem hér er lagt fyrir. Hitt er svo annað mál að það er skýrara að koma þeim fyrir í sérstakri löggjöf eins og hér er gert. Ég tel að sú samvinna sem hefur tekist með eigendum frystiskipa á undanförnum árum sé dæmi um það hverju megi koma til leiðar í góðri samvinnu opinberra yfirvalda og atvinnurekstrar. Nýting þessara skipa hefur stórlega batnað og það hefur verið unnið að því að finna leiðir til þess að nýta allt sem inn fyrir borðstokkinn kemur og þar hefur náðst allverulegur árangur. Hins vegar er það svo að miklu af hausum og slógi er hent fyrir borð og það hlýtur að vera stefna okkar að nýta allt sem skipin veiða. Með þessu frv. er lögð áhersla á þá stefnu að að því verði unnið af fullum krafti og sett verði ákveðin markmið í því sambandi. Tækniframfarir eru miklar og markaður er fyrir sumt af þeim vörum sem má vinna um borð í skipunum en því miður ekki allar. Það er til lítils að skylda skip til að hirða allt ef ekki tekst að selja vörurnar þegar að landi kemur. Það er t.d. til lítils að hafa meltutanka ef ekki er hægt að koma meltunni í verð og hún er ekki nýtt með viðeigandi hætti þegar að landi kemur. Þarna eru sem betur fer verulegir möguleikar eins og fram kemur í grg. með frv.
    Eins og fram kemur í nál. styðjum við fulltrúar Framsfl. þetta frv. með þeim brtt. sem kynntar eru á þskj. 757 eins og formaður nefndarinnar tók fram.