Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 14:42:16 (5827)

     Magnús Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Örstuttar athugasemdir við það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði áðan varðandi brtt. sem ég flyt hér. Það má vel vera að þetta ákvæði í tillögunni sé nægilegt til að tryggja þessa aldagömlu hefð sem hér hefur skapast í sambandi við það að í smærri bátum geti menn flakað og saltað um borð. Hins vegar er það meginmálið í mínum huga að láta það koma fram að þau lög, sem hér er verið að setja, taka einfaldlega ekki til þessara útgerðarhátta. Það stendur í greinargerð með frv. t.d.: ,,Lögin taka ekki til annarra vinnsluskipa sem t.d. heilfrysta botnfisk eða vinna rækju um borð.`` Því í ósköpunum má þá ekki einfaldlega segja að þau taki ekki til þessara fiskvinnsluhátta fyrst á annað borð er verið að minnast á heilfrystan botnfisk eða rækju? Í reynd er hvergi minnst á þetta í frv. og heldur ekki í greinargerð. Varðandi það hvort ekki eigi að gilda sömu reglur vil ég benda mönnum á það að allar niðurstöður og skýrslur um gæði þess fisks sem þannig hefur verið verkaður, þ.e. flattur og saltaður örfáum klukkutímum eftir að hann er veiddur um borð og settur í salt, sýna að hann er besta hráefni sem menn geta fengið í hendur.