Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 14:46:26 (5829)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að biðja forseta um að athuga hvort ekki sé hægt að fá hæstv. sjútvrh. til fundarins svo hann geti verið viðstaddur umræðuna. Ég hef hugsað mér að leggja fyrir hann eina eða tvær spurningar um þetta mál.
    Ég vil varðandi frv. láta það koma fram að ég get tekið undir það sjónarmið að hér er á ferð frv. sem tekur að nokkru leyti á fiskvinnslu úti á sjó og stýrir málinu heldur til réttrar áttar þótt mér þyki sporið býsna stutt og hefði gjarnan viljað sjá að tekið væri á þessu máli með miklu ákveðnari hætti en ráð er fyrir gert. Engu að síður er þó ávinningur að því að fá löggjöfina og því mun ég styðja það að frv. verði samþykkt á þessu þingi. Ég vil láta það koma fram varðandi þær brtt., sem hér liggja fyrir, að ég tel þær til bóta, fyrri tillaga sjútvn. og tillaga hv. þm. Magnúsar Jónssonar sem mér þykir mun betri en síðari tillaga hv. sjútvn. Sú tillaga er með þeim annmörkum að það er engin vissa fyrir því að sett verði reglugerð um málið heldur einungis sagt í lagatexta frá nefndinni að ,,ráðherra getur með reglugerð``. Málið er því opið og ráðherra það í sjálfsvald sett hvort hann yfir höfuð setur þessa reglugerð eða ekki. Ef ráðherra er þeirrar skoðunar, sem hann þarf ekki að rökstyðja, að óþarft sé að setja reglugerð skv. 2. brtt. sjútvn., sýnist mér að flatning og söltun um borð í þessum litlu bátum verði óheimil. Ég tel því tillögu hv. þm. Magnúsar Jónssonar taka af skarið í þessu máli og mun styðja hana.
    Ég vil beina fsp. til hæstv. sjútvrh. varðandi ákvæði til bráðabirgða sem varðar þau frystiskip sem nú eru í smíðum í landinu. Í ákvæði til bráðabirgða kemur fram að veita skuli frest til 1. sept. 1996 til að uppfylla ákvæði laganna varðandi þau skip sem eru í rekstri við gildistöku laganna eða þau skip sem samið hafði verið um smíði á eða kaup með bindandi hætti fyrir 10. nóv. 1991.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra varðandi þau skip sem er verið að smíða núna erlendis, sem ég hygg að séu fimm, og sem stjórn Fiskveiðasjóðs samþykkti að lána til síðasta haust: Mun ákvæði til bráðabirgða taka til þessara skipa eða munu þau þurfa að uppfylla ákvæði frv. ef að lögum verður?
    Annað atriði sem mér er umhugsunarefni er ákvæði í 4. gr. frv. um skilyrði fyrir leyfisveitingu þar sem segir að skilyrði séu í fyrsta lagi að fjöldi í áhöfn sé nægilegur. Ég vil spyrja: Hver á að meta það hvenær fjöldi í áhöfn er nægilegur? Í öðru lagi er skilyrði að vinna á afla á fullnægjandi hátt og það er reyndar tekið skýrar fram í 2. gr. Það kemur fram í 5. gr. að Ríkismat sjávarafurða á að skila áliti á því hvort búnaður sé fullnægjandi. Það þarf ekki endilega að þýða það sama og að vinna aflann með fullnægjandi hætti. Ég hef verið að velta þessu orðalagi fyrir mér og vil biðja hæstv. ráðherra að skýra þetta frekar, ef hann er tilbúinn til þess á þessu stigi, því ég tel að ekki megi leika vafi á því hvernig beri að túlka þessi skilyrði.
    Hvað varðar 6. gr. þá er hún afleiðing af því sovétkerfi sem við höfum á stjórn fiskveiða. Menn þurfa að hafa eftirlitsmenn til að framfylgja lögum. Það er með ólíkindum hvað menn eru iðnir við að viðhalda og styrkja svona stjórnunarkerfi og sérstaklega þegar menn hafa í huga þann flokk sem hæstv. ráðherra er fyrirsvarsmaður fyrir. Sá flokkur er í engu eftirbátur flokks fyrrv. sjútvrh. í að koma upp eftirlitsmönnum, ekki bara á landi heldur líka á sjó. Það væri kannski tilefni til þess að menn veltu því fyrir sér hvort ekki væri hægt að finna skaplegra stjórnunarkerfi sem gerði það ekki nauðsynlegt að menn hefðu lögreglusveitir um allar jarðir.
    Það sem hér hefur verið nefnt varðandi aðstöðumun vinnslu á sjó og á landi get ég tekið undir. Þetta frv. gengur aðeins í þá átt að draga úr þeim mun en munurinn er enn allt of lítill. Ég vil benda á þær upplýsingar, sem ég hef áður látið koma hér fram, sem ég fékk í hendur síðasta haust, að útflutningsverðmæti fisks frá landfrystihúsum væri mun meira en verðmæti fisks frá frystiskipum. Þær upplýsingar voru að það munaði um 60 kr. á kg sem þýðir, ef við tökum Vestfirði og afla þess kjördæmis og vinnslu fyrir árið 1990, að þá var útflutningsverðmætið 4 milljarðar hjá landfrystihúsum þar en hefði orðið 3 milljarðar ef þessi sami fiskur hefði verið unninn um borð í frystitogara. Í mínum huga er það engin spurning að þjóðhagslega séð skilar landfrystingin mun meiri verðmætum inn í þjóðarbúið en sjófrystingin. Ókosturinn eða gallinn, sem menn búa við í dag, er sá að skilyrði landfrystingarinnar eru mun lakari en skilyrði sjófrystingar þegar menn skoða sjófrystinguna sem afmarkaðan þátt, hún skilar betri afkomu en landfrysting. Það eru vissulega mörg atriði sem valda því. Sum þeirra atriða eru á valdi manna sjálfra að breyta og í sjálfu sér óþarft að setja þau í löggjöf. Ég nefni þann kost sem sjófrysting hefur umfram landfrystingu að þar nýta menn vinnslubúnaðinn mun meira á sólarhring en í landfrystihúsi og ná þar af leiðandi fram meiri afköstum. Þetta geta menn gert á landi og eru e.t.v. farnir að hugleiða það til að mæta samkeppni frá sjóvinnslu og minnka þannig kostnað sem í dag liggur á bak við hvert unnið kíló. Með því lækka menn verulega þann fastakostnað sem þar liggur á bak við.
    Annar kostur sjófrystingar er náttúrlega ferskt hráefni. Menn fá þar mun ferskara hráefni til vinnslu heldur en við landfrystingu. Þarna geta menn með fiskveiðistjórnun tekið upp þær reglur sem stuðla að því að fiskur berist oftar í land þannig að hann sé ferskari að jafnaði en nú er.
    Þriðji kosturinn sem sjófrystingin býr við og skekkir samkeppnisstöðu landfrystingar gagnvart sjófrystingu er aðgerð af hálfu ríkisvaldsins, þ.e. sjómannaafslátturinn. Það má segja með öðrum orðum að ríkssjóður sé að greiða ákveðinn hluta af launakostnaði úti á sjó í gegnum sjómannaafslátt sem ekki er gert í landfrystingu. Það hlýtur að vera mjög áleitið hvort ekki sé rétt að hafa sömu skilyrði hvað þetta snertir á landi og sjó. Ég hef verið þeirrar skoðunar að menn eigi að hafa sama afslátt við þessi störf hvort sem þau eru unnin um borð í frystiskipi eða í vinnslusal í frystihúsi. En þarna er verið að mismuna vinnsluaðferðum með þessum hætti.
    Ég vil láta þessi sjónarmið koma fram. Það hefði verið nauðsynlegt að fram færi umræða hér í tengslum við frv. þar sem menn drægju fram þau skilyrði sem eru mismunandi fyrir atvinnurekstur á landi og sjó í þessari atvinnugrein. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi látið taka saman upplýsingar um mismunandi skilyrði við sjófrystingu annars vegar og landfrystingu hins vegar, í hverju hann liggur og hvort hann hafi látið taka saman upplýsingar um mismun á verðmæti hráefnisins sem menn vinna um borð á sjó eða í frystihúsum. Ég vísa til upplýsinga sem ég rakti áðan um að útflutningsverðmæti fisks sem unninn er í landfrystihúsi sé meiri en fisks sem unninn væri um borð í frystiskipi. Um þetta vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. og bæta þeirri spurningu við þær spurningar sem ég hef áður beint til hans.