Samningur um réttindi barna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 18:54:42 (5860)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er ekki hægt að hafa nema góð orð um það að þessi samningur sé lagður fyrir Alþingi Íslendinga. Að sjálfsögðu er eðlilegt að hann fari til utanrmn. Hins vegar virðist jafnsjálfsagt að

þegar samningur um málefni sem þetta fer til utanrmn. sé honum einnig vísað til allshn. Ástæðan er einfaldlega sú að þar fer fram yfirferð yfir þau frv. sem snerta vernd barna og unglinga. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að því eins nær samningurinn tilætluðum árangri að íslenska lagasafnið taki þá tillit til þess í reynd með þeirri lagasmíði sem á sér stað hér á Alþingi og að við með þeirri lagagerð tryggjum að eðlilega sé eftir samningnum farið. Ekki óskar nokkur maður eftir því að hér sé sett eftirlitsnefnd sem muni tilkynna það út um víða veröld að við Íslendingar virðum ekki reglur samningsins.
    Mér sýnist þess vegna að það sé brýnt og nauðsynlegt að standa þannig að málum að það sé þá unnið skipulega að heildarniðurstöðu.
    Það er misjafnt hvernig þjóðir standa að sínum skipulagsmálum til að tryggja vernd barna og unglinga. Hér hefur verið drepið á frv. sem er í nefnd, umboðsmann barna. Það frv. tekur mið af þeim leikreglum sem Norðmenn hafa notast við í þessum efnum. Við Íslendingar höfum notast við annað kerfi. Hvort það er nauðsyn að hafa bæði kerfin eða hvort það norska er betra en það sem við höfum notast við þyrfti að leggja nokkra vinnu í að bera saman. Hins vegar má um það deila hvort nauðsynlegt sé að hafa þau bæði.
    Ég tel þess vegna að það sé mjög jákvætt að þessi samningur komi hér inn í sali þingsins og vona að okkur gefist vinnutími til að fullgilda hann.