Lífeyrissjóður sjómanna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:15:00 (5868)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. sem er 489. mál þingsins og er að finna á þskj. 754. Þetta frv. er samið að tilhlutan stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna en samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt sem gerð var á sjóðnum í árslok 1989 vantar mikið upp á að hann geti staðið við skuldbindingar sínar að óbreyttum lögum. Um nokkurt skeið hefur sjóðstjórnin leitað leiða til úrbóta. Þær breytingar sem í frv. eru lagðar til á bótarétti sjóðfélaga miða aðallega að því að draga úr útgjöldum sjóðsins. Þetta á við um síðustu breytingar á ákvæðum um örorkulífeyri en á honum hefur orðið gífurleg aukning á síðustu árum, svo og á barnalífeyri til örorkulífeyrisþega. Þá eru lagðar til breytingar á ýmsum öðrum ákvæðum laganna. Breytingarnar þýða í heild sinni sparnað í útgjöldum sjóðsins án þess að unnt sé að sjá nákvæmlega á þessu stigi hversu háar fjárhæðir um er að ræða.
    Í 5.--8. gr. frv. er fjallað um breytingar á lífeyrisréttindum. Þar eru gerðar tillögur til breytinga á rétti sjóðfélaga og aðstandenda þeirra til örorku maka og barnalífeyris.
    Samkvæmt 5. gr. frv. er örorkumatið miðað við vanhæfni til almennra starfa en fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal þó miða við vanhæfni til sjómannsstarfa.
    Samkvæmt núgildandi lögum er aðeins miðað við vanhæfni til sjómannsstarfa þegar réttur til örorkulífeyris er metinn. Sjóðfélagi sem nýtur örorkubóta frá sjóðnum getur verið vinnufær til margra starfa í landi þótt hann sé óvinnufær til sjós. Þessi breyting mun því leiða til skerðingar á rétti til örorkulífeyris og þar af leiðandi til sparnaðar fyrir sjóðinn.
    Lítils háttar skerðing er einnig á barnalífeyri í frv. en hins vegar er lagt til að réttur sambýlisaðila, sambýliskvenna í flestum tilvikum, til makalífeyris verði aukinn. Felst þessi aukni réttur í því að fallið er frá skilyrði um lengd sambúðar ef kona á barn með sjóðfélaga.
    Þá er lagt til í 7. gr. að sambúð leiði til þess að réttur til makalífeyris falli niður, en samkvæmt núgildandi ákvæði fellur þessi réttur aðeins niður ef eftirlifandi maki gengur í hjónaband á ný.
    Flestar þessara breytinga á lífeyrisréttindum er í samræmi við reglur SAL-sjóðanna. Ýmsar aðrar breytingar er að finna í frv. Þessar breytingar varða t.d. rekstur sjóðsins, vaxtaútreikning vegna vangoldinna iðgjalda og með hvaða hætti heimilt er að ávaxta fé sjóðsins.
    Samkvæmt 3. gr. frv. er t.d. gert ráð fyrir því að sjóðnum verði heimilt að fjárfesta í hlutabréfum en slíka heimild hefur sjóðurinn ekki í dag.
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er frv. þetta flutt að beiðni stjórnar sjóðsins og ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um einstök efnisatriði þess en vísa til grg. sem fylgir frv. Þess skal þó getið að fjmrn. hefur borist erindi frá aðilum sem stóðu að þeim brtt. sem hér er að finna og leggja þeir til að við frv. bætist ný grein, 10. gr., sem hún orðist þannig, með leyfi forseta:
    ,,Við ákvæði til bráðabirgða bætist ný málsgrein, 5. málsgrein, sem orðist svo:

    Örorkumat örorkulífeyrisþega sem nýtur bóta vegna orkutaps fyrir gildistöku laga þessara skal fyrstu fimm árin eftir gildistöku laganna miða við vanhæfni sjóðfélaga til þess að gegna starfi því er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd en eftir það skal miða við vanhæfni til almennra starfa.
    Þá skal breyting á barnalífeyri örorkulífeyrisþega vegna áhrifa ákvæðis 8. gr. laga þessara ekki koma til framkvæmda fyrr en fimm árum eftir gildistöku.
    10. gr. verði 11. gr. og orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Þá fylgir þessari tillögu, sem ég ætla að vísa til nefndarinnar og biðja hana vinsamlegast um að taka til skoðunar með sjálfu frv., sú athugasemd að í frv. til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna komi fram í 10. gr. að ákvæði 5. gr. um breytingu á viðmiðun við örorkumat og 8. gr., um lækkun á barnalífeyri örorkulífeyrisþega, skuli koma til framkvæmda 1. jan. 1993. Athugasemdin hljóðar svo: ,,Rétt og eðlilegt þykir að breyting á rétti núverandi örorkulífeyrisþega til örorku- og barnalífeyris skuli ekki taka gildi fyrr en fimm árum eftir gildistöku laga þessara í stað þess að gildistaka verði 1. jan. 1993. Nauðsynlegt þykir að setja sérstakt ákvæði sem kveður á um þetta og er það gert hér í ákvæði til bráðabirgða. Þá þarf einnig að breyta gildistökuákvæði laganna til samræmis við framangreinda breytingu.``
    Ég hef nú gert grein fyrir frv. sjálfu sem ég mæli fyrir í beinu framhaldi af vinnu sem fór fram á vegum lífeyrissjóðsins sjálfs. Enn fremur hef ég gert grein fyrir brtt. sem liggur fyrir og verður send hv. efh.- og viðskn. þingsins, en þangað verður þessu máli væntanlega vísað.
    Það er ljóst að nokkur halli hefur verið á Lífeyrissjóði sjómanna að undanförnu og sjóðstjórnin hefur á undanförnum árum leitað leiða til úrbóta. Gert er ráð fyrir því að þær breytingar sem lagðar eru til á bótarétti sjóðfélaga miði að því að draga úr útgjöldum sjóðsins. Hins vegar má gera ráð fyrir því að breyting á rétti sambýliskvenna sjóðfélaga til makalífeyris auki heldur útgjöldin en væntanlega miklum mun minna.
    Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.