Fjárframlög til vegagerðar

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 13:52:00 (5881)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í tengslum við þá kjarasamninga sem voru gerðir nú á dögunum kom fram yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og í þriðja lið hennar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af gerð kjarasamninga er ríkisstjórnin reiðubúin að stofna samstarfsnefnd um atvinnumál með þessum aðilum með það að leiðarljósi að treysta undirstöður hagvaxtar og atvinnuöryggis. Í þessum efnum verður hugað að stefnumörkun og aðgerðum er örvi framleiðslu og atvinnustarfsemi í landinu til lengri tíma litið.``
    Ég beini því spurningu minni til hæstv. samgrh. Nú vita flestir að bættar samgöngur eru undirstaða margra þátta í atvinnulífi og sérstaklega í dreifbýli. Þar var samþykktur niðurskurður á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár í vegamálum. Ég spyr því hæstv. samgrh.: Er fyrirhugað að auka framlög til vegagerðar t.d. með lántökum til að bæta atvinnuástandið í landinu?