Vaxtalækkun með handafli

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:13:00 (5894)



     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég held reyndar að þessi orð sem höfð voru eftir hæstv. fjmrh. hafi verið slitin úr samhengi og þau hafi verið leiðrétt, en ég ætla ekki að fjalla neitt nánar um þau. Hins vegar sagði ég margoft, og það er rétt hjá hv. þm., að það væri forsenda þess að við gætum horft fram á það að menn gengju til móts við kröfur aðila vinnumarkaðarins um lækkun á vaxtastigi að samningar á vinnumarkaði röskuðu ekki þeim forsendum sem við teljum vera nauðsynlegar fyrir lækkun vaxtastigs. Þær forsendur eru kunnar. Að draga úr halla á ríkissjóði eins og við höfum verið að vinna að, minnka lánsfjáreftirspurn ríkissjóðs eins og við höfum verið að vinna að og jafnframt að verðbólgan æddi ekki af stað vegna þess að menn höfðu gengið til samninga sem væru ekki forsendur fyrir.
    Ég tel að ekkert af þessu hafi gerst og því í raun hafi þessi skilyrði verið fyrir hendi til þess að vextir mættu lækka, það mætti skrá vexti lægri, það væri í samræmi við markaðsniðurstöðurnar. Í rauninni er þetta því ekki handafl heldur er hér um það að ræða að vextir eru færðir til samræmis við þær niðurstöður sem hafa orðið um þróun efnahagsmála. Þróun efnahagsmála hefur verið mjög í samræmi við óskir og forsendur ríkisstjórnarinnar.