Þátttaka Íslands í Ólympíuskákmótinu

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:19:14 (5897)

     Svavar Gestsson :

    Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. en í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 2. maí sl. var greint frá því að vegna fjárhagsörðugleika væri óljóst hvort Skáksamband Íslands gæti tryggt þátttöku í Ólympíuskákmótinu sem á að fara fram á þessu ári. Í fréttinni kemur fram að kostnaðurinn sé um 2 millj. kr. við þátttöku í Ólympíuskákmótinu og Skáksambandið hafi nurlað saman u.þ.b. 1 millj. kr. og það þurfi u.þ.b. 1 millj. kr. í viðbót til að tryggja Íslendingum þátttöku í Ólympíuskákmótinu.
    Íslendingar hafa tekið þátt í Ólympíuskákmótum að mig minnir frá 1952. Þannig er að þessi Ólympíuskákmót hafa að öllu eða verulegu leyti verið fjármögnuð af ríkinu með beinum fjárframlögum, í raun og veru fram hjá sérstökum framlögum til Skáksambandsins og auk þess var það lengst af þannig þangað til núna líklega að þessir fjármunir hafa verið ákveðnir eftir á og teknir inn á fjáraukalög hverju sinni. Þess vegna er það sem Skáksambandið hefur ekki verið undir það búið að taka á þessu máli nægilega snemma og ég veit ekki hvort málið kom til kasta fjárln. þegar fjárlög fyrir 1992 voru afgreidd, ég þekki það ekki. En hér er um litla upphæð að ræða sem vantar upp á eða um það bil 1 millj. kr. og ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann eða ríkisstjórnin hafi ákveðið að gera ráðstafanir til að tryggja að Íslendingar geti tekið þátt í Ólympíuskákmótinu svo sem verið hefur sl. 40 ár.