Hagsmunir íslensks landbúnaðar og EES-samningurinn

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:27:12 (5901)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki þennan texta við höndina sem hv. þm. las upp. Hefði það verið nærgætnislegt af honum að gera mér viðvart svo að ég gæti borið þennan texta saman, en spurning hans vék ekki að hinu heldur hvort ég teldi að hagsmunir landbúnaðarins væru nægilega tryggðir með samningsgerðinni. Um þetta er það að segja að þegar núv. ríkisstjórn kom að völdum höfðu vinnubrögð verið með þeim hætti að fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið að eiga ekki fulltrúa á þeim fundum þar sem málefni landbúnaðarins voru rædd. Af þessum sökum var ekki hægt að koma við neinum fyrirvörum af hálfu okkar Íslendinga um einstök atriði þar sem við sóttum ekki fundi og tókum ekki þátt í málefnaundirbúningi.
    Hins vegar gerðist það á sl. sumri að ég skrifaði hæstv utanrrh. bréf um þá stefnu sem ríkisstjórnin fylgir í landbúnaðarmálum og hv. þm. eru kunnug og okkur tókst að ná fram þeim atriðum sem við teljum þýðingarmest í sambandi við stöðu íslensks landbúnaðar í hinu Evrópska efnahagssvæði og í samningunum við Evrópubandalagið.
    Nú er að störfum sérstök nefnd með fulltrúum frá landbrn., iðnrn. og fjmrn. til að vinna að undirbúningi þess að lögð verði á jöfnunargjöld í sambandi við innflutning á landbúnaðarvörum og um þessi mál öll hefur verið haft náið samráð við bændasamtökin og aðra sem málið varðar. Það hefur jafnframt verið tekin ákvörðun um að sérstök athugun verði gerð á því hvernig skattlagningu og styrkjum til landbúnaðar er háttað í nágrannalöndum okkar, bæði innan Evrópubandalagsins og á Norðurlöndunum, í EFTA-löndunum, þannig að við höfum sem fyllstan samanburð á því hver sé rekstrargrundvöllur landbúnaðarframleiðslu hér á landi og erlendis.
    Ég vil líka geta þess að undirbúningsvinnu í sambandi við hugsanlega aðild okkar að GATT er lokið og hefur verið unnið mjög gott verk í því sambandi.