Samkeppnislög

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 16:22:00 (5913)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er að vonum að menn velti fyrir sér að leggja fram frv. um samkeppnishömlur og bann við hringamyndun í ljósi þeirra aðstæðna sem eru í þjóðfélaginu og hafa verið undanfarin ár, en hafa kannski hvað skýrast komið fram á síðustu missirum. Þar á ég við þau miklu tök sem Eimskipafélag Íslands hefur á íslensku þjóðfélagi, á flutningastarfsemi á sjó, á að flutningum í lofti og á landi og ég minni á að Eimskipafélag Íslands sem auk þess að vera stærsti flutningaaðili landsins með vörur til landsins og innan lands er einn af stærstu hluthöfum í stóru flutningafyrirtæki á landi milli Reykjavíkur og Akureyrar, auk þess að vera stór hluthafi í Flugleiðum sem hefur yfirburðastöðu á flugmarkaðnum, bæði innan lands og erlendis. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig frv. hans kemur til með að taka á þessu ástandi eða er því einungis ætlað að grípa inn í aðstæður sem kunna að koma til í framtíðinni er miðast við að núverandi ástand verði óbreytt í þjóðfélaginu? Er ekki nauðsynlegt að í frv. verði a.m.k. viðleitni til þess að brjóta upp þennan einokunarhring?