Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 21:53:02 (5929)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Margir stjórnarandstæðingar sem hafa talað á undan mér hafa hrósað hæstv. menntmrh. fyrir setu hans hér og þátttöku í umræðum um frv. sem liggur fyrir um Lánasjóð ísl. námsmanna og málefnalega þátttöku í þeirri umræðu. Ég er afskaplega lítið fyrir það að hrósa mönnum fyrir vond mál. Frv. sem liggur fyrir er vont mál og þó að menn sem bera fram svo vont mál taki málefnalegan þátt í umræðum get ég tæpast verið að hrósa þeim fyrir það. Málið er jafnslæmt eftir sem áður.
    Ég hef líka litla trú á því að þessi ríkisstjórn sem ber þetta fram, þó að það sé menntmrh. og málið sé á hans málasviði og á hans nafni, taki mjög miklum rökum. Ég hef ekki orðið vör við það í þeirri umræðu sem við höfum farið í gegnum á Alþingi í vetur að hún taki sérstaklega miklum rökum þegar að niðurskurðaráformunum kemur. Hún er einfaldlega í niðurskurðarham og það er sama hvort við komum þar að heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu. Boðorð dagsins er að skera niður.
    Auðvitað leggur þessi ríkisstjórn fram frv. með fallegum markmiðssetningum eins og þeim að tryggja jafnrétti til náms en markmiðið er auðvitað fyrst og síðast að ná fram niðurskurði í lánakerfinu, að ná sparnaði í ríkisútgjöldunum. Það vitum við. Námsmenn hafa sannarlega sýnt þessari ríkisstjórn og þessum ráðherra mikið langlundargeð og gert allt það sem þeir geta til að koma vinsamlegum ábendingum og óskum og bænarskjölum á framfæri við ráðherrann og ríkisstjórnina. Ég er helst farin að hallast að því að þessi ríkisstjórn skilji ekki vinsemd eða hvað í henni felst.
    Þó að ég sé kannski ekki mjög bjartsýn á framtíð þessa máls í meðförum þingsins getur maður ekki neitað því að þetta mál hefur heldur batnað í meðförum menntmn. Það má kannski segja að það sé kominn einhvers konar bræðingur milli krata og sjálfstæðismanna út úr þeim brtt. sem menntmn. hefur soðið saman og leggur fram. Þessar brtt. eru vissulega flestar til bóta en þær gera ekki málið þar með gott. Þetta frv. verður ekki þar með gott, síður en svo. Málflutningur manna úr stjórnarliðinu, ekki síst formanns menntmn. og ráðherra, sýnist mér og heyrist ekki vera neinu betri en hann var fyrir áramót. Hann er ósköp svipaður. Mér finnst sá málflutningur hafa verið bæði villandi og þröngsýnn og að þessir aðilar reyni að bæta sinn málstað með villandi upplýsingum oft og tíðum. Hvaðan þröngsýnin er komin veit ég ekki. Hún getur verið meðfædd eða fengin úr Sjálfstfl.
    Ég verð hins vegar að segja að ég sakna þess dálítið í þessari umræðu að hér situr t.d. ekki formaður menntmn. Ég hafði hugsað mér að eiga kannski við hana nokkur orð og taka á ýmsu sem kom fram í hennar máli á sínum tíma. Satt að segja eru hér afskaplega fáir fulltrúar úr menntmn. þingsins og vekur það athygli mína. Ég held að það sé ekki einn einasti stjórnarliði úr menntmn. ef ég þekki þá fulltrúa. Mér sýnist ekki einn einasti þeirra vera í þingsalnum og finnst mér að þeir hefðu vel getað eytt þessu kvöldi í að hlusta á okkur stjórnarandstæðinga tala um þetta mál. Fyrst við viljum standa hér og tala um það ætti einhver að vera hér til að hlusta. --- En ég sé að formaður menntmn. er kominn og ég fagna því.
    Í málflutningi bæði ráðherra og formanns menntmn. kemur fram viss sjálfsblekking og hún felst m.a. í því að þau leggja bæði á það ríka áherslu í sínum málflutningi að þau séu að leysa vanda sjóðsins með tillögum sínum. Í ræðu formanns menntmn. kom m.a. fram að það væri verið að gera tilraun núna til þess að leysa vanda sjóðsins, eins og hún sagði, á raunhæfan máta. Það hefði ekki verið reynt fyrr en nú, þetta væri í fyrsta skipti sem það væri reynt. Hingað til hefðu menn velt vanda sjóðsins á undan sér árum saman án þess að gera nokkra tilraun til að leysa hann.
    Það er út af fyrir sig rétt að menn hafa velt vandanum á undan sér á undanförnum árum og það sýna miklar lántökur sjóðsins að ekki hefur verið tekið á þessu máli. En lausnir stjórnarflokkanna núna eru hins vegar hvorki raunhæfar né réttlátar. Með þessum ,,lausnum`` sem birtast í frv. --- og ég verð að setja lausnir innan gæsalappa --- er vandanum hreinlega velt yfir á námsmenn framtíðarinnar. Það er það sem verið er að gera. Í rauninni má segja að það þyrfti að taka hluta af skuldabyrði lánasjóðsins og afskrifa hreinlega. Ríkisvaldið þyrfti að yfirtaka hluta af skuldabyrði lánasjóðsins og leggja á skattgreiðendur alla því að við eigum öll saman sök á þessum vanda sem sjóðurinn á við að glíma. Við ættum öll að leysa hann í sameiningu en ekki bara námsmenn framtíðarinnar. Lausnin sem boðið er upp á er hvorki raunhæf né réttlát.
    Í öðru lagi kemur fram sú sjálfsblekking í máli þeirra beggja að lánasjóðurinn muni í framtíðinni veita hagstæð lán. Það kemur fram í ræðu formanns menntmn. að Lánasjóður ísl. námsmanna muni áfram auðvelda ungu fólki að afla sér menntunar með því að veita hagstæð lán og þá hlýtur maður að spyrja: Hagstæð lán --- miðað við hvað? Svo sannarlega eru þetta ekki hagstæð lán miðað við það sem við, sem sitjum í sal Alþingis og höfum sótt í þennan sjóð, höfum átt kost á. Þetta eru miklu óhagstæðari lán en við höfum fengið mörg hver hér inni. Það á auðvitað ekki við um alla, það hafa ekki allir tekið námslán en það eru ábyggilega margir hér sem hafa gert það og fengið hagstæðari lán en verða í boði eftirleiðis.
    Það kemur reyndar fram í máli þeirra beggja líka, eða það má skilja það af máli þeirra, að með breytingunum sem þau standa fyrir eða hyggjast standa fyrir á lánasjóðnum sé verið að koma inn einhvers konar hvata sem sé ætlaður þeim sem ganga á það lag, getum við sagt, að taka há lán úr lánasjóðnum þegar ákveðnu hámarki er náð, þegar upp í þak er komið. Við vitum það að þegar sett er þak á endurgreiðsluhlutfallið er það þannig að ef námsmenn eru komnir upp í mjög hátt námslán þá breytir ekki miklu þótt þeir bæti á það því þeir ná ekki að greiða lánið upp á þessum tiltekna árafjölda vegna þess að það er þak á endurgreiðslunni. Hins vegar er alveg ljóst líka af ræðu formanns menntmn., þótt hún virðist ekki gera sér það ljóst í málflutningi sínum, að það eru afskaplega fáir námsmenn sem ganga á þetta lag.
    Í ræðu hennar kemur fram annars staðar að 60% námsmanna skuldi innan við 1 millj. kr. Það kemur líka fram hér að aðeins um 1% lántakenda skuldar 5 millj. kr. eða meira. Samt sem áður tekur hún dæmi af einstaklingum sem skulda lánasjóðnum 12--14 millj. kr. Það má sjálfsagt telja þessa einstaklinga á fingrum annarrar handar. Hvers vegna skyldi þorri námsmanna, þúsundir námsmanna, þurfa að blæða fyrir þá sem hugsanlega ganga á það lag að taka meiri námslán en þeir komast kannski af með fyrir utan það að í þessu sambandi er rétt að hafa það í huga að úthlutunarreglur lánasjóðsins takmarka auðvitað möguleika fólks á að fá námslán. Þær setja því ákveðnar reglur. Í þessum hópi námsmanna sem skulda 12--14 millj., og sem kannski má telja á fingrum annarrar handar, reikna ég með að um sé að ræða námsmenn sem hafa farið í dýrt nám, þurft að borga há skólagjöld, eins og gerist í Bandaríkjunum og Bretlandi, ( Gripið fram í: Flugmenn.) t.d. flugmenn er mér bent á hér. En eins og ég segi, þetta eru örugglega örfáir einstaklingar og engan veginn réttlætanlegt að námsmenn almennt þurfi að blæða fyrir það. Það er þá nær að taka á þessu máli í gegnum úthlutunarreglur sjóðsins og með öðrum hætti en að breyta hér lögum.
    Þar fyrir utan er rétt að geta þess að það er ekki hægt að sjá að frv. taki í rauninni á þessu nema

síður sé. Vextirnir virka í raun gegn þessu markmiði. Við sjáum það á þeim útreikningum sem við höfum fengið upp í hendur að fólk er mörg ár og jafnvel áratugi að greiða froðuna sem vextirnir mynda en nálgast ekki höfuðstólinn á þessum endurgreiðslutíma fyrr en þeir komast á eftirlaunaaldur. Ef frv. verður að veruleika og ef við gefum okkur það að námsmaður sé með þunga framfærslubyrði, þurfi að taka hátt námslán, þá skiptir það kannski ekki miklu máli þó að hann bæti á það vegna þess að eftir sem áður er ákveðið þak á endurgreiðslunni. Það er þakið á endurgreiðslunni sem gerir það að verkum að námsmenn, sem eru búnir að taka mjög hátt lán, freistast til þess að bæta á það. Það breytist ekki í þessu frv. þótt þakið sé hærra.
    Ég talaði í upphafi míns máls um villandi málflutning og þessi villandi málflutningur hefur m.a. komið fram í því að það er verið að halda því fram að námsmenn gangi á það lag að taka mun hærri lán en þeir þurfa á að halda og það séu dæmi um einstaklinga sem skuldi 12--14 millj. kr. en við sjáum að þeir eru mjög fáir. Það er almennt villandi að tala í sífellu um misnotkun námsmanna á Lánasjóði ísl. námsmanna. Með því að tala með þeim hætti er verið að ala á ríg og fordómum í garð námsmanna og það skýtur nokkuð skökku við að sá stjórnmálaflokkur sem leggur mikla áherslu á kjörorðið stétt með stétt skuli standa þannig að sínum málflutningi.
    Eitt af því sem hefur verið notað gegn námsmönnum eru þessi svonefndu ofgreiddu lán sem talað er um að numið hafi um 55--60 millj. kr. á skólaárinu 1990--1991 og talað er um að um 500 námsmenn hafi fengið þessi ofgreiddu lán. Nú á að koma í veg fyrir þessa misnotkun með þeirri ákvörðun að greiða ekki lánin út fyrr en eftir að árangri hefur verið skilað. Það er talað um í ræðu formanns menntmn. að með þessu megi koma í veg fyrir misnotkun á fjármunum og það eru þessar 55--60 millj. kr.
    Hér hafa menn rakið það að stærstur hluti þessara fjármuna, sem talað er um misnotkun á, skili sér. Þeir skila sér árið eftir og aðeins um 8 millj. hafa staðið út af um áramót ári síðar. Það nær engri átt að nota þessa tölu til þess að réttlæta niðurskurð um 800--900 millj. kr. og í raun lokun á lánasjóðnum í haust eins og hv. 9. þm. Reykv. benti réttilega á áðan. Þau rök, sem notuð eru af hv. formanni menntmn., eru að það þurfi að koma í veg fyrir að námsmenn lendi í fjárhagsvandræðum vegna ofgreiddra lána. Með öðrum orðum að þeir fái greidd út lán, þeir nái síðan ekki tilskildum námsárangri og verði þá að endurgreiða þessi lán og lendi í fjárhagsvandræðum eins og formaður menntmn. segir. Mér finnst það dálítið einkennileg forræðishyggja hjá sjálfstæðismönnum að þeir skuli þurfa að hafa vit fyrir fólki með þessum hætti. Að auki er þetta markleysa vegna þess að þessir námsmenn lenda væntanlega í staðinn í vandræðum með bankalán. Hver er munurinn á því? Fari þetta fólk í nám, fari síðan í banka og fái lán til að fjármagna námið þar til prófum hefur verið lokið, standist síðan ekki prófið, þá þarf að borga bankalánin á bankavöxtum. Þessir námsmenn lenda ekkert síður í fjárhagsvandræðum en þeir gera í dag í gegnum lánasjóðinn nema síður sé.
    Það er ekki með nokkru móti hægt að réttlæta það að nota þessar 55--60 millj. kr., sem skila sér allar nánast eftir á, til þess að allur sá fjöldi, sem sinnir sínu námi og stenst öll sín próf, sé skilinn eftir á köldum klaka og þurfi að fjármagna nám sitt með bankalánum og háum vöxtum. Og það eru einmitt þessi lán sem gera það að verkum að í raun verða háir vextir af námslánum allan námstímann. Námslán verða ekkert vaxtalaus á námstímanum eins og hér hefur verið predikað af forsvarsmönnum frv. Það verða háir vextir á námslánum á námstíma.
    Í ræðu þann 27. apríl sl. furðaði ráðherra sig á þeim rökstuðningi minni hluta menntmn. fyrir dagskrártillögu sinni að gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna hafi í aðalatriðum reynst vel. Hann furðaði sig á þessu og hélt því fram hér að lögin hefðu í rauninni brugðist. Mér finnst þessi málflutningur hæstv. menntmrh., sem hefur setið lengi á Alþingi og ætti að hafa fylgst nokkuð vel með málum úti í þjóðfélaginu, dálítið sérkennilegur.
    Í rauninni má segja að námslánakerfið sem komst á á áttunda áratugnum hafi gjörbylt aðstöðu ungs fólks til náms og ekki síst gjörbylt aðstöðu kvenna til að fara í nám. Ég held að það sé engin tilviljun að konur eru núna í meiri hluta við Háskóla Íslands. Þetta er gjörbylting bara frá árinu 1975 og það er lánasjóðurinn sem hefur gert þessum konum kleift að fara í nám. Því miður verður hins vegar að játa það að aukin menntun kvenna hefur ekki skilað þeim hærri launum en hún hefur skilað þeim auknu sjálfstrausti og auknum möguleikum. Það er ekki svo lítils virði og á án efa eftir að skila okkur miklum árangri, bæði íslenskum konum og íslensku þjóðfélagi á komandi árum.
    Aðrir hafa talað um það í ræðustól í dag að verði námslánakerfinu breytt muni það hugsanlega breyta fjölskyldumynstri og lífsmynstri ungra menntamanna eða námsmanna í dag. Það hefur verið dálítið sérstakt við íslenska námsmenn að þeir hafa, ef svo má að orði komast, getað sinnt barneignum samhliða námi og það er lánasjóðurinn og hið félagslega tillit sem hann hefur veitt sem hefur gert þeim þetta mögulegt. Þetta hefur stundum verið gagnrýnt og sagt að ungt fólk vilji gera allt í einu, það vilji eignast börn, það vilji stunda nám, það vilji kaupa íbúðir o.s.frv. En ég held að þetta hafi skipt íslenskt þjóðfélag mjög miklu máli að námsmenn hafi getað leyft sér þann ,,munað`` að eignast börn.
    Við þekkjum það í löndunum í kringum okkur, við þurfum ekki að fara nema til Danmerkur og Þýskalands, að til skamms tíma hefur ungt fólk, námsfólk og menntafólk, ekki eignast börn á meðan það er að sinna námi og það er algengast að fólk eigi eitt til tvö börn. Um daginn birtist grein, ég held að það hafi verið í Politiken, um þá mótsögn hjá ríkjum Evrópubandalagsins að á sama tíma og þau eru að reyna

að loka að sér gagnvart ríkjum sem standa utan Evrópubandalagsins er það engu að síður staðreynd að í framtíðinni verða þessi ríki að treysta á erlent vinnuafl. Því að þjóðirnar sem byggja Evrópubandalagið ná ekki að halda sér við. Þær ná ekki að framleiða það vinnuafl fyrir framtíðina sem þær þurfa á að halda. Þótt þær séu að reyna að loka að sér gagnvart þriðju ríkjum þá verða þær í rauninni að flytja inn vinnuafl frá þriðju ríkjum vegna þess að þær geta ekki séð sér fyrir því sjálfar. Þetta er mótsögnin sem þessi ríki standa andspænis. Og ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki mótsögn sem við Íslendingar þurfum að standa andspænis líka, að okkur takist að halda okkur sjálfum við.
    Þegar hæstv. ráðherra talar um að lögin hafi brugðist þá er það ekki rétt. Það er í rauninni framkvæmdar- og fjárveitingavaldið sem hefur brugðist og sem hefur ekki tekið á málum með þeim hætti sem lögin gerðu ráð fyrir og sem gefin voru vilyrði um þegar lögin voru sett á sínum tíma, m.a. voru námsmönnum gefin vilyrði um að þannig yrði að verki staðið að ríkið mundi setja nægilegt fjármagn í lánasjóðinn.
    Mér finnst ekki ósennilegt og ekki sérkennilegt í rauninni þótt námsmenn í dag gagnrýni þá kynslóð sem ræður mestu í þjóðfélaginu og ræður mestu á Alþingi, þá kynslóð sem ólst upp við hugarfar stríðsgróðans, hugarfar hins stöðuga vaxtar og sem kemur núna, eftir að hafa trúað á þetta fyrir sjálfa sig og eftir að hafa notið góðs af því fyrir sjálfa sig, og lokar dyrum og slær á fingur hjá þeirri kynslóð sem við á að taka. Það er þess vegna sem ég segi að það þyrfti í raun að afskrifa hluta af skuldum lánasjóðsins. Ríkið þyrfti að taka þær yfir og leggja þær byrðar hreinlega á skattgreiðendur alla því að stór hluti af þeirri kynslóð sem ólst upp við hugarfar stríðsgróðans, fæddist á stríðsárunum og ólst upp í kjölfar þess, hefur lifað um efni fram. Það er hún sem hefur lifað um efni fram og hún verður að taka á sig hluta af ábyrgðinni og sinn skerf af byrðunum.
    Ráðherra furðaði sig á ýmsum tillögum sem minni hluti menntmn. stendur fyrir. Hann furðaði sig m.a. á hinni mjög svo, eins og hann sagði, undarlegu tillögu til rökstuddrar dagskrár sem minni hluti menntmn. stendur fyrir. Hann sagði að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntmn. skulduðu þinginu skýringu á því hvernig þeir ætluðu að tryggja jafnrétti til náms ef þessi tillaga þeirra yrði samþykkt. Þeir yrðu að útskýra það vegna þess að fjárframlög frá Alþingi væru ekki nægjanleg til að halda lögunum óbreyttum. Mér finnst þetta fráleitur málflutningur af hálfu menntmrh. Stjórnarandstaðan getur hvorki borið ábyrgð á fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar né námsmannafrv. hennar. Á því verður ríkisstjórnin sjálf að bera ábyrgð. Í rauninni er eina vitlega ráðið til að bregðast við þeim vanda sem við blasir hjá ríkisstjórninni í ríkisfjármálum og í velferðarkerfinu að láta þessa ríkisstjórn fara frá. Það væri varanleg lausn á þeirri vá sem er fyrir dyrum í íslensku samfélagi og að því hlýtur auðvitað stjórnarandstaðan að vinna. Hún getur ekki tekið tillit til eða borið ábyrgð á því sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir.
    Annað sem virtist fara nokkuð fyrir brjóstið á hæstv. menntmrh., og hann talaði um að sér sýndist einkennilegt og í raun ótrúlegt, er að minni hluti menntmn. skyldi leggja það til að endurgreiðslur af námslánum færu fram á grundvelli reglna sem giltu á þeim tíma sem námsmaður undirritaði einstök skuldabréf. Þarna er menntmrh. að vísa til tillögu við 7. gr. sem minni hluti menntmn. leggur til en þar segir:
    ,,Endurgreiðslur fara fram á grundvelli reglna sem giltu á þeim tíma er námsmaður undirritaði einstök skuldabréf.``
    Ég skil ekki af hverju menntmrh. furðar sig á þessu. Það er einhver rökvilla í hans málflutningi vegna þess að hann segir að það hljóti að vera um mistök að ræða hjá minni hluta menntmn. og síðan segir hann: ,,Ég sé ekki betur en að þetta geti falið í sér aukna greiðslubyrði skuldara á við það sem er, samkvæmt því sem gert er ráð fyrir í frv.`` Hann segir með öðrum orðum að það feli í sér aukna skuldabyrði ef endurgreiðslur fara fram á grundvelli reglna sem giltu þegar námsmaðurinn undirritaði einstök skuldabréf. Ég held að bitur reynsla allra húskaupenda á undangengnum árum sýni að þessu er einmitt þveröfugt farið. Hversu margir hafa ekki tekið lífeyrissjóðslán á tiltölulega þokkalegum vöxtum, reiknað út að þeir gætu staðið við þessi lán og greitt af þeim eins og þeim bæri í 20--25 ár eftir því til hvað langs tíma þau hafa verið tekin? En hvað hefur ekki gerst á því tímabili? Vextir hafa verið hækkaðir. Öll plön sem fólk gerði hafa breyst og grunninum hefur verið kippt undan greiðsluáætlunum fólks. Þetta er reynsla okkar. Og þetta verður án efa reynsla þeirra námsmanna sem taka, við skulum segja þeirra námsmanna sem taka nú --- ef þetta frv. verður að veruleika --- námslán á 1% vöxtum fyrsta árið, kannski annað árið líka og það þriðja. Á fjórða ári verður búið að hækka vextina upp í 3% en mér segir svo hugur að það gerist áður en langt um líður. Hvað gerist þegar námsmaðurinn ætlar að sameina sín lán á einu skuldabréfi fjórða námsárið? Þau fara öll á 3% vexti, líka námslánið sem hann tók þó á 1% vöxtum á fyrsta námsári. Það verður sett á 3% vexti á hinu sameinaða skuldabréfi í lok náms. Það er trygging fyrir námsmenn, mikilvæg trygging, að það skuldabréf haldi sem þeir skrifa undir, ef þetta frv. verður að veruleika, og sem er með 1% vöxtum. Þessi ríkisstjórn eða sá þingmeirihluti sem hefur hug á að setja það hér inn að vextir skuli aldrei vera hærri en 3% gefur ríkisvaldinu möguleika á því að hækka þá hvenær sem því býður svo við að horfa þó svo það ákveði að hafa þá 1% núna. Það er mjög mikilvægt að námsmenn sem taka þessi námslán á 1% vöxtum, hugsanlega á fyrsta ári, eigi einhverja tryggingu fyrir því að við námslokin verði þeir ekki 3%. Þetta er einmitt mjög mikilvægt. Ég ætla að beina þeim tilmælum til stjórnarliða hér, þó ég hafi sagt það áðan að ég héldi að þeir skildu ekki orðið vinsemd, að þeir taki þetta til skoðunar, að námsmenn geti treyst því að þeir greiði lánin miðað við það skuldabréf sem þeir undirrita.

    Í þessu sambandi vil ég líka benda á að það er mikilvægt að námsmenn fái að hafa lánin sín á mörgum skuldabréfum en þurfi ekki að sameina þau í eitt í lok náms. Ég og fleiri bentum á það við 1. umr. um málið að það gæti reynst þeim mjög erfitt í námslok að fá sjálfskuldarábyrgðarmenn, einn eða tvo, upp á milljón eða eina og hálfa milljón þegar búið er að sameina þetta allt saman á eitt skuldabréf. Það er ekki skemmtilegt fyrir námsmann að fara með skuldabréf af þeirri upphæð og biðja um sjálfskuldarábyrgðarmann. Við skulum athuga að ekki er víst að allir geti fengið foreldra sína á slíkt bréf. Hverja fá þeir ef þeir fá ekki foreldra sína? Ég er hrædd um að það muni reynast einhverjum erfitt að fá sjálfskuldarábyrgðarmenn á slíkt lán.
    Um þetta frv. sem hér liggur fyrir er ekki hægt að segja neitt annað en að þetta er vont frv. Og frv. er jafnmikið óheillaspor fyrir íslenskt menntakerfi og námslánakerfið var mikið heillaspor þegar því var komið á á sínum tíma. Með frv., verði það að lögum, sem ég vona sannarlega að gerist ekki, er verið að herða að ungu fólki. Það er verið að herða að ungu fólki í samfélaginu á öllum vígstöðvum. Það er verið að herða að því í námi og í námslánum, það er verið að herða að því á vinnumarkaði, það er verið að herða að því í húsnæðismálum, það er verið að herða að fólki í fjölskyldumálum og það er sama hvert litið er. Námslánin eru takmörkuð, það er erfiðara að fá vinnu en áður. Atvinnuleysi meðal ungs fólks og líka menntafólks er meira en áður var. Húsnæðislánin eru dýrari og menn hafa verið að skera niður barnabæturnar. Sú mynd sem blasir við ungu fólki í dag er allt önnur en hún var fyrir tíu árum. Og því miður finnst mér ég hafa orðið vör við að það er vonleysi hjá ungu fólki. Það veit ekki hvað tekur við, jafnvel þótt það mennti sig er það alls ekki visst með að fá nokkra vinnu. En það þarf að borga þessi námslán sín engu að síður, þessa fjárfestingu einstaklingsins þarf að borga upp með vöxtum. Og það hefur komið fram hér að námslánin ein geri það að verkum að það verður erfiðara um vik á húsnæðismarkaðnum. Þetta fólk á minni möguleika í húsbréfakerfinu en hinir sem engin námslán skulda. Það er því sama hvert litið er, það er verið að herða að ungu fólki. Eins og ég sagði áðan eru þeir sem að þessu standa sjálfir sloppnir fyrir horn. Þeir hafa lifað sjálfir í landi tækifæranna og neytt duglega af því nægtaborði sem hefur verið í íslensku samfélagi á undanförnum árum og áratugum.
    Ég hef stundum rekið mig á það, ekki bara núna heldur líka þegar ég var námsmaður á sínum tíma, að oft og tíðum var það fólk sem hafði mest á milli handanna sem hafði námsmenn grunaða um græsku, sem talaði um ,,steríógræjurnar`` sem námsmennirnir væru að kaupa sér eða bílana sem námsmennirnir ækju um á. Um þetta er kannski ekki annað að segja en það að margur heldur mig sig. Það er að mörgu leyti gott að vera námsmaður og hefur alltaf verið það held ég. Það er líf sem er áhyggjulausara að því leytinu til að menn eru ekki bundnir á neinn klafa. Þetta er millibilsástand sem menn hafa til að hugsa sinn gang, til að meta framtíðina, til að meta hvað þeir vilja gera og hvernig þeir vilja lifa sínu lífi og þetta er mjög mikilvægt tímabil, held ég, í lífi allra.
    Ég hef hins vegar aldrei orðið vör við að námsmenn eignuðust mikið. Það gerðist ekki fyrir fimmtán árum og það gerist heldur ekki í dag. Það kemur enginn klyfjaður eignum út úr námi, það hefur aldrei gerst. Hins vegar hafa alltaf verið til, bæði meðal námsmanna og annarra, einstaklingar sem reyna að misnota kerfið, reyna það sem þeir geta, reyna að komast eins langt og þeir geta. Þeir voru til fyrir 15 árum, 20 árum og 25 árum og þeir eru enn til. En að ætla sér að breyta námslánakerfinu með tilvísun til þessara einstaklinga sem eru tiltölulega fáir nær ekki nokkurri átt. En menn hafa bent á það í dag að alvara málsins er mikil og hún sést kannski best á því að ekki verður greitt úr út lánasjóðnum í haust ef að líkum lætur.
    Ég skal játa það að ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því þegar ég fór að skoða þetta mál við 2. umr. að málið stæði þannig að ekki yrðu greidd út námslán úr lánasjóðnum í haust. En því hefur verið haldið fram í dag. Ég vænti þess að ráðherra beri það til baka ef það er ekki rétt því þeir námsmenn sem sækja munu um lán í haust geta ekki skilað árangri fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Það segir manni þá væntanlega að námslán verða ekki greidd út fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót. Sé þetta ekki rétt vænti ég þess að ráðherra leiðrétti það og útskýri hvernig greiðslum úr lánasjóðnum verður háttað nú í haust.