Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:18:22 (5974)



     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans um sérfræðingana sem ég skil að muni fá lán eins og þeir eiga rétt á ef tekjur duga ekki fyrir framfærslu. En ég spurði hæstv. menntmrh. einnig að því hvað orðið ,,að jafnaði`` í fyrstu setningu 6. gr. frv. þýðir, að námsmenn eigi að jafnaði rétt á láni. Hvað þýðir það?
    Ég spurði einnig að því hve há sú upphæð væri sem ríkisstjórnin sparaði sér í útlánum í haust. Mér var að sjálfsögðu ljóst að útlánin yrðu minni. Eru það 800 millj. kr. eins og hér hefur komið fram eða er það einhver önnur upphæð? Ég spurði reyndar einnig að því hvort tekið hefði verið tillit til þess í fjárlagagerðinni og hvort það væri þegar komið þar inn.
    Í sambandi við vextina, þá hefur hæstv. ráðherra sagt aftur og aftur að vextir hækki ekki í tíð sinni nema verðbólga fari af stað. Á hann þá við verðbótaþátt vaxtanna eða á hann við það að raunvextirnir ofan á verðbótaþáttinn hækki? Að sjálfsögðu hækkar sá hluti vaxtanna sem er verðtryggður, verðbótaþátturinn. En á hann við viðbót ofan á það?