Sumarlokun á legudeild barna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:49:05 (5989)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég mundi vilja fara fram á það við hæstv. umhvrh. að hann léti stjórn Ríkisspítalanna vita hvað niðurstöður kjarasamninganna þýða. Stjórn Ríkisspítalanna hefur ekki fengið neinar formlegar upplýsingar um það hversu miklar upphæðir eiga að verða t.d. til þess að halda opnum öldrunarlækningadeildum. Hún hefur engar upplýsingar um það hvaða fjármunir eiga að fara til þess að halda opinni legudeild barna þannig að einu upplýsingar sem stjórnarnefnd Ríkisspítalanna hefur til þessa fengið í þessum efnum er miðlunartillaga sáttasemjara sem hefur verið birt í heild í einu dagblaðanna. Þar fyrir utan hefur stjórnarnefnd Ríkisspítalanna engar formlegar upplýsingar og ég skora á umhvrh. að beita sér fyrir því að heilbrrh. komi upplýsingum með eðlilegum hætti á framfæri við forstöðumenn Ríkisspítalanna og annarra sjúkrahúsa hér í þessu landi. Þar hefur verið verulegur skortur á eðlilegum umgengnismáta.