Nefnd um framtíðarkönnun

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:12:58 (5998)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur einkum getið sér orð fyrir það að efna til ítarlegra kannana á fortíðinni. Það hefur verið skipuð fortíðarnefnd og ,,fortíðarvandi`` er eftirlætisorð núv. hæstv. ríkisstjórnar. Ég vissi það hins vegar ekki fyrr en núna að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja niður athuganir á framtíðinni. Hún teldi það ástæðulaust að sinna framtíðarverkefnum af nokkru tagi. Ég tel að sú nefnd sem fyrrv. hæstv. forsrh. skipaði og hér var lýst störfum frá hafi skilað mjög ítarlegu og gagnlegu verki. Með öllum siðuðum þjóðum eru til framtíðarstofnanir sem reyna að rýna inn í framtíðina og skoða ýmsa þróunarþætti þar betur en unnt er með einföldum hætti. Þessar stofnanir skila oft mjög góðu verki og eru ríkisstjórnum til ráðuneytis og hjálpar við daglega stjórn. Núv. ríkisstjórn ætlar að hafa fortíðina að leiðarljósi.