Flutningur starfa út á land

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:29:53 (6005)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna svörum hæstv. fjmrh. og tel að þau undirstriki það að nútímatölvutækni og fjarskiptatækni af hvers konar tagi gerir það miklu auðveldara en áður að flytja margs konar störf út á landi sem áður og fyrr var talið nauðsynlegt að væru unnin í Reykjavík.
    Ég tel einmitt að þær upplýsingar sem hæstv. fjmrh. kom fram með sýni að það verkefni að færa verkefni og störf frá Reykjavík og út á land sé auðveldara viðfangs en margir hafa látið í veðri vaka og þess vegna sé okkur í raun og veru ekkert að vanbúnaði að hefjast handa um það í enn meira mæli. Viðleitni fjmrn. til þess að færa verkefni úr ráðuneytinu og út í stofnanirnar og það hversu vel það hefur gengið sýnir okkur það og ætti að vera okkur hvatning til þess að gera enn þá betur. Ég fagna ákvörðun ráðuneytisins í þessum efnum.