Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í heiminum 1970--1990

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:38:00 (6035)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Fsp. þessi er flutt í framhaldi af fsp. sem ég bar upp við hæstv. utanrrh. í liðinni viku. Fsp. varðar skýrslu sem út kom í fyrra og ég var að velta því fyrir mér hvort hún yrði þýdd á íslensku áður en langt um líður.
    Þessi skýrsla fjallar um stöðu kvenna í heiminum á árunum 1970--1990 og í henni er að finna mikilvægar upplýsingar sem eiga brýnt erindi við Íslendinga eins og aðra. Þessa skýrslu bar raunar oft á góma í umfjöllun um stöðu kvenna í heiminum í þeirri nefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um félags-, mannúðar- og menningarmál í október sl. Greinilegt var að margar þjóðir ætluðu að nýta sér upplýsingar, enda skýrslan hafsjór af mikilvægum fróðleik um stöðu kvenna og barna víða um heim.
    Í fyrri ræðu minni vitnaði ég til orða Pérez de Cuellar, fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og tel ekki ástæðu til að endurtaka þau ummæli. Hins vegar væri kannski ástæða til þess að hlaupa yfir efnisyfirlit þessarar bókar til að gefa hugmynd um hvað í henni felst. Þar er fjallað um konur, fjölskyldur og heimilishald, almennt líf og stjórnunarstöður, menntun og þjálfun af ýmsu tagi. Síðan er fjallað um heilsu og barnsburð, húsnæði og umhverfi og vinnu kvenna og fjárhag. Þetta eru allt mjög mikilvægir málaflokkar og mig langar því að bera fram fsp. til hæstv. félmrh.:
    ,,Hefur ráðherra í hyggju að láta þýða á vegum ráðuneytisins skýrslu Sameinuðu þjóðanna ,,The World's Women Trends and Statistics 1970--1990``, sem út kom á síðastliðnu ári og hefur að geyma yfirgripsmiklar upplýsingar um stöðu kvenna í heiminum?``
    Þessa skýrslu telur hæstv. utanrrh. ekki ástæðu til að láta þýða á vegum ráðuneytis síns og þykir mér það mjög miður vegna þess að ýmislegt er nú þýtt á vegum ráðuneytis, ekki síst hans, sem minni fengur er í að mínu mati. En þar sem hann gaf fyrirheit um að það væri mögulegt að spyrja þann ráðherra sem fer með félagsmálefni um þetta sama, ber ég nú fsp. mína upp sem er að finna á þskj. 825.