Lánasjóður íslenskra námsmanna

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 23:03:27 (6122)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svörin sem voru skýr og hann svaraði öllum þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann öðrum en þeim sem lutu að stefnu Sjálfstfl. Það geri ég ekki frekar að umtalsefni en gef mér að sú stefna, sem er í lánasjóðsfrv., sé hin raunverulega stefna flokksins. En ég vil varðandi þau svör sem hann gaf við spurningum mínum benda á 12. gr. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að 2. mgr. væri sett inn til þess að geta mætt þörf á sérstökum hjálparaðerðum gagnvart námsmönnum eða með öðrum orðum til þess að lána þeim sérstaklega þegar þannig stæði á. Ég var búinn að rekja það í ræðu minni og geri það aftur stuttlega að benda hæstv. ráðherra á að 1. mgr. 12. gr. opnar fyrir heimild til að veita mönnum sérstök aukalán. En hún segir líka, þessi sama málsgrein að þau lán, aukalánin, eru með sömu kjörum og almenn námslán þannig að 2. mgr. getur ekki átt við þessi tilvik. ( Menntmrh.: Hún gerir það, því að hún á ekki við þar.) Þá verður ráðherrann að tala skýrar því að ég næ ekki meiningunni út úr hans svari.
    Seinna atriðið varðar tillit til búsetu. Það er út af fyrir sig gott og góðra gjalda vert að fá þá yfirlýsingu að ekki sé ætlunin að breyta frá því sem verið hefur varðandi búsetu. En hvers vegna eru menn þá að breyta lögunum? Hvers vegna er verið að breyta því sem er í lögum yfir í það að vera heimild? Það er ekki nema ein ástæða og hún er sú að menn ætla sér að nota heimildina einhvern tíma þannig að búsetan mun hverfa út með tíð og tíma, virðulegi forseti. Ef ráðherrann meinar það sem hann nákvæmlega sagði þá á hann að breyta frv. til upprunalegs horfs hvað þetta varðar.