Lánasjóður íslenskra námsmanna

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 12:25:00 (6147)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Í 4. mgr. 6. gr. frv. kemur vaxtataka á námslán fyrst fyrir í frv. Hér er því það grundvallaratriði að koma til efnislegrar afgreiðslu í fyrsta sinn.
    Við þingmenn Alþb. erum algjörlega andvígir upptöku vaxta á námslán og teljum

að með þeirri ákvörðun, ekki síður en öðrum sem í þessu frv. felast, sé verið að gera grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi námsmanna í landinu. Það er verið að hverfa frá þeirri grundvallarviðmiðun að námslán séu félagsleg framfærslulán til að tryggja jafnrétti og jafna aðstöðu námsmanna. Þá er og hætta á því að þyngd endurgreiðslna vegna vaxtatöku muni draga úr sókn til menntunar í landinu og þar með sé tekið skref aftur á bak en ekki fram á veginn því flestir eru sammála um að í auknum rannsóknum og menntun felist vegurinn til framfara í landinu.
    Í afstöðu til þessa grundvallaratriðis kemur og mjög skýrt fram ójafnaðar- og afturhaldseðli þessarar ríkisstjórnar, sem og með upptöku hennar á skólagjöldum, niðurskurði í menntakerfinu og mörgum fleiri skemmdarverkum sem unnin hafa verið eða til stendur að vinna á þessu ári.
    Þá má að lokum segja, hæstv. forseti, að í þessu máli fullkomnist nánast niðurlæging Alþfl. og liggur hann nú sem hvert annað úrhrak fyrir fótum manna og dýra. Ég segi já, hæstv. forseti.