Starfsmenntun í atvinnulífinu

137. fundur
Föstudaginn 08. maí 1992, kl. 17:22:00 (6189)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 832 hef ég flutt brtt. við frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu þar sem gert er ráð fyrir breytingu á 3. mgr. 5. gr., að við málsgreinina bætist nýr liður sem hljóðar svo:
    ,,Enn fremur skal starfsmenntaráð hafa formlegt samráð við menntmrn., m.a. til að ráðuneytið geti tekið rökstuddda ákvörðun, sbr. 15. gr.``
    Í 5. gr. frv. er kveðið á um hlutverk starfsmenntaráðs, sjö manna ráðs sem ráðherra skipar til tveggja ára og fer með framkvæmd laga þessara. Einn fulltrúi er skipaður af félmrh. án tilnefningar, þrír fulltrúar eru tilefndir af samtökum atvinnurekenda og tveir frá VSÍ, einn frá Vinnumálasamabandi samvinnufélaganna, þrír fulltrúar eru tilnefndir af Samtökum launafólks, tveir frá ASÍ og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Hlutverk starfsmannaráðs er að úthluta styrkjum til starfsmenntunar og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar samkvæmt lögum þessum. Í starfi sínu skal starfsmenntaráð hafa samráð við og efla frumkvæði fræðslunefnda atvinnulífsins samkvæmt frekari ákvæðum í reglugerð. Síðan geri ég ráð fyrir því að þetta ákvæði bætist við: Enn fremur skal starfsmenntaráð hafa formlegt samráð við menntmrn., m.a. til að ráðuneytið geti tekið rökstudda ákvörðun, sbr. 15. gr.
    15. gr. frv. hljóðar svo:

    ,,Menntmrn. ákveður hvaða nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, skuli metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi.``
    Það er óhjákvæmilegt ef menntmrn. á á annað borð að meta eitthvað af því námi sem styrkt er samkvæmt lögum þessum til námseininga í hinu almenna skólakerfi og þá er væntanlega átt við framhaldsskólakerfið, einingakerfið, að ráðuneytið sé með í ráðum um það hvaða nám það er sem er styrkt.
    Hér er ekki lagt til að það þurfi að leita samþykkis menntmrn. í þessu efni heldur aðeins gert ráð fyrir því að félmrn. eða starfsmenntaráð hafi samráð við menntmrn., formlegt samráð.
    Eins og kunnugt er hafa deilurnar um frv. snúist um það hvort það ætti að heyra undir menntmrn. eða félmrn. Fyrir því eru tiltekin rök sem ég hirði ekki um að endurtaka hér, enda voru brtt. þær sem fluttar voru í þá veru við 2. umr. málsins allar felldar. Hér er hins vegar engu að síður gerð tilraun til þess á lokastigi málsins að kanna hvort Alþingi, félmrh. hæstv. og meiri hluti Alþingis gætu hugsað sér að fallast á þessa litlu lagfæringu á frv. sem gengur í raun og veru bara út á það að tryggja tengslin á milli menntmrn. og starfsmenntaráðs.
    Við 2. umr. á hv. Alþingi var flutt brtt. sem gekk í líka átt en var þó skarpari en þessi tillaga. Þessi tillaga er almennari. Og hún er hugsuð sem tilraun til málamiðlunar. Ég sé ekki í fljótu bragði að það geti verið neitt á móti því að samþykkja þessa tillögu, jafnvel af hálfu þeirra aðila sem staðið hafa að því að semja frv. og hafa verið að ýta á að það yrði að lögum.
    Ég vil því af þessu tilefni leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh., sem hér er stödd, um álit hennar á þessari breytingu. Ég er að sjálfsögðu til viðtals um annað orðalag á brtt., en hugmyndin er sem sagt sú að tryggja að ráðuneyti menntamála geti örugglega tekið það nám sem styrkt er eftir lögunum inn í mat samkvæmt hinu almenna skólakerfi. Ég geri ráð fyrir að ef málin koma ekki að menntmrn. fyrr en að náminu loknu geti verið mjög erfitt fyrir ráðuneytið að meta þessa hluti og þess vegna sé skynsamlegra og heppilegra að fara þá leið, sem hér er gerð tillaga um, að ráðuneytið komi þarna við sögu á undirbúningsstigi þegar starfsmenntaráð er að fjalla um málið og velta því fyrir sér hverjir það eru sem eiga að fá styrki. Hér er engin tillaga gerð um að menntmrn. ráði því hverjir fá styrki heldur að það sé haft samráð við ráðuneytið þannig að það viti um málið meðan það er í undirbúningi og áður en ákveðið verður hvar það fellur inn í framhaldsskólakerfið og hvernig það verður metið til námseininga.
    Ég vænti þess að hæstv. félmrh. sjái sér kleift að svara þessari fyrirspurn minni.