Greiðslur úr ríkissjóði

138. fundur
Laugardaginn 09. maí 1992, kl. 15:22:30 (6247)


     Flm. (Karl Steinar Guðnason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir málefnalega umræðu um þetta frv., sem er afar þýðingarmikið til að ná betri tökum á ríkisfjármálunum, og ég hygg að við séum sammála um að það sé mikil nauðsyn að gera frv. þannig úr garði, eins og við teljum að við höfum reyndar gert, að það þjóni þeim tilgangi að koma góðri skikkan á ríkisfjármálin.
    Hann varpaði fram ýmsum spurningum varðandi frv. og ég mun leitast við að svara þeim eftir því sem kostur er á. Frv. í þessari mynd hefur komið fyrir hv. Alþingi hvað eftir annað og ekki náð afgreiðslu, bæði vegna tímaskorts og einnig vegna þess að það hefur verið nokkur ágreiningur milli fjárveitinganefndar og fjmrn., það verður að segja það eins og er, en hins vegar gerðist það nú að fjárlaganefndarmenn gerðu sitt ýtrasta til þess að ná góðu samkomulagi á milli aðila og það tókst að mati okkar. Það er sátt um frv. á milli þessara aðila og ég vek athygli á því að það eru allir fjárlaganefndarmenn sem flytja frv. án tillits til þess í hvaða stjórnmálaflokki þeir eru.
    Hv. þm. spurði um 2. gr. og þá einkum með tilliti til kjarasamninga. Hv. þm. hélt því fram að með 2. gr. væri verið að takmarka umboð hæstv. fjmrh. í kjarasamningagerð. Við teljum hins vegar að svo sé ekki. Við vönduðum okkur sérstaklega við þetta. Við breyttum ákvæðinu frá því sem áður var. Það voru uppi áhöld um það þá að sú grein sem var í fyrra frv. hefði takmarkandi áhrif. Við teljum að sú grein sem nú er sé ekki þannig úr garði gerð. Ég vek athygli á því sem sagt er um 2. gr. í athugasemd við frv., en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði sem takmarkar vald fjmrh. til að gera kjarasamninga gæti valdið erfiðleikum við samningagerð, einkum ef ráðherra er ekki talinn hafa fullt umboð til samninganna. Því er hér litið svo á að fjmrh. þurfi að hafa óskorað vald til þess að gera kjarasamninga en sú skylda er lögð á hann að leita nauðsynlegra fjárheimilda í fjárlögum og fjáraukalögum til greiðslu í samræmi við gerða kjarasamninga.``
    Það er mat okkar og reyndar skilningur á frv. sem hér er til umræðu að þá er kjarasamningar hafa verið gerðir þurfi fjmrh. svo fljótt sem auðið er að leggja fyrir Alþingi fjáraukalög um þá gjörð, um þann kostnaðarauka sem af því verður, en launagreiðslum verði hagað í samræmi við hina nýju kjarasamninga þangað til það verður gert.
    Hvað varðar 3. gr. benti hv. þm. á ýmis dæmi sem voru klókindalega valin að mínu mati, en því er til að svara að alveg er ómögulegt eða ekki möguleiki á að telja upp hin ýmsu atriði þess efnis hvað er heimilt og hvað ekki. Það hlýtur að koma til í reglugerð að ákveða hvernig með svona mál verði farið, eins og t.d. uppskrift að áfengistegundum Áfengisverslunar ríkisins. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að svo verði.
    Hvað varðar 9. gr., sem hv. þm. spurði um líka, þá er ekki nokkur vafi á því að það ber að stefna að því að koma í veg fyrir að ríkissjóður geti gengið í hirslur Seðlabankans hvenær sem honum dettur í hug. Við sjáum fyrir okkur þau dæmi sem varða þessa hluti sem segja okkur að slík gjörð er síst til þess fallin að skapa aðhald og hefur verið gert allt of mikið af því að láta ríkissjóð lifa á yfirdrætti í Seðlabankanum. Kannski hefur verið erfitt að koma í veg fyrir þetta vegna þess að við höfum lifað í mjög ókyrrlátu þjóðfélagi fjármálalega séð og verðbólga var mikil. Það má vera að það sé þáttur í því að sá háttur

var á að taka bara yfirdráttarlán ef ríkissjóði vantaði fé, en ég bendi á að núna um þetta leyti skilst mér að yfirdráttur sé enginn í Seðlabankanum en á sama tíma í fyrra hafi yfirdráttur verið rúmlega 8 milljarðar. Hvar sem hefur þurft á lánsfé að halda hefur verið hægt að afla þess á innlendum markaði. Ég er ekki þar með að segja að búið sé að koma í veg fyrir þetta. Öðru nær. Ég á ekki von á því að þetta sé nema tímabundið ástand, það sé ástand sem vari um sinn, en auðvitað þarf, eins og ég sagði áðan, að stefna að því að þetta breytist og sú lagagrein sem hér liggur fyrir segir að að því skuli stefnt. Hins vegar kom fram í viðræðum milli fjárlaganefndarmanna og fjmrn. að það væri mjög óskynsamlegt að setja punktinn fyrir aftan þetta núna. Það yrði að vinna sig út úr þessum vanda, en stefna mjög hratt að því að koma þessum málum þannig fyrir að yfirdráttarheimildir yrðu ekki fyrir hendi heldur yrði að nota aðrar leiðir, ríkissjóður yrði að nota aðrar leiðir til að fá lánsfé. Það hefur komið til greina að hafa einhvern feril í þessu þar sem þetta yrði þrepað niður, en niðurstaðan varð að það yrði ákveðið í fjárlögum ár hvert hvernig skyldi með þetta fara.
    Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni. Það ber að stefna að þessu og það kemur reyndar fram hjá okkur að það eigi að gera og ég vona að það sé skilningur á því að það sé erfitt að lögfesta það á þessari stundu, menn verði að vinna sig út úr þessu og það verði gert með því að ákveða þetta hvert ár. Ef við settum nú slíkt ákvæði væri það ósköp svipað því og við settum ákvæði um að banna verðbólgu t.d. sem ég er hræddur um að mundi ekki halda mjög vel. En ég tek sem sagt undir að að þessu skal stefnt og ég vænti þess að það takist sem allra best núna þegar þjóðfélagið hefur efnahagslega orðið mikið kyrrlátara en áður.
    Hv. þm. gagnrýndi og það að við síðustu gerð fjárlaga hefði einstöku ráðherrum verið gefin laus heimild til að ráðstafa fjármunum í miklum mæli án þess að Alþingi kæmi þar að. Ég tel að þarna hafi verið um sérstakt tímabundið ástand að ræða, eins og reyndar kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, og þetta sérstaka ástand vona ég að vari alls ekki lengi. En ég bendi á að það er fjmrh. sem hefur þessa heimild í samráði við viðkomandi fagráðherra, en þarf að leita samþykkis fjárlaganefndar til að þessi gjörð verði lögmæt eða geti staðið samkvæmt lögunum. Það er rétt að þetta er nokkuð sem má ekki endurtaka, a.m.k. ekki oft, en í erfiðleikunum sem blöstu við við gerð síðustu fjárlaga var gripið til þessa ráðs.
    Hv. ræðumaður gerði líka að umtalsefni að það væri óeðlilegt að frv. yrði vísað að lokinni umræðu til fjárln. Ég vek athygli á því að þegar frv. var til umræðu síðast voru þingsköpin önnur og ekki hægt að vísa lagafrumvörpum til fjvn. vegna deildaskiptingarinnar, en í þingsköpum sem við störfum eftir nú er heimilt að gera slíka hluti. Fjárln. fjallar um málefni sem mjög tengjast fjmrn. og þingsköpin gera ráð fyrir því að frv. eins og þessu yrði vísað til hennar.
    Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort eðlilegt er að frv. sem nefnd flytur fari til hennar aftur, en ég leitaði til starfsmanna þingsins um hvort það væru fordæmi fyrir slíku og mér var tjáð að þau væru býsna mörg. Við freistumst til að leggja það til að þessi háttur verði hafður á vegna þess að fjárln. þekkir þetta mál betur en aðrar nefndir, á þessu stigi alla vega, og hefur fjallað um málið mjög grannt. Málið er mjög brýnt og ég á von á því að með þessu móti verði unnt að flýta málinu frekar en ella hefði orðið.