Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:34:13 (6375)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt, eins og áður hefur komið fram í umræðunni, að það hafa verið haldnir tveir samráðsfundir með sjútvn. Það var einmitt lögð áhersla á það, þegar þetta endurskoðunarstarf hófst, að samráðsfundir þessara aðila gætu farið fram á þann veg að endurskoðunarnefndin hefði frumkvæði að slíkum fundum eða þá á hinn bóginn að sjútvn. sjálf hefði slíkt frumkvæði til þess að kalla eftir upplýsingum og til að koma fram sínum eigin sjónarmiðum. Fyrst og fremst var það haft í huga að með þessu móti væri sjálfstæði hv. sjútvn. virt svo sem vera ber varðandi frumkvæði að því að kalla eftir upplýsingum og koma sjónarmiðum af sinni hálfu á framfæri sem nefndin getur hvenær sem er gert og í sérstöku bréfi sem nefndinni var skrifað var á þetta bent.
    Að því er varðar verðmæti sjávarafurða með tilvísun í Alþýðublaðið ætla ég ekki að rengja upplýsingar sem þar komu fram. En þótt ártöl hafi ekki verið nefnd í því efni þykir mér sennilegt, miðað við það sem þar var sagt, að þar hafi verið um að ræða verðbreytingar á milli áranna 1990 og 1991. Eins og hv. þm. vita er það fyrst raunverulega í byrjun þessa árs sem þess fer að gæta að marki að verðið á erlendum mörkuðum hafi farið lækkandi.