Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:45:42 (6383)


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að spyrjast fyrir um það hvort hæstv. utanrrh. er hér í húsinu. ( Forseti: Já. Samkvæmt viðveruskrá er hann í húsinu.) Ég vil óska eftir því að hann sé hér viðstaddur ef hann á þess kost. Meðan hæstv. utanrrh. er á leið hingað í þingsalinn vil ég segja það almennt að það kom fram hjá hæstv. sjútvrh. sú framtíðarsýn að núv. ríkisstjórn mundi sitja í 12 ár eða jafnlengi og viðreisn. Hún mundi því hafa góðan tíma til að huga að þessum málum. Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. hafi ekki átt við það að hann eigi sér þá framtíðarsýn að hann vænti þess að sjávarútvegurinn verði orðinn hallalaus í lok þessa tímabils því að ef það er stefnan þá er það enn þá harkalegri gjaldþrotastefna en nokkru sinni áður hefur verið kynnt. Það verða fá fyrirtæki eftir að þeim tíma liðnum.
    Hæstv. utanrrh. virðist ekki hafa neinar áhyggjur af þessari stöðu og þegar þær staðreyndir eru raktar að gengið er nokkru hærra en það var þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir 1990 og spurt um hvort hægt sé að reikna með því að atvinnugrein, sem hefur orðið fyrir verulegum aflasamdrætti og verulegu verðfalli, geti búið við hærra gengi en hún gerði þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í febrúar 1990. Telur hæstv. utanrrh. að gengið eigi að halda áfram að hækka eins og spáin er fyrir þjóðarbúskapinn 1992 á þessum línuritum? Þar er gert ráð fyrir því að gengið muni halda áfram að hækka á árinu 1992. Er það hagfræði hæstv. utanrrh. að sjávarútvegurinn eigi að glíma við aflasamdrátt með hagræðingu, að hann eigi að glíma við verðfall með hagræðingu og samhliða eigi hann líka að glíma við hækkandi gengi? ( Gripið fram í: Og Alþfl.) Ég tala nú ekki um ósköpin, Alþfl.
    Hæstv. utanrrh. kemur í útvarpsumræður í gær og segir að ég hafi verið að krefjast gengisfellingar. Ég var ekki að krefjast gengisfellingar enda hef ég ekki valdið til þess og vænti þess ekki að hafa mikil áhrif á hæstv. utanrrh. Hins vegar ætlast ég til þess að hæstv. utanrrh. geri þjóðinni grein fyrir því hvaða kröfur hann gerir til sjávarútvegsins. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh.: Er það ekki hann og hans flokkur sem er að krefjast stærstu gengisfellingarinnar með því að krefjast þess aftur og aftur að hér verði lagður á auðlindaskattur? Hvaða hugmyndafræði er á bak við auðlindaskattinn? Er sú hugmyndafræði á bak við auðlindaskattinn að hann verði einfaldlega lagður á og sjávarútvegurinn sveltur og píndur í gjaldþrot og á hnén? Er það hugmyndafræðin? Það er ekki það sem hagfræðingarnir segja. Það er ekki það sem hagfræðingarnir í Seðlabankanum og háskólanum segja þegar þeir tala um auðlindaskattinn. Mér hefur sýnst vera allgott samband á milli Alþfl. og margra þessara manna. Nei, ekki aldeilis. Þeir segja: Þetta verður allt í lagi fyrir sjávarútveginn því að við þurfum að fella gengið um leið. Samhliða auðlindaskattinum fellum við gengið. Ég vil því biðja hæstv. utanrrh. að útskýra það fyrir þjóðinni hvernig þetta á að ganga upp á sama tíma og hann kemur hér og segir að þeir menn séu allt að því ekki með fullu viti sem

ætli sér að krefjast gengisfellingar. Ég var ekki að krefjast þess. Og það var ekki hæstv. utanrrh. sæmandi að snúa út úr mínum orðum með þessum hætti.
    Ég hef í fyrsta lagi sett fram þá kröfu að ríkisstjórnin taki til baka þær álögur sem hún hefur verið að leggja á atvinnugrein sem er rekin með tapi. Var gert ráð fyrir því þegar þjóðarsátt náðist 1990 að lagðar yrðu slíkar álögur á þessa atvinnugrein? Nei, ekki aldeilis. Og hvernig ætli mörgum líði að þurfa sífellt að hlusta á það að nú þurfi að ráðast í það verk að taka gjald af þessari atvinnugrein? Ég heyri ekki betur en hæstv. utanrrh. ætli að skipta um stól og fara í annað ráðuneyti til að geta sinnt þessum málum betur. Það er fyrirkvíðanlegt fyrir þessa atvinnugrein að fá hann í þann stól án þess að ég viti hver hann er. Ég vil líka spyrja hæstv. utanrrh. einnar spurningar: Hvernig hefur hann hugsað sér að staðið verði að útflutningsmálum sjávarútvegsins? Er það ekki rétt, hæstv. utanrrh., að þú sagðir þeim aðilum sem standa í saltfiskútflutningi að einkaleyfi SÍF yrði ekki breytt fyrr en gengið yrði frá samningi um EES og þau mál komin á hreint? Er það rétt að þrátt fyrir loforð til þessara aðila hafi utanrrn. veitt ýmsum aðilum slík leyfi? Er það rétt að þessar leyfisveitingar og óvissa um þær hafi orðið til þess að rugla markaðinn erlendis og valdið verulegu verðfalli og tapi fyrir íslenskan sjávarútveg? Ég er ekki að halda því fram að hæstv. utanrrh. vilji með vísvitandi hætti standa í slíkum æfingum. En þetta hefur komið fram og ég vænti þess að hæstv. utanrrh. viti að það er hvað mest tap í saltfiskverkun nú á þessum vetri og þar hafa verið verulegir erfiðleikar.
    Þess er krafist að við stjórnarandstæðingar komum með úrræði í þessum efnum. Ég get tekið undir það að hér eru engar töfralausnir en menn þurfa að fá einhvern frið. Menn þurfa í fyrsta lagi að fá þann frið að hætt sé að tala um endalausa skattlagning á atvinnugrein sem er rekin með tapi. Ég heyri að hæstv. forsrh. hefur upplýst það hér í kvöld að stjórnarflokkarnir muni að sjálfsögðu koma sér saman um stefnu í þessum málum og vitnar til þess að innan þeirra veggja séu engin undirmál. Ekki veit ég hvers vegna það var sérstaklega tekið fram og átta mig ekki á því. En stefnan liggur ekki fyrir hjá stjórnarflokkunum og meðan menn eru að ýtast á um þessa hluti býr atvinnugreinin við verulega óvissu og væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. utanrrh. ætlar enn að auka skattlagninguna á sjávarútveginn án þess að breyta genginu. Ef ég hef heyrt rétt þá á það enn að hækka.
    Ég vildi aðeins út af því sem fram hefur komið ítreka að við sem störfum í stjórnarandstöðunni höfum farið þess á leit að eiga meiri aðild að endurskoðun fiskveiðistefnunnar. Við teljum það ekki eðlilegt að stjórnarflokkarnir vinni einir að þessu máli og þótt fram séu sett fögur orð um samráð við sjútvn. þingsins þá verðum við afar lítið vör við það. Við höfum farið fram á að fá upplýsingar. Í síðustu viku fórum við þess á leit að fá að ræða við þessa nefnd. Það hefur ekki enn verið hægt að verða við því. Við fórum þess líka á leit við varaformann nefndarinnar að fá upplýsingar um undirbúningsviðræður sem eiga sér stað um tvíhliða samning um sjávarútvegsmál milli Íslands og Evrópubandalagsins. Það hefur ekki verið hægt að verða við því þannig að það þarf ansi mikla eftirgangsmuni í þessu sambandi.
    Því var haldið fram af hæstv. sjútvrh að verið væri að vinna að þessu skref fyrir skref og menn virtust vera nokkuð sammála. Við erum ekki sammála um þá skattlagningu sem ákveðin var á sjávarútveginn í vetur. Við erum ekki sammála þeim breytingum sem áttu sér stað á löggjöfinni um Úreldingarsjóð og þó að það sé rétt að styrkir Úreldingarsjóðs hafi verið auknir þá hefur verið dregið úr tekjum hans. Sá sjóður mun ekki endast að eilífu, enda hefur mikið fé farið út úr honum og er hann þó dæmi um sjóð sem var til þegar núv. ríkisstjórn tók við. Hingað til hefur hins vegar mest verið talað um tóma sjóði. Það er líka annar sjóður sem miklir peningar eru í sem er Verðjöfnunarsjóður og hlýtur að koma til umfjöllunar varðandi þann mikla vanda sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir. Sá sjóður er ekki tómur. Þess vegna er það málflutningur sem ekki er sæmandi að vera alltaf að tala um að allir sjóðir hafi verið tómir og allt hafi verið gjaldþrota. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. taki ekki undir það þótt mér hafi fundist hann gera það, annaðhvort með þögninni eða taka undir sönginn með hæstv. forsrh. þegar hann kemur og upplýsir þjóðina og þingið um tómu sjóðina á milli þess sem hann hellir skömmum yfir þingið fyrir háttalag þess.
    Ég býst við því að þessi umræða sé dæmi um það að menn séu að teygja lopann. Að vísu var hæstv. sjútvrh. ekki þeirrar skoðunar því að hann taldi að þessi umræða væri mikilvæg og ég hafði haldið að það væri mikilvægt að þjóðinni væri ljóst að við höfum áhyggjur af þessum málum hér á Alþingi og við viljum fá upplýsingar um það sem er að gerast. Og við viljum taka á því með ábyrgum hætti því að hér eru engin gamanmál á ferð. En ég vísa ummælum hæstv. utanrrh. til föðurhúsanna og væri honum nær að koma hér í ræðustól og reifa hugmyndir sínar um það hvernig eigi að bregðast við þessum mikla taprekstri eða er hæstv. utanrrh. harla ánægður með þessa stöðu og telur hann rétt að þetta verði bara si svona?