Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:52:29 (6392)


     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Forseti. Það væri gaman, vegna þess að hæstv. utanrrh. hefur verið að tala um fjarvistir manna hér í kvöld, að fá hann til að segja okkur hvar þeir eru, hinir ráðherrarnir sem standa þversum fyrir því að lausn fáist á vanda sjávarútvegsins, hvar þeir eru í kvöld, hvar þeir hafa verið í dag og hvar þeir hafa verið í nótt meðan þessi umræða hefur farið fram. Við söknum þeirra. Þeir skulda okkur svör, hæstv. utanrrh.
    Það var einnig rétt að leiðrétta það sem hæstv. utanrrh. sagði og staglaðist á skólabókardæminu sem

honum er gjarnt að tala um. Er það skólabókardæmi, hæstv. utanrrh., að það sé leið að hækka vexti og státa svo af því að menn geti lækkað vexti? Það voru aðferðirnar sem þín ríkisstjórn beitti og var þess vegna búinn að koma sjávarútveginum kné. Og vísvitandi fer utanrrh. með rangt mál þegar hann talar um það að sjávarútvegurinn sé svo skuldsettur að hann geti ekki staðið í skilum. Það er rangt. Og það veit hæstv. utanrrh. vegna þess að árið 1990 var sjávarútvegurinn rekinn með hagnaði. 1991 var sjávarútvegurinn rekinn að vísu með tapi upp á 0,5% en það var eftir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var tekin við og fór að hamra á þessari atvinnugrein. Þetta er það sanna í málinu. Það er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem er að knésetja þessa atvinnugrein.