Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mér var ekki ljóst fyrr en nú að þegar menn kveðja sér hljóðs um gæslu þingskapa, þá er farið í mannvirðingaröð en ekki eftir þeirri röð sem menn biðja um orðið þannig að fyrst komi forsrh. og síðan óbreyttur þingmaður þó röðin hafi verið önnur þegar um orðið var beðið. Ég vil í sjálfu sér ekki gera athugasemdir við það. Það skaðar ekki það sem ég hafði hugsað mér að færa fram.
    Ég tek undir þær óskir og legg að forseta að gera ráð fyrir því að ljúka umræðu um byggðamál. Þeirri umræðu var frestað 26. nóv. á síðasta ári og það eru að verða komnir á sjötta mánuð síðan málinu var frestað. Þetta var ekki málþófsmál stjórnarandstöðunnar. Það var ekki stjórnarandstaðan sem teygði úr þessum umræðum sem að vísu hæstv. forsrh. lét svo um mælt þá að hefðu staðið í 20 tíma en segir nú 30--40. Látum það liggja á milli hluta þó að það teygist úr tímanum á fimm mánuðum hjá hæstv. forsrh. En þetta voru umræður þar sem þingmenn höfðu tekið virkan þátt í málinu úr öllum flokkum. Þetta er eina málið á þessu þingi sem ég hef orðið var við það að þingmönnum stjórnarliðsins líðist að tala í máli, þar sem ,,haltu-kjafti-lína`` hæstv. forsrh. hafi ekki dugað til að þagga niður í þingmönnum.