Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 12:01:45 (6493)


     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Þetta voru ekki mjög skýr svör því að það kom fram hjá ráðherra að ekki hefði verið gengið endanlega frá reglum um þennan verðlaunasjóð og ekki hefði verið gengið frá því hvernig ráðuneytið kæmi inn í myndina. Með öðrum orðum, það væri búið að ákveða það eitt að ráðuneytið legði til verðlaunaféð fyrsta árið en annað væri óljóst.
    Nú hefur komið fram, þó að það hafi ekki komið fram í máli ráðherra áðan, hvernig þessi samkeppni á að verða, en það hefur komið fram í fjölmiðlum að menn hafa verið að tala um handritasamkeppni. Og ég vek athygli ráðherra á því, þegar farið verður að setja þær reglur sem gilda munu um þessi verðlaun, að handritasamkeppni á vegum eins forlags með styrk af opinberu fé er til þess að mismuna forlögum. Það skekkir samkeppnisstöðu forlaga á markaðnum. Hvaða ungur rithöfundur sem er að byrja á ritvellinum vill ekki fá verðlaun sem kennd eru við sjálft höfuðskáldið Halldór Kiljan Laxness? Verði þetta handritasamkeppni mun hún laða til sín handrit allra efnilegustu byrjendanna og þau munu öll fara inn í eitt tiltekið forlag, en önnur forlög munu ekki fá til sín nein handrit. Þetta mundi skekkja verulega samkeppnisstöðu bókaútgefenda í landinu sem er mjög varasamt fyrir ríkið að gera og sérstaklega nú þegar forlögin eiga öll í ákveðnum erfiðleikum vegna samdráttar í þjóðfélaginu og þar af leiðandi í bókasölu og á bókamarkaði.